Skýrsla Ríkisendurskoðunar um Þormóð ramma
Fimmtudaginn 14. febrúar 1991


     Árni Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Hér hefur orðið mikil umræða um Ríkisendurskoðun, hlutverk hennar og trúverðugleika.
    Í skýrslu sem ég sem forseti Nd. flutti þinginu á síðasta ári, starfsskýrslu Ríkisendurskoðunar fyrir árið 1989, sagði ég eftirfarandi, með leyfi forseta:
    ,,Grundvallarbreyting varð á starfsemi Ríkisendurskoðunar og stöðu hennar með lögum nr. 12/1986, sem tóku gildi 1. jan. 1987. Þá breyttist staða stofnunarinnar frá því að vera stjórnardeild eða ráðuneytisígildi í Stjórnarráði Íslands undir beinni stjórn fjmrh. í það að vera stofnun sem starfar á vegum Alþingis óháð ráðuneytum og öðrum handhöfum framkvæmdarvalds.``
    Í 1. gr. fyrrnefndra laga segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Ríkisendurskoðun starfar á vegum Alþingis. Annast hún endurskoðun hjá ríkisstofnunum og þeim aðilum öðrum sem hafa með höndum rekstur eða fjárvörslu á vegum ríkisins. Enn fremur hefur hún eftirlit með framkvæmd fjárlaga. Ríkisendurskoðun skal vera þingnefndum og yfirskoðunarmönnum ríkisreiknings, sbr. 43. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, til aðstoðar við störf er varða fjárhagsmálefni ríkisins.
    Ríkisendurskoðun er óháð ráðuneytum og öðrum handhöfum framkvæmdarvaldsins.``
    Þá segir í 3. gr.:
    ,,Ríkisendurskoðandi nýtur sjálfstæðis í starfi sínu og er ekki bundinn af fyrirmælum um einstaka þætti þess. Forsetar Alþingis geta þó ýmist að eigin frumkvæði eða skv. óskum þingmanna krafið hann skýrslna um einstök mál.``
    Þrátt fyrir þessi lagafyrirmæli gegnir þingið engu beinu stjórnunarhlutverki hvað snertir störf Ríkisendurskoðunar. Algert sjálfstæði Ríkisendurskoðunar er grundvöllur þess að hún njóti trausts og geti sinnt sómasamlega eftirlitshlutverki sínu. Þetta sjálfstæði leggur henni hins vegar miklar skyldur á herðar svo og ábyrgð. Í svonefndri Lima-yfirlýsingu um leiðbeinandi reglur varðandi endurskoðun er mikil áhersla lögð á þetta sjálfstæði ríkisendurskoðunar og er Lima-yfirlýsingin á vissan hátt grundvöllur þeirrar ríkisendurskoðunar sem vönduðust og best getur talist hvarvetna í heiminum.
    Þótt forsetar þingsins eða þingið gegni engu beinu stjórnunarhlutverki varðandi Ríkisendurskoðun bera forsetar þingsins nokkra ábyrgð gagnvart stofnuninni. Sú umræða sem hér hefur farið fram snýst um ágreining á milli framkvæmdarvaldsins annars vegar og stofnunar sem heyrir undir Alþingi hins vegar. Þar eð Ríkisendurskoðun á engan beinan málsvara eða sjálfstæðan málsvara inni á hinu háa Alþingi tel ég bæði eðlilegt og sjálfsagt að í þessari umræðu, þó ekki sé til annars en það sé bókað í þingskjölum og komi fram í þingtíðindum, grípi Ríkisendurskoðun til andsvara í máli af þessu tagi. Hún getur sjálf ekki borið þau andsvör inn í þingsali og verður því einhver að gera það fyrir hennar hönd. Það er eðlilegast að forseti Nd., sem hefur því hlutverki að gegna meðal forseta að hafa tengsl við Ríkisendurskoðun, komi þessum andsvörum á framfæri. Þau eru ekki löng og ekki yfirgripsmikil, snerta einkum einn þátt málsins, sem ég ætla nú að leyfa mér að koma á framfæri í þessari umræðu.
