Skýrsla Ríkisendurskoðunar um Þormóð ramma
Fimmtudaginn 14. febrúar 1991


     Geir H. Haarde :
    Virðulegi forseti. E.t.v. mætti halda því fram eftir þær löngu umræður sem orðið hafa um þetta mál í sölum þingsins að það sé þrautrætt. Þó er það nú þannig að mínum dómi að ástæða er til þess að hnykkja hér á nokkrum atriðum og gera athugasemdir við eitt og annað sem fram hefur komið af hálfu hæstv. fjmrh. í þessari umræðu og sömuleiðis vinnubrögð hans í málinu yfirleitt. Ég vil þó byrja á því að láta þess getið að ég fagna því út af fyrir sig ef það er orðin stefna Alþb. að draga úr umsvifum ríkissjóðs í atvinnulífinu eins og mátti skilja af ræðu hæstv. ráðherra. Það ber þá nýrra við og er vissulega fagnaðarefni ef gömlu kommúnistarnir sumir hverjir í Alþb. eru nú orðnir þeirrar skoðunar að ríkið eigi að hafa sem minnst umsvif í atvinnulífinu. Ég tel að þessari stefnubreytingu Alþb. beri að fagna og því sérstaklega ef hann hefur nú tekið upp þá stefnu Sjálfstfl. að minnka umsvif ríkisins í atvinnulífinu og selja ríkisfyrirtæki. Reyndar kom það fram í svari hæstv. fjmrh. við fyrirspurn frá þeim sem hér stendur sl. fimmtudag að það væri hans skoðun að ríkið ætti ekkert að vera að vasast í atvinnurekstri þar sem aðrir aðilar væru fyrir. Ég er þessu alveg hjartanlega sammála.
    Spurningin er hins vegar þessi þegar alþýðubandalagsformaðurinn er að framfylgja þessari nýju stefnu Alþb.: Hvernig er staðið að málum? Og hann lét þess getið í sinni fyrstu ræðu að löggjöf um þetta málefni væri ófullkomin. Það er rétt að hún er ekki jafnafdráttarlaus og hún e.t.v. ætti að vera. Svo sá hann ástæðu til þess að fara nokkrum hnjóðsorðum um embættisstörf fyrrv. fjmrh. Alberts Guðmundssonar í sambandi við þessi mál sem ég vil leyfa mér að vísa á bug.
Hins vegar er það staðreynd varðandi löggjöf um sölu á hlutabréfum eða meðferð eigna ríkissjóðs að í fyrra var lagt fram sérstakt frv. á Alþingi um hvernig með þau mál skyldi fara. Og það er fyrir tilverknað fjmrh. sem það mál hefur ekki enn séð dagsins ljós á þessu þingi. Það er fyrir tilverknað fjmrh. að ekki er nú þegar búið að setja skýrar reglur um þessi mál. Ef frv. fjvn. um fjárgreiðslur úr ríkissjóði, sem var lagt hér fram í fyrra, hefði orðið að lögum á því þingi, þá hefði þetta mál aldrei komið upp. Ég bar fram fyrirspurn til fjmrh. fyrr á þessu þingi hvað liði meðferð þess máls. Hann hafði þá uppi stór orð um það að þetta mál kæmi hér fram endurskoðað og í miklu betra horfi heldur en það hefði verið í fyrra en það bólar enn þá ekkert á því, ekki nokkurn skapaðan hlut. Fjmrh. getur því sjálfum sér um kennt og engum öðrum ef hann vill vera hér að býsnast yfir því að hann hafi ekki haft nógu skýrar reglur eða löggjöf til þess að fara eftir varðandi þessi mál. Þannig er nú það atriði í málinu.
