Áfengisneysla
Fimmtudaginn 14. febrúar 1991


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Af því að beint var til mín orðum um forvarnarstarf í skólum landsins, þá vil ég vísa til rits sem dreift er til allra þingmanna í dag sem heitir ,,Forvarnarstarf í grunnskólum`` og liggur í hólfum þingmanna, og lítur svona út ef menn skyldu ekki hafa tekið eftir því, þar sem farið er ítarlega yfir þessi mál, bæði almennt og svo í einstökum skólum. Það er vísað til víðtæks samstarfs um vímuvarnir sem hefur tekist að koma á. Það er sagt frá nýju kennsluefni í grunnskólum þar sem rætt er um þau mál við Stefán Bergmann, lektor við Kennaraháskóla Íslands, sem hefur undirbúið þetta og annast. Síðan er sagt frá nýjum ákvæðum í aðalnámsskrá grunnskóla sem ber yfirskriftina ,,Heilbrigð og ábyrg umgengni við líf og umhverfi.`` Síðan er sagt frá Lions quest verkefninu sem er mjög mikilvægt verkefni og hefur tekið til sín þó nokkra fjármuni og það er ekki eftir þeim séð. Það er samdóma álit þeirra sem um málin hafa fjallað að þetta sé nokkuð gagnlegt verkefni sem er samstarfsverkefni ríkisins og Lions-hreyfingarinnar. Í sjálfu sér held ég því að talsvert hafi verið gert. Hins vegar er ég algerlega sammála hv. 4. þm. Vesturl. um að það hefur ekki verið gert nærri nóg. Það er líka alveg ljóst að þau varnaðarorð sem við höfðum uppi, bæði ég og hann, þegar bjórinn var samþykktur á sínum tíma, hafa því miður reynst rétt.