Skýrsla Ríkisendurskoðunar um Þormóð ramma
Fimmtudaginn 14. febrúar 1991


     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Það er svo sannarlega með hálfum huga sem ég kem hér í ræðustól eftir orð hæstv. fjmrh. í umræðunum þar sem hann sagði m.a. að sá eini af þeim þingmönnum Norðurl. v. sem hafa beðið um skýrslu Ríkisendurskoðunar og hefði fræðilega menntun til þess að fjalla um þetta mál væri Jón Sæmundur Sigurjónsson.
Þetta er út af fyrir sig merkileg niðurstaða. En eftir að hafa fylgst með umræðum og athöfnum í þessu máli, hæstv. fjmrh., er vægt til orða tekið þegar ég fullyrði að það sé vafasamur heiður, ég gæti frekar sagt visst áfall, fyrir Háskóla Íslands að hæstv. fjmrh. noti nafn Háskólans sem eitthvert skjól eða noti nafn Háskólans sem einhvern gæðastimpil á misvitrar ákvarðanir við framkvæmdir og athafnir í þessu máli. Það er vægast sagt vafasamur heiður, hæstv. fjmrh, fyrir Háskóla Íslands. Mér leiðist hroki, það segi ég satt og ég tala nú ekki um, hæstv. fjmrh., þegar fer saman hroki menntamanns og embættismanns. Vitaskuld geta verið skiptar skoðanir um það hverjir séu hæfir til að ræða um málefni þessa fyrirtækis. En það er af og frá að hæstv. fjmrh. sé úrskurðaraðili í því máli líka. Nóg er nú samt að gert í þessu máli þó hæstv. fjmrh. ætli ekki að fara að taka málfrelsið af okkur þingmönnum í þessu máli. Nóg hefur hann gert samt í þessu máli.
    Ég eyddi nokkrum hluta af starfsævi minni í að reka útgerðarfyrirtæki sem var mér bæði ánægjulegt og mjög lærdómsríkt. Ég taldi m.a. þess vegna, hæstv. fjmrh., að ég mætti allra náðarsamlegast fá að segja hér örfá orð í þessari umræðu og gæti kannski lagt eitthvað til málanna. En nú skulum við bara sleppa því að sinni hvað ég vildi sagt hafa en heyra frekar álit þeirra á þessari sölu sem óefað hafa meiri þekkingu til að bera á stöðu og afkomumöguleikum útgerðarfyrirtækja en bæði hæstv. fjmrh. og hv. 5. þm. Norðurl. v. Ég get bætt hv. 4. þm. kjördæmisins við. Ég veit ekki hvort ég á að segja samanlagt, en ætli það væri ekki óhætt að segja að þeir sem ég ætla að vitna til hafi það.
    Ég vil þess vegna aðeins víkja að því fyrst sem einn virtasti endurskoðandi landsins, Sigurður Stefánsson, segir í grein um þessa sölu m.a.: ,,Mér finnst mat Ríkisendurskoðunar hógvært og heldur í lægri kantinum.`` Hann heldur áfram: ,,Þó er erfitt fyrir endurskoðanda`` --- og hlusti menn nú --- ,,að ákveða söluverð þegar búið er að gefa upp hver er kaupandinn.`` Það er nokkuð til í því. Endurskoðendur sem veittu ráðherra ráðgjöf hljóta að hafa verið í vanda vegna þess að þarna eru menn að kaupa sig inn í auðlind. Síðar segir þessi mæti endurskoðandi: Eftir að ríkissjóður færði skuldir fyrirtækisins niður um tæplega 400 millj. kr. á síðasta ári var skuldabyrði þess ekki mjög erfið.
