Farþegaflutningar með ferjum
Fimmtudaginn 14. febrúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir) :
    Virðulegi forseti. Aðeins vegna orða hv. 16. þm. Reykv. vil ég taka fram að þessi fsp. var ekki fram borin til þess að draga í efa hæfni skipstjóra þessa umrædda skips og það er í raun og veru óþarfi að hafa um það fleiri orð. Fyrst og fremst var fsp. borin fram vegna þess að ég tel að hér þurfi að setja reglur. Það er auðvitað alrangt hafi Siglingamálastofnun sagt að þessi sigling hafi verið með ,,eðlilegum hætti``. Það var hún auðvitað ekki. Ferð sem tekur venjulega innan við klukkustund tók næstum því þrjár stundir. Það kom fram í fréttum að börnin voru fárveik alla leiðina, allur þorri þeirra. Þannig að líðan þeirra hefur sennilega ekki verið með besta móti. Ég held því að hér sé alveg nauðsynlegt að setja einhverjar reglur.
    Það kom fram í fréttum af þessari siglingu að þegar skipið kom til Reykjavíkur varð ekki siglt til baka vegna þess að það var ekki hægt að ferma skipið, það var ekki hægt að koma bílum um borð. Og það er auðvitað hárrétt sem hv. 5. þm. Vesturl. segir, að á sama tíma og fólk var beðið um að vera ekki á ferðinni er aðstandendum 70 barna stefnt niður að höfn til að sækja börnin sín. Þetta er auðvitað vítavert, það verður ekki annað sagt, og í algjöru ósamræmi við allar aðrar ráðstafanir sem verið var að gera í landinu.
    Vitanlega voru skip á sjó þegar veðrið skall á og við því varð auðvitað ekki gert. En það sem skiptir máli hér er að það var lagt af stað með 70 börn í veðri sem var verra en elstu menn muna.