    Svörin fjalla um trúverðugleika Ríkisendurskoðunar, þ.e. fagleg vinnubrögð. Og svörin koma fram eða eru viðbrögð Ríkisendurskoðunar vegna ummæla hæstv. fjmrh. um að það skorti á fagleg vinnubrögð innan stofnunarinnar. Um þetta hefur Ríkisendurskoðun eftirfarandi að segja: ,,Ef þessar fullyrðingar verða ekki hraktar lið fyrir lið, þátt fyrir þátt, þá blasir sú staðreynd við að það þarf að grípa til ráðstafana til að treysta fagleg vinnubrögð og trúverðugleika þeirrar stofnunar, Ríkisendurskoðunar, sem Alþingi tók að sér að stýra fyrir nokkrum árum. Ríkisendurskoðun telur enn fremur að hæstv. ráðherra verði að finna þeim orðum sínum stað, að starfsmenn Ríkisendurskoðunar starfi ekki af heiðarleika.``
    Um fagleg vinnubrögð innan stofnunarinnar hefur hún þetta að segja: ,,Þeir menn sem unnu að skýrslum um Þormóð ramma hf. voru löggiltir endurskoðendur, viðskiptafræðingur og lögfræðingur, sem allir eru starfsmenn stofnunarinnar. Auk þess var Sigurður Stefánsson, löggiltur endurskoðandi, sem að öðrum endurskoðendum ólöstuðum er talinn hafa yfir að ráða einna yfirgripsmestu þekkingu á starfsemi og reikningsskilum fyrirtækja í útgerð og fiskvinnslu á Íslandi, stofnuninni til halds og trausts við gerð skýrslnanna og eru allar tölulegar upplýsingar settar fram í samráði við hann.``
    Þetta voru, virðulegi forseti, þær athugasemdir sem Ríkisendurskoðun sjálf vildi koma á framfæri til þess að tryggja að þær kæmu inn í þessa umræðu sem hér hefur átt sér stað. Ég vil taka það fram að það sem ég segi hér á eftir segi ég sem óbreyttur þingmaður en ekki sem forseti Nd.
    Það er augljóst að ábyrgð Ríkisendurskoðunar er geypimikil. Henni er það lífsspursmál að hún njóti trausts, ekki bara Alþingis Íslendinga heldur þjóðarinnar allrar. Ríkisendurskoðun hefur með höndum svo mikilvæga endurskoðun á fjármálum ríkisins að það má ekki gerast að hún verði rúin trausti eða traust hennar verði skert á einhvern hátt. Ef sú staða kemur upp, þá þarf auðvitað að gera einhverjar breytingar. Það er ljóst. Þess vegna er það mjög mikils virði að það mál sem hér er til umræðu fái einhver þau endalok sem sýna og sanna á annan hvorn veginn hvort þetta traust er fyrir hendi eða ekki.
    Ég hef sjálfur, og fer ekkert leynt með það, gagnrýnt afskipti starfsmanna Ríkisendurskoðunar af fjárlagagerð á þann hátt að ég hef sagt að það væri ekki eðlilegt að starfsmenn þeirrar stofnunar hefðu bein ítök í sambandi við fjárlagagerðina. Ég held að nú séu menn að átta sig á því að þessi gagnrýni mín hefur við rök að styðjast. Ég tók þetta fram í skýrslu sem ég flutti hér á síðasta ári og ég stend við þessa skoðun mína. Ég er fastlega þeirrar skoðunar að Alþingi sjálft eigi að eiga sína fjárlagastofnun. Hins vegar vil ég taka það skýrt fram að það traust sem Ríkisendurskoðun verður að njóta er svo mikils virði að það má ekki ske að hv. þm. geri ekki allt sem í þeirra valdi stendur til þess að endurnýja það traust hafi það orðið fyrir áfalli. Þetta er mjög mikilvægt atriði. Fyrir alla þá sem hafa tekið þátt í þessari umræðu hlýtur þetta að vera veigamesti þáttur umræðunnar. Hafi þetta traust Ríkisendurskoðunar orðið fyrir áfalli, þá beri að bæta úr og lagfæra. Ef traustið hefur hins vegar ekki orðið fyrir áfalli, þá snýr málið allt öðruvísi við.