    Það sem ég hins vegar vil gera að aðalumtalsefni er annars vegar spurningin um þá jafnræðisreglu sem skylt er að viðhafa þegar ríkið er á ferðinni með sölu sinna eigna. Og í öðru lagi þá aðför sem hæstv. fjmrh. hefur leyft sér að hefja gagnvart Ríkisendurskoðun. Fjmrh. fór með langt mál í sinni fyrstu ræðu um einstök atriði í mati manna á verðmæti þeirra eigna sem hér var verið að selja. Hann hélt því reyndar fram að Ríkisendurskoðun teldi að hægt væri að finna eina tölu sem væri hið endanlega söluverð á þessum fyrirtækjum, þó svo að Ríkisendurskoðun sjálf hefði talað um tölur á bilinu 250 -- 300 millj. kr. Þar var því strax rangt með farið. En aðalatriðið í þessu máli, eins og ég held að fjmrh. hafi sjálfur verið að reyna að segja með sínum útúrsnúningum og dylgjum í garð Ríkisendurskoðunar, var það að hina færustu menn getur greint á um það hvað sé hið rétta mat á fyrirtæki sem þessu. Þó að menn séu ekki sammála um það mat, þó að tveir sérfræðingar komist ekki að sömu niðurstöðu um slíkt mat, þýðir það ekki að annar aðilinn sé fáviti eða faglega óhæfur eða fræðilega úti á þekju, eins og hæstv. fjmrh. sagði beinum orðum um Ríkisendurskoðun. Fjmrh. lýsti því yfir að Ríkisendurskoðun væri faglega og fræðilega ekki starfi sínu vaxin á þessu sviði. Hvað hefur hún til saka unnið í því máli annað en það að hafa komist að annarri niðurstöðu eftir þeim aðferðum sem beitt var?
    Ég dreg enga dul á það að Sigurður B. Stefánsson, framkvæmdastjóri Verðbréfamarkaðar Iðnaðarbankans, og Ólafur Nilsson endurskoðandi (Fjmrh.: Íslandsbanka.) eru mjög virtir og færir menn. (Ef hæstv. fjmrh. gæti nú setið hér kyrr fyrir taugaveiklun sinni og hlustað án þess að vera sífellt að grípa fram í, þá er mér það vel ljóst að Verðbréfamarkaður Iðnaðarbankans heitir nú Verðbréfamarkaður Íslandsbanka, ef honum finnst það vera eitthvert atriði að koma því hér inn í þessa umræðu.) Þetta eru virtir menn sem tekið er mark á. En skoðanir þeirra og skoðanir annarra endurskoðenda í þessu máli fara greinilega ekki saman. Að vísu er það þannig að það er eitt að ætla að selja þessi hlutabréf á hlutabréfamarkaðinum hér, eins og mun hafa verið rætt við forstöðumann Verðbréfamarkaðar Íslandsbanka, og svo hitt að bjóða fyrirtækið út í heilu lagi, sérstaklega eftir að búið er að fella niður eitthvað af skuldum þess í millitíðinni eða breyta þeim í hlutafé.
    En það sem ég vil leggja áherslu á varðandi þetta mat er nákvæmlega það sem felst í orðinu mat: Það er matsatriði. Og það er fullkomlega lágkúrulegur málflutningur, sem ekki er fjmrh. sæmandi, að gera því skóna að vegna þess að Ríkisendurskoðun hafi komist að annarri niðurstöðu, þá sé þar um að ræða faglega óhæfa og fræðilega vankunnandi menn sem ekki séu starfi sínu vaxnir.
