Brunavarnir í skólum
Fimmtudaginn 14. febrúar 1991


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Út af síðustu athugasemd hv. 1. þm. Vesturl., þá er það svo að Brunamálastofnun hefur ekki slíka heimild í dag til að beita t.d. lokun eða dagsektum ef ekki er farið eftir þeim atriðum sem Brunamálastofnun bendir á til úrbóta í þessum efnum. Það hefur komið í ljós í þeim 2000 úttektum sem hafa verið gerðar á undanförnum 2 -- 3 árum, að það er, eins og fram hefur komið í mínu máli, mjög víða úrbóta þörf í þessum málum. Það er fyrst og fremst eldvarnareftirlit í sveitarfélögum og slökkviliðsstjórar sem hafa heimild til að beita lokun eða dagsektum. Þeim heimildum hefur lítið verið beitt til þessa en það er ekki nóg að gera slíkar úttektir ef þeim er ekki framfylgt.
    Næsta verkefni Brunamálastofnunar að lokinni þeirri úttekt sem nú er eftir á Reykjavíkursvæðinu er að fylgja eftir þessum úttektum og athuga hvernig þeim hefur verið framfylgt. Í því frv. sem verður fljótlega lagt fyrir þingið er þessu breytt þannig að Brunamálastofnun mun fá slíka heimild til lokunar og til að beita dagsektum. Ég held satt að segja að það þurfi að beita því í miklu meira mæli til þess að framfylgja því að úrbætur séu gerðar sem eru oft kostnaðarsamar en í sumum tilfellum kosta þær ekki mikið og er oft hreinn trassaskapur að þær eru ekki gerðar. Ég held að það sé nauðsynlegt að beita slíkum ákvæðum í meira mæli heldur en gert er. Á þessu verður tekið í því frv. sem ég mun leggja fram hér næstu daga.