    Ég leyfi mér, virðulegi forseti, að vitna aftur í svonefnda Lima-yfirlýsingu, II. kafla, 5. gr. yfirlýsingarinnar, sem færir okkur heim sanninn um hversu mikilsvert það er að áliti allra þeirra manna, sem gerst þekkja ríkisendurskoðanir landa þar sem ríkisendurskoðanir eru yfirleitt starfandi, að ríkisendurskoðun njóti trausts og sé engum háð. Í 5. gr., sem er eins konar sjálfstæðisyfirlýsing þeirrar stofnunar eða þeirra samtaka sem hýsir fjöldamargar ríkisendurskoðanir, segir m.a.:
    ,,Ríkisendurskoðanir geta því aðeins gegnt hlutverki sínu á hlutlægan hátt og með tilætluðum árangri ef þær eru óháðar þeim aðilum sem endurskoðað er hjá og eru verndaðar fyrir utanaðkomandi áhrifum. Enda þótt ríkisstofnanir geti ekki með öllu verið óháðar sökum þess að þær eru hluti af ríkinu sem heild, þá skulu ríkisendurskoðanir njóta þess sjálfstæðis að því er snertir starfsemi og skipulag sem nauðsynlegt er til þess að þær geti gegnt hlutverki sínu.
    Í stjórnarskrá skal kveða á um stofnun ríkisendurskoðunar og það sjálfstæði sem hún skal njóta. Um einstök atriði má mæla nánar fyrir í lögum. Sérstaklega ber að tryggja að æðsti dómstóll veiti ríkisendurskoðun nauðsynlega lögvernd gegn hvers konar afskiptum af sjálfstæði og heimild hennar til að framkvæma endurskoðun.``
    Þá segir í 8. gr. þessarar yfirlýsingar, sem ég hygg að sé nauðsynlegt að komi fram:
    ,,Sjálfstæði ríkisendurskoðana sem tryggt er í stjórnarskrá og lögum felur í sér að þær hafi mikið frumkvæði og sjálfsforræði, jafnvel þegar þær í umboði þings framkvæma endurskoðun að fyrirmælum þess. Í stjórnarskrá hvers lands skulu vera ákvæði um tengsl ríkisendurskoðunar og þings í samræmi við aðstæður og þarfir þess lands sem í hlut á.``
    Og í 9. gr. þessarar yfirlýsingar segir: ,,Ríkisendurskoðun endurskoðar verk ríkisstjórnar, stjórnsýslu og allra stofnana er þar heyra undir. Þó er ekki þar með sagt að ríkisstjórnin heyri undir ríkisendurskoðun. Einkum og sér í lagi ber ríkisstjórnin ein fulla ábyrgð á gerðum sínum og vanrækslu og getur ekki firrt sig ábyrgð með því að skírskota til endurskoðunar og sérfræðiálita ríkisendurskoðunar nema slík sérfræðiálit hafi verið lögð fram sem lögmætur úrskurður.``
    Þetta hygg ég að sé gagnlegt umhugsunarefni í þeirri umræðu sem hér hefur farið fram um sjálfstæði Ríkisendurskoðunar. Ég vil endurtaka það, sem ég hef áður sagt, að það skortir mikið á að stjórnarskrá íslenska lýðveldisins tryggi Ríkisendurskoðun þetta sjálfstæði. Þessu þurfum við að breyta. Við þurfum að fá

inn í stjórnarskrá lýðveldisins ákvæði sem tryggilega gera rétt Ríkisendurskoðunar til sjálfstæðis meiri og betri en hann er nú.