    Spurningin um hvert sé mat á verðmæti þessarar eignar er auðvitað mikilvæg í þessu máli þó svo að ekki sé rétt það sem hv. þm. Ragnar Arnalds hélt hér fram, að þetta mál snerist um það eitt hvert væri hið rétta mat á fyrirtækinu. Ég tel ekki að svo sé, vegna þess að ég tel mjög erfitt að ætla að kveða upp úr um eitthvert slíkt endanlegt mat. Hins vegar er það þannig, eins og reyndar kom fram bæði hjá hv. þm. Ragnari Arnalds og hæstv. fjmrh., að það er til tiltölulega einföld leið til þess að komast að því hvað megi fá fyrir tilteknar eignir. Það atriði snertir einmitt

það sem ég tel vera gagnrýni vert í þessu máli. Það er það hvernig að þessu útboði var staðið, hvernig að þessari sölu var staðið, vegna þess að það var aldrei gefið færi á því að markaðurinn, sem hæstv. fjmrh. dásamaði sem mest í sinni ræðu, gæfi svör við spurningunni: Hvað er hægt að fá fyrir þetta fyrirtæki? Ég greip hér fram í þegar fjmrh. fór sem víðast og geystast um völlinn og talaði um markaðsverð, og hvort markaður ætti ekki að ráða frekar en einhverjir menn á skrifstofum hjá ríkinu. Ég greip hér fram í og benti honum á að hann hefði ekkert gefið kost á því. Það var markaðurinn á Siglufirði, meira að segja í takmörkuðum mæli, sem fékk tækifæri til þess að spreyta sig varðandi þetta fyrirtæki.
    Fjmrh. vildi gera lítið úr því og vék að því lítillega í lok ræðu sinnar að fyrirtækið hefði ekki verið auglýst. Hann sagði sem svo, að vissulega hefði mátt auglýsa fyrirtækið í Morgunblaðinu. Það hefði auðvitað mátt gera það, sagði hann. Og það hefði auðvitað mátt hafa eitthvert slíkt útboð en það væri algert aukaatriði, sagði hann, en víkur samt að þessu með þeim hætti að það er alveg ljóst að ráðherrann gerir sér grein fyrir því að hinn snöggi blettur á hans málflutningi er einmitt hér. Ég get bent honum á a.m.k. tvær aðferðir, sem hefðu verið fullkomlega ásættanlegar og yfir gagnrýni hafnar, við það að koma þessum bréfum í verð og tryggja áframhaldandi starfsemi á Siglufirði. Önnur hefði verið sú einfaldlega að auglýsa fyrirtækið með þeim skilyrðum að starfsemin héldi áfram á Siglufirði en gefa öllum jafnan kost á því að bjóða í fyrirtækið og þá þeim sem nú væru með starfsemi annars staðar kost á því að flytja sig til Siglufjarðar og halda starfseminni gangandi þar. Fjmrh. hefur stært sig af því að hafa selt lagmetisiðjuna Sigló utanaðkomandi fyrirtæki sem mundi setjast að á Siglufirði. Því hefði ekki mátt gefa öðrum aðilum kost á því að gera hið sama? Þetta hefði verið ein aðferð sem er líklegt að hefði verið yfir gagnrýni hafin.
    Hin aðferðin hefði verið sú að auglýsa bréfin þannig að áskilið væri að fjmrh. gæti tekið hvaða tilboði sem væri eða hafnað öllum. Þá hefði komið í ljós hvað markaðurinn hefði viljað gefa fyrir þetta fyrirtæki. Þá hefði jafnframt komið í ljós hvert væri hæsta tilboðið á Siglufirði eða hæsta tilboð frá þeim aðila sem þar vildi starfa. Þá hefði þessi mismunur komið í ljós, ef hann er þá einhver. Þar með hefði auðvitað komið í ljós hvað ríkið væri þá að borga með þessu fyrirtæki til Siglufjarðar. En það hefði verið hægt, með þessum áskilnaði sem ég nefndi, að taka síðan hæsta tilboði frá Siglufirði eða þeim aðila sem þar vildi starfa.
