Fyrirspyrjandi (Málmfríður Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Að undanförnu hefur komið upp að nokkur brögð séu að því að fólk verði að leita sér læknishjálpar utan tryggingakerfisins. Öll erum við þátttakendur í almannatryggingakerfinu sem er til þess ætlað að tryggja okkur jafna aðstöðu til læknishjálpar. Hins vegar eru læknar ekki skyldugir að taka greiðslu gegnum tryggingakerfið og margir kjósa að starfa utan þess. Þess vegna getur sú staða komið upp að sú læknisaðstoð sem fólk þarf á að halda sé ekki föl innan tryggingakerfisins. Dæmi eru um að fólk hefur þurft að kosta stórfé til aðgerða sem gerðar eru af læknum sem ekki eru á samningi við Tryggingastofnun.
    Ég get nefnt dæmi þess að maður þurfti á liðaðgerð að halda. Hann var að fara í nám til útlanda og vildi ljúka sjúkrahúsvist áður en hann hæfi námið. Honum var tjáð að á annað ár mundi líða áður en hann kæmist að hjá lækni sem væri með samning við Tryggingastofnun. Hann taldi sig ekki geta beðið svo lengi og hefði e.t.v. orðið að hverfa frá námi, þar sem aðgerðin var óumflýjanleg, svo að hann tók þann kost að leita til læknis utan kerfisins. Sú læknisaðgerð kostaði á annað hundrað þús. kr. Og það má nefna fleiri dæmi þess að fólk neyðist til að leita sér aðstoðar utan kerfisins.
    Fólk hefur talið að með skattgreiðslum hafi það tryggt sér rétt til læknishjálpar í gegnum almannatryggingakerfið. Síðan kemur í ljós að e.t.v. eru svo fáir læknar í greininni að lengri tíma tekur að komast að í aðgerð heldur en viðkomandi getur unað eða e.t.v. er enginn, sem sinnir tilfelli af þeim toga sem um er að ræða, á samningi hjá Tryggingastofnun. Engin gjaldskrá er í gildi fyrir sérfræðinga sem starfa utan kerfisins og illt er að una því að þrátt fyrir okkar góða kerfi skuli vera slík brotalöm á því að fólk get ekki verið öruggt um að eiga kost á þeirri þjónustu sem það á þó rétt á og verði að leita á náðir einkaframtaksins í þessum efnum með þeim kostnaði sem því fylgir og sumum er ofviða. Því hef ég leyft mér á þskj. 558 að leggja spurningar fyrir hæstv. heilbr. - og trmrh.