Skýrsla Ríkisendurskoðunar um Þormóð ramma
Fimmtudaginn 14. febrúar 1991


     Kristinn Pétursson :
    Hæstv. forseti. Ég hef ekki hugsað mér að vera langorður í þessu máli en ég vil byrja á því að taka undir orð síðasta ræðumanns. Mér sýnist ekki að hæstv. forseti hafi farið að þingsköpum í sambandi við það að leyfa fjmrh., sem ekki er þingmaður, að hefja umræður utan dagskrár. Í því sambandi ætla ég að lesa upp 32. gr. þingskapalaganna, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Í allt að hálftíma á venjulegum fundartíma í sameinuðu þingi geta þingmenn fengið tekið fyrir mál utan dagskrár hvort heldur er í formi yfirlýsingar eða fyrirspurnar. Skal þá þingmaður bera fram við forseta ósk sína hér um eigi síðar en tveim klukkustundum áður en þingfundur hefst.``
    Hæstv. forseti. Það er ekki hægt að sjá að það sé leyfi fyrir því að leyfa ráðherra sem ekki er þingmaður að taka mál upp hér utan dagskrár svo að ég leyfi mér að spyrja: Er hér um einhver mistök að ræða eða samkvæmt hvaða heimild fer þessi umræða fram, hæstv. forseti?
    Hæstv. forseti Sþ. og hæstv. fjmrh. eru svo uppteknir við tímaritalestur að það er ekki hægt að fá svör við spurningum hér. ( Forseti: Forseti hyggst ekki fara að halda uppi samræðum við hv. þm. og biður hann um að halda áfram máli sínu.) Hæstv. forseti. Ég var að spyrja: Samkvæmt hvaða heimildum þingskapa fer þessi umræða fram? Það stendur í 32. gr. þingskapalaga að þingmenn geti fengið mál tekin fyrir utan dagskrár en nú er hæstv. ráðherra ekki þingmaður. Því spyr ég: Samkvæmt hvaða þingskapareglu fer þessi umræða fram? ( Forseti: Forseti skal svara því til að hæstv. ráðherra hefur öll sömu réttindi í þinginu og þingmaður.) Samkvæmt hvaða grein þingskapalaga? ( Forseti: Það er ekki ákvæði í þingskapalögum.)
    Mér sýnist, hæstv. forseti, að hér hafi orðið mistök í stjórn þingsins og þetta mál hefði ósköp eðlilega getað komið á dagskrá. Hefði þá verið miklu eðlilegra að skýrslan sem slík hefði komið á dagskrá og þeir sem báðu um hana hefðu hafið þessa umræðu frekar en að fjmrh. kæmi hér og léti gamminn geisa eins og hann gerði og eins og hann er vel þekktur fyrir að reigja sig eins og hani á haug þótt málstaðurinn sé slæmur.
    Þó hér sé um pólitíska umræðu að ræða er þetta kannski ekki skemmtilegt fyrir þá sem eru þolendur að þessari umræðu á einhvern hátt, þ.e. þá sem keyptu umrætt fyrirtæki af hæstv. fjmrh. Ég vil í því sambandi koma því að að það er miður ef þessi umræða bitnar á saklausu fólki eins og hún fer fram í þjóðfélaginu. En eigi að síður er það ljóst að hæstv. fjmrh. hefur ekki farið rétt að við sölu á þessum hlutabréfum því markaðsverð á þeim var ekki þekkt. Og þá var ekki um neitt annað að ræða fyrir hæstv. fjmrh. en að komast að því hvert væri markaðsverð hlutabréfanna með útboði, hreinlega með því að auglýsa þessi hlutabréf til sölu. Ég fagna því að hæstv. fjmrh. skuli vera genginn í félag þeirra sem vilja selja ríkisfyrirtæki. Allt mjakast þetta í átt til hægri, meira að segja úr ólíklegustu áttum.