    Ég hygg að fjmrh. hefði getað sparað sér þessar umræður hér allar ef hann hefði kosið að viðhafa þessi vinnubrögð. Það er síðan algert aukaatriði að mínum dómi hvort fjmrh. finnst það við hæfi að fá samþykki þingmanna kjördæmisins fyrir ráðstöfun eignar eins og þeirrar sem hér er um að ræða. Ég tel ekki að það sé út af fyrir sig --- þó að það sé alls ekki gagnrýnivert að hafa samráð við þingmenn kjördæmisins --- nein trygging fyrir því að eðlilegt verð

fáist að þingmenn kjördæmisins leggi blessun sína yfir það. Ég tel nú einmitt að í þeim reglum, sem um þetta ætti að setja, þá ætti að tryggja að mál geti gengið fram með eðlilegum hætti þó svo að þingmenn kjördæmisins hafi einhverjar tilteknar skoðanir á málinu.
    Hér hafa menn verið að gera að umtalsefni sölu ríkisins á lagmetisiðjunni Siglósíld en það hefur gleymst að um þá sölu voru samþykkt sérstök lög og allir þingmenn höfðu aðgang að upplýsingum um það mál. Hv. þm. Ragnar Arnalds gerði að umtalsefni sölu ríkissjóðs á graskögglaverksmiðjunni Vallhólma, sem var gjaldþrota, sem var þrotabú og átti reyndar þannig sögu, m.a. fyrir hans tilverknað, að það mátti þakka fyrir að hægt var að koma einhverju af þeim eignum í verð. En það er ekki rétt sem hæstv. fjmrh. hélt fram að það væri aukaatriði hvernig staðið væri að sölu eigna sem þessara og það væri aukaatriði að gefa öllum jafnan kost á því að bjóða í þessar eignir sem á því kynnu að hafa áhuga. Það er einfaldlega ekki rétt. En það að hann skuli nefna það í ræðu sinni sýnir auðvitað að hann veit að málstaðurinn er veikur að þessu leyti til.
    Auðvitað gefur það hugmyndum eins og þeim sem hv. þm. Páll Pétursson hafði hér byr undir báða vængi um að þarna væri verið að hygla einhverjum ákveðnum einstaklingum. En ég ætla ekki að blanda mér í þá umræðu. Ég ætla ekkert að skipta mér af því hvaða einstaklingar það voru sem þarna eiga hlut að máli eða keyptu fyrirtækið. Mér finnst það ekki vera aðalatriðið. Það má vel vera að fyrirtækið hefði á endanum endað hjá þeim að undangengnu útboði og eðlilegum vinnubrögðum. Það má vel vera að þeir aðilar, sem hafa fengið fyrirtækið keypt, séu mjög vel færir til þess að reka það. Ég hef ekki uppi neinar fullyrðingar um þá aðila. Mér finnst það eiginlega aukaatriði og koma þessu máli eða efni þess ekki mikið við.
    Aðalatriðið er það að aðrir sem þarna voru á ferðinni, annaðhvort heimamenn eða aðrir sem stunda sambærilegan atvinnurekstur, áttu þess ekki kost að bjóða í þessi bréf, kaupa þetta fyrirtæki með sama hætti og þeir aðilar sem hæstv. fjmrh. ákvað að eiga viðskipti við og var greinilega búinn að gera sér hugmyndir um að eiga viðskipti við strax og gengið var til viðræðna við Ólaf Nilsson endurskoðanda. Því að í greinargerð hans er beinlínis talað um að fyrir liggi ákveðnar hugmyndir um að selja fyrirtækið og þá væntanlega þeim aðilum sem á endanum var selt það. Það læðist því auðvitað að mönnum sá grunur að allur þessi málatilbúnaður hafi verið ákveðinn fyrir fram og það hafi aldrei staðið til eða verið ætlun manna að gefa öðrum kost á að keppa þarna um að kaupa fyrirtækið, hvorki þessum hópi Siglfirðinga, sem mannaði sig upp í að gera tilboð, né öðrum.