    Við skulum líta á hvað forstjóri Byggðastofnunar, Guðmundur Malmquist, segir um þetta mál: ,,Það má skoða þetta mál``, segir Guðmundur Malmquist, ,,frá öðrum sjónarmiðum en mér finnst samt Ríkisendurskoðun taka hógværlega á þessu og meta fyrirtækið nokkuð rétt.``
    Við skulum heyra hvað einn af dugmestu útgerðarmönnum landsins segir um þessa sölu, Þorsteinn Már Baldvinsson, framkvæmdastjóri Samherja á Akureyri. Hann segir m.a.: ,,Hins vegar tel ég ljóst að Þormóður rammi hefur verið seldur á háu verði en þó er mest gagnrýnisvert hvernig staðið var að sölunni.`` Hann bendir á máli sínu til stuðnings og gerir samanburð á því hvernig hæstv. sjútvrh. stóð að sölu á Hafþóri fyrir ekki ýkja löngu síðan. Og örstutt tilvitnun í það sem annar útgerðarmaður, Eiríkur Tómasson, segir: ,,Þormóður rammi seldur langt undir sannvirði.`` Þetta eru ekki mín orð. Þetta eru ummæli þeirra manna sem ég tel fyllilega og mjög prýðilega hæfa til að dæma þessa gerð.
    Hæstv. fjmrh. sagði hér í umræðunni að þingmenn kjördæmisins hefðu kosið að fara í pólitískt stríð við ráðherra út af þessu máli. Það vill nú svo til, hæstv. ráðherra, að ég hef hvergi átt orðastað við hæstv. fjmrh. út af Þormóði ramma eftir að þessi ákvörðun hans lá fyrir um að afhenda fyrirtækið. Það verður hæstv. fjmrh. að viðurkenna. Ég hef hvergi átt orðastað við hann um þetta mál. Það er hins vegar rétt að ég gerði sterklega athugasemd, og það er nauðsynlegt að það komi skýrt fram, við meðferð málsins þegar við þingmenn Norðurlands vestra áttum fund með ráðherra og hann kynnti okkur áform sín í þessu máli. Ég margítrekaði á þeim fundi að svigrúm yrði gefið til að kanna grundvöll þess að mynda sem víðtækasta samstöðu heimamanna til að stofna almenningshlutafélag um rekstur Þormóðs ramma, eins og vilji mikils meiri hluta Siglfirðinga stóð til, þar sem heimamenn sjálfir hefðu forræði í félaginu, sem er gjörsamlega og nánast öll lífsbjörg Siglfirðinga. Það er hvorki meira né minna en það.
    Hæstv. fjmrh. spurði hvort það væri rétt að láta ríkissjóð greiða áfram hundruð milljóna króna á ári til þessa fyrirtækis. Er það rétt skilið, hæstv. ráðherra, að það sé skoðun þín að Þormóður rammi sé gjörsamlega vonlaus rekstrareining í dag og að fyrirsjáanlegt sé að fyrirtækið verði rekið með tapi sem nemur hundruðum milljóna á ári? Það var það sem ráðherrann var að segja. Sé þetta rétt hjá ráðherranum þá eru Siglfirðingar vissulega komnir í mjög alvarlegan vanda. Hv. þm. Ragnar Arnalds sagði í umræðunum í gær eða fyrradag að þingmennirnir Páll Pétursson og Pálmi Jónsson bæru ekki hag Siglfirðinga fyrir brjósti í þessu máli. Hv. þm. er ekki staddur hér þannig að ég ætla að sleppa þeim kaflanum, en ég mótmæli auðvitað þessu harðlega. Þetta eru fáránlegar fullyrðingar hjá samþingsmanni okkar að leyfa sér að segja annað eins og þetta.
    Á fundi okkar þingmanna Norðurlands vestra með hæstv. fjmrh. töldum við eðlilegt og sjálfsagt að uppgjör og mat fyrirtækjanna allra þriggja lægi fyrir áður en frá sölu og sameiningu þeirra yrði gengið. Hæstv. fjmrh. hefur í þessu sambandi bent á athuganir Ólafs Nilssonar endurskoðanda í þessu sambandi og reynt að nota hann einnig sem skjól í þessu máli. En hvað segir nú Ólafur Nilsson endurskoðandi í skýrslu sinni um þetta grundvallaratriði málsins. Um það grundvallaratriði málsins að eignirnar séu allar metnar og metnar eins. Við skulum aðeins líta á það. Það er ekki langt mál