    En í sambandi við skýrslu Ríkisendurskoðunar vil ég lesa upp á bls. 12, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þó svo að hlutabréfum í Þormóði ramma hf. fylgi ekki óafturkræfur aðgangur að sameiginlegum fiskstofnum landsins verður hins vegar ekki fram hjá því litið að kvótakerfið hefur verið við lýði í rúm sjö ár. Gildandi lög um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990, tóku gildi 1. jan. sl. og eru ótímabundin. Markmið þeirra er m.a. að marka meginreglur um framtíðarskipan fiskveiðistjórnunar. Fyrirmæli í bráðabirgðaákvæði þeirra um að endurskoða skuli lögin fyrir árslok 1992 hafa engin áhrif í gildistíma laganna. Hafa verður í huga í þessu sambandi að Alþingi er að sjálfsögðu ætíð heimilt að endurskoða gildandi löggjöf án þess að til komi sérstök fyrirmæli um slíkt.``
    Síðan kemur hér á bls. 13 tilvitnun í samningsákvæði varðandi sölu á hlutabréfunum: ,,Kaupendur lýsa því yfir að þeir muni viðhalda öflugum rekstri í hinu sameinaða félagi á Siglufirði. Þeir skuldbinda sig til þess að nýta aflakvóta sem fylgir skipum félagsins í þágu útgerðar og vinnslu á Siglufirði. Ákvæði þetta hindrar því ekki eðlilega nýtingu aflakvóta með hliðstæðum hætti og gert hefur verið hjá félaginu á undanförnum árum né möguleika til þess að breyta samsetningu á skipastól félagsins, en einum togara af þremur hefur verið lagt.``
    Ég tel, hæstv. forseti, að við séum komnir inn á mál sem þarf kannski að ræða frekar. Þessi umræða dregur einnig í ljós, fyrir utan það sem aðallega er til umræðu, þ.e. embættisfærslu hæstv. ráðherra, kvótalögin. Af hverju þurfti að taka sérstaklega fram við sölu þessara hlutabréfa að viðhalda ætti öflugum atvinnurekstri á Siglufirði? Er það ekki einmitt vegna þess að kvótalögin eru eitthvað skrýtin? Hæstv. fjmrh. þurfti að setja byggðakvótaákvæði inn við sölu á hlutabréfunum.
    Ég vil enn fremur koma því að og spyrja hæstv. fjmrh.: Af hverju leitaði hann ekki til Ríkisendurskoðunar þegar hann var að selja þessi bréf, þar sem hér var nokkurn veginn vitað mál að um deildar meiningar væri að ræða? Þegar verið er að selja hlutabréf sem ekki hafa markaðsverð og hið eina rétta er það að enginn hlutur er meira virði en einhver vill borga fyrir hann, þá væri auðvitað eðlilegast að hæstv. fjmrh. auglýsti bréfin til sölu og markaðsverðið kæmi þannig í ljós. Mér sýnist því, hæstv. forseti, að niðurstaða þessa máls og kjarni þessa máls sé óvandvirkni hæstv. fjmrh. við embættisfærslu. Ætti það nú ekki að koma okkur alþingismönnum á óvart sem höfum umgengist hann frá því að þessi hæstv. ríkisstjórn var mynduð. Venjulega þegar hæstv. ráðherra talar hér í þessari pontu talar hann niður til þeirra sem hann er að tala við. Það er raunverulega dæmalaust hvað hæstv. ráðherra hefur sýnt virtum embættismönnum og Alþingi þjóðarinnar mikla lítilsvirðingu og hroka með öllu sínu yfirlæti eins og kom fram í ræðu hans hér við upphaf málsins. Ég leyfi mér enn fremur að gagnrýna hæstv. forseta Sþ. fyrir það að leyfa þessa umræðu því að hún samrýmist ekki þingsköpum. Þetta mál hefði átt að taka á dagskrá og eðlilegast þá að þeir sem báðu um þessa skýrslu hefðu verið frumflytjendur að þessu máli.