    Vegna þess að ekki var staðið að þessu máli með þeim hætti að fram kæmi mat markaðarins á þessum bréfum, þá hafa menn verið að deila um það hér klukkutímum saman hvað sé hið rétta mat og nefna hér til ýmsa sérfræðinga. Ég lét þess nú getið áðan að

ég ætla ekki að blanda mér í slíkar umræður, þó að ég hafi tilhneigingu til þess að taka mark á manni eins og Sigurði Stefánssyni endurskoðanda sem allir vita að er manna fróðastur um uppgjör og reikningsskil í sjávarútvegi og afkomu fyrirtækja á þeim vettvangi og var reyndar sérstakur ráðgjafi Ríkisendurskoðunar við hennar mat. Og hans mat hefur komið fram í Morgunblaðinu og var lesið hér upp í ræðu hv. þm. Pálma Jónssonar. En þessar umræður hér hefðu verið algerlega óþarfar ef eðlilega hefði verið að þessu máli staðið frá byrjun. Það er nefnilega grundvallarblekking hjá fjmrh. að berja sér hér á brjóst og segja: Er það ekki markaðurinn sem menn vilja? Er ekki markaðurinn alls staðar að taka völdin? Er það ekki bara í Sovétríkjunum sem menn vilja halda í miðstýrt kerfi? og reyna að koma því hér að hjá fólki að þetta hafi verið eitthvert markaðsútboð eða eitthvert markaðsverð. Það var það nefnilega ekki, eins og ég hef rætt.
    Ég vil leyfa mér, virðulegi forseti, að mótmæla harðlega þeim málflutningi sem hæstv. ráðherra hefur látið sér um munn fara gagnvart Ríkisendurskoðun sem nú heyrir undir Alþingi. Ég hef þegar komið að því að ef menn vilja vera faglegir og fræðilegir á þessu sviði, þá verða menn að gera ráð fyrir því að á máli sem þessu geti verið skiptar skoðanir. Og það er algerlega fyrir neðan allar hellur að ráðast með þeim hætti, sem hæstv. fjmrh. hefur gert, á þessa stofnun vegna þess að hún dirfðist að hafa aðra skoðun og annað mat á þessum athöfnum hans heldur en hann sjálfur og hans ráðgjafar. Það er hvorki faglegt né fræðilegt að bregðast þannig við
gagnrýni sem er á málefnalegum grunni reist, byggð á faglegum rökstuðningi, fræðilegri þekkingu og með ráðgjöf manna með bestu yfirsýn yfir þennan málaflokk. Það ber hvorki vitni um faglegan metnað né fræðilega þekkingu þess sem þannig málflutningi heldur uppi. Eða ber að skilja þau ummæli ráðherrans svo að Ríkisendurskoðun hafi ekki hæfum mönnum á að skipa? Ber að skilja það svo að aðrar skýrslur stofnunarinnar, sem iðulega hefur verið beðið um af hálfu alþingismanna, séu sama marki brenndar? Ég man ekki betur en að Ríkisendurskoðun hafi hvað eftir annað gert skýrslur að beiðni þingmanna eða jafnvel ráðherra um tiltekna málaflokka sem síðan hafa komið til umræðu eða orðið grundvöllur umræðu. Þingmenn Alþb. hafa notfært sér það eins og aðrir. Ég leyfi mér að fullyrða að allt tal hæstv. ráðherra um að menn geti pantað slíkar skýrslur og pantað fyrir fram ákveðnar niðurstöður í slíkum skýrslum er ekki sæmandi.
    Hæstv. ráðherra var spurður að því í sjónvarpsviðtali hvort menn gætu pantað sér skýrslur hjá Ríkisendurskoðun og fengið þær niðurstöður sem þeir vildu fá. Hann gaf mjög sterklega til kynna að þannig væri það, menn gætu pantað þá niðurstöðu sem þeir vildu. Það var þannig í sjónvarpsviðtali í lok janúar að fréttamaður spurði ráðherra út í þessi mál og hann segir: ,,Það hafa tveir aðilar pantað skýrslu frá Ríkisendurskoðun, Atvinnutryggingarsjóður pantaði skýrslu

um Þormóð ramma og fékk þau svör að þetta væri vonlaust fyrirtæki sem stefndi í gjaldþrot. Fjórir þingmenn, í pólitísku stríði við fjmrh., pöntuðu skýrslu og fengu þau svör að þetta væri gott gróðafyrirtæki.`` Og fréttamaður spyr: ,,Þannig að menn geta þá pantað þá niðurstöðu sem þeir vilja?,, Og Ólafur Ragnar Grímsson, hæstv. fjmrh., segir: ,,Ég ætla ekki að svara því hér og nú. Það er hins vegar alveg ljóst að tveir aðilar hafa pantað skýrslu og fengið mjög ólíkar niðurstöður sem þjóna hagsmunum hvors aðilans fyrir sig.``
    Þetta er rangt. Þetta er bæði rangt, villandi og ósæmandi fyrir fjmrh. Hann virðist ekki vita að það er lögð sú kvöð á Ríkisendurskoðun í lögum um þennan Atvinnutryggingarsjóð útflutningsgreina að Ríkisendurskoðun geri reglulega skýrslur um starfsemi hans. Það þarf enginn að panta slíka skýrslu, hvorki hann eða annar. Auk þess sem þetta blað sem hann gerði að umtalsefni, og sem trúnaðarmaður hans í stjórn sjóðsins virðist hafa komist yfir og laumað til ráðherrans, var alls engin skýrsla. Þetta var vinnugagn á vegum Ríkisendurskoðunar en ekki skjal á vegum þessa sjóðs. Hér er sem sagt allt gert af hálfu ráðherra til að gera þessa ríkisstofnun tortryggilega og hennar vinnubrögð.
    Það er heldur ekki hægt að segja að þeir þingmenn sem báðu um þessa skýrslu hafi pantað ákveðna niðurstöðu. Pantaði hv. þm. Hjörleifur Guttormsson ákveðna niðurstöðu þegar hann bað um að Ríkisendurskoðun gerði athugun á Búrfellsvirkjun og virkjunarframkvæmdum þar sem fyrirhugaðar eru til viðbótar þeirri virkjun sem nú er? Pantaði þingflokkur Framsfl. ákveðna niðurstöðu þegar hann bað um útekt á húsbréfakerfinu og ástandi húsnæðismála? Er það þetta sem hæstv. ráðherra er að halda fram, að menn geti pantað niðurstöður með þessum hætti? Var það pöntuð niðurstaða sem kom frá Ríkisendurskoðun varðandi búvörusamninginn og framkvæmd hans? Var búið að leggja línurnar fyrir Ríkisendurskoðun hvernig hún ætti að kanna þann samning? Var það pöntuð niðurstaða sem kom fram á þinginu í maí 1989 um málefni Sigló o.fl.? Og um það hvernig hæstv. fjmrh. misbeitti valdi sínu til þess að hygla Nútímanum og félögum sínum í fyrirtækinu Svart á hvítu? Voru þetta allt pantaðar niðurstöður?
    Ég held að hæstv. fjmrh. verði eilítið að gæta þess að fara ekki offari í málum sem þessum. Þetta mál, málefni Þormóðs ramma, verður horfið af vettvangi þjóðmálaumræðunnar áður en við vitum, eins og öll svona mál. Þetta fyrirtæki mun halda áfram að starfa á Siglufirði, væntanlega í höndum þeirra sem það hafa fengið keypt með þeim hætti sem fjmrh. ákvað að viðhafa. Ég geri ekki ráð fyrir því að þeirri niðurstöðu verði breytt, hún var lögleg svo langt sem hún náði, um það er ekki deilt, og það fyrirtæki heldur áfram sinni starfsemi. Og þessari umræðu hér á Alþingi um þetta mál utan dagskrár mun ljúka í dag eða næstu daga. En Ríkisendurskoðun mun halda áfram starfsemi sinni og þjóðin og þingið, þingmenn og þingflokkar, verða að geta treyst því að hún sé utan og ofan við þau daglegu átök og þá daglegu þrætubók sem sumir þingmenn og ráðherrar kjósa að viðhafa í þjóðmálabaráttunni. Virðing hennar og traust verður að vera óskert. Auðvitað er það eins og hv. þm. Páll Pétursson gat um í sinni ræðu, að Ríkisendurskoðun hefur ekki beðið hnekki við þessa árás hæstv. fjmrh., nema síður sé. Hins vegar hefur málflutningur eins og sá sem hæstv. ráðherra hefur uppi haft áhrif í þá átt að sverta og tortryggja þessa stofnun og það er bæði slæmt og varhugavert að vera viljandi að grafa undan þeim trúnaði sem þessi stofnun nýtur hér hjá Alþingi og hjá þjóðinni. Og auðvitað situr það síst á hæstv. fjmrh. að stunda slíkan málflutning.
    Hvar værum við nú staddir með umræðu um þetta mál ef Ríkisendurskoðun heyrði enn undir fjmrh. eins og var fram til 1986? Geta menn gert sér í hugarlund hvers konar staða væri þá uppi og hvar þingið stæði þá ef það hefði óskað eftir hlutlausri úttekt þessara manna? Hann væri sennilega búinn að reka þá alla saman miðað við þau ummæli sem hann hefur hér uppi haft. En það er langt seilst að draga hæfni og faglega færni yfirmanna Ríkisendurskoðunar í efa með þeim hætti sem fjmrh. hefur leyft sér að gera í þessari umræðu.
    Hvernig ber að skilja þau ummæli hans að þingið verði að grípa í taumana, þingið verði að grípa til ráðstafana til þess að treysta fagleg vinnubrögð og trúverðugleika Ríkisendurskoðunar í kjölfar þessa máls? Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að fjmrh. upplýsi hvað hann á við með þessum ummælum sínum og hvaða hreinsanir hann er að boða í þessum málum. Ætlar hann að víkja úr sæti eða reyna að beita sér fyrir því að þingið víki úr störfum einhverjum þeirra manna sem hafa unnið að þessari skýrslu, til að mynda ríkisendurskoðanda sjálfum, sem er nú formaður í prófnefnd endurskoðenda og hefur eftirlit með því að þeir endurskoðendur sem löggildingu fá kunni til verka og kunni sín störf og geti unnið þau þannig að faglegt sé? Ég held að það væri nauðsynlegt fyrir okkur að fá svar við því hvað felst í þessum hótunum hæstv. ráðherra. Hann gæti þá svarað því þegar hann er búinn að nefna dæmi um það að menn hafi pantað skýrslur hjá Ríkisendurskoðun og fengið þá niðurstöðu sem þeir hafi helst viljað. Það verður hann auðvitað að gera ef á að taka eitthvert mark á ummælum hans um þetta efni. Ég skora á hann að gera það, nefna skýrslur sem hafa verið pantaðar og niðurstöður sem menn hafa fengið út úr slíkum pöntunum.
    Fjmrh. nefndi í sinni ræðu að komið væri inn á hið svokallaða skattalega tap Þormóðs ramma í skýrslu Ríkisendurskoðunar og vék síðan nokkrum orðum að því hvernig hægt væri að koma slíku skattalegu tapi í verð. Hann hélt því síðan fram að á móti kæmi söluhagnaður eigna, ef ég man rétt. En það vill svo vel til að hæstv. fjmrh. er vel kunnugur því hvernig menn hafa gert sér mat úr skattalegu tapi. Menn eru kannski ekki alveg búnir að gleyma því hvernig skattalegt tap NT, útgáfufyrirtækis Framsfl., var selt öðru óskyldu fyrirtæki, að því er fjmrh. hefur upplýst

síðar, í hans óþökk. Þetta var rætt hér á þinginu vorið 1989. Og það kom upp á nýjan leik í kringum áramótin. Þá hélt fjmrh. því blákalt fram að Framsfl. hefði farið á bak við sig og blekkt sig til þess að aflétta skattaskuldum af þessu fyrirtæki sínu til þess að geta selt tapið á því fyrirtæki í annarri grein og þar með komið sér út úr þeim ógöngum sem þetta fyrirtæki var komið í, en jafnframt haft af ríkissjóði umtalsverðar tekjur í sköttum frá því fyrirtæki sem keypti hið skattalega tap. Það var fargi af þeim létt þá sumum sem komu við sögu í því öllu saman. Það er ekkert sérstaklega gott að taka mikið mark á manni með þennan feril í þessu efni þegar hann er að tala um það að aðrir viti ekki hvað þeir séu að tala um varðandi bókhald og reikningsskil og því um líkt. Ég minni nú bara á þetta mál, svona í framhjáhlaupi, að ráðherrann á ákveðna sögu að baki þegar kemur að því að gera upp og selja skattalegt tap á fyrirtækjum. Hann vill kannski fara yfir það með okkur eins og hann gerði í sjónvarpinu fyrir nokkrum vikum síðan. En það er þó vitaskuld ekki aðalatriði þessa máls.
    Fjmrh. hefur reynt að drepa þessu máli á dreif eftir að það upplýstist að hann var staðinn að röngum vinnubrögðum og ósæmilegum árásum á Ríkisendurskoðun. Hvort tveggja var óþarfi. Hann hefði getað selt fyrirtækið með eðlilegum hætti. Það hefði verið fagnaðarefni og sérstakt ánægjuefni að Alþb. hefði skipt um skoðun í þessum veigamikla málaflokki sem heitir afskipti og umsvif ríkisins í atvinnulífinu. Hann hefði líka getað verið nógu faglegur til þess að viðurkenna það að uppi geta verið fleiri en eitt mat á fyrirtæki eins og þessu og að eina leiðin til þess að komast að því hvert markaðsverðið er er að leyfa markaðnum að spreyta sig á að bjóða í það, sem ekki var gert. Hann hefði sem sagt getað staðið eðlilega að þessari sölu og hann hefði getað látið árásir sínar á Ríkisendurskoðun kyrrar liggja og tekið þeirri gagnrýni karlmannlega að annar faglegur aðili, með fullt vit á þessum málum, hefði komist að annarri niðurstöðu. Og þá hefðum við þingmenn getað stytt okkur þessar umræður og deilt um einhver önnur atriði í þessu. Fjmrh., sjálfum sér trúr og því orðspori sem hann hefur skapað sér, kaus að þyrla upp moldviðri, kasta hér inn reyksprengjum um allt þetta mál og sneiða hjá kjarna þess í flestum atriðum. Segja að kjarni málsins væri aukaatriði og að mennirnir sem gagnrýndu hann gerðu það af annarlegum ástæðum, hvorki faglegum né fræðilegum.
    Þannig er nú þetta mál í pottinn búið að mínum dómi, virðulegur forseti. Það hefur ekki orðið fjmrh. til framdráttar eða orðið til þess að efla trú manna á hans forsjá á þessu sviði. Það hefur ekki veikt Ríkisendurskoðun í störfum sínum gagnvart Alþingi að því er ég tel. Hins vegar er alveg ljóst að svona málflutningur getur smám saman grafið undan því trausti sem þessi stofnun þarf að hafa. Kannski var það ætlunin með árásum fjmrh. og þá er vissulega miður. En ég tel að í þessari umræðu hafi þeim árásum verið fyllilega hnekkt og stofnunin hafi svarað fyrir sig með viðeigandi hætti í sinni skýrslu. Eftir stendur þá

hvernig á að ljúka þessu máli sem hér er tekið utan dagskrár til umræðu. Hvernig á að klára þetta mál þannig að tryggt sé að slíkt gönuhlaup verði ekki endurtekið. Ég þykist vita að það sé til meðferðar hjá færustu mönnum hvernig rétt sé að svara þessari árás fjmrh. á Ríkisendurskoðun formlega á vettvangi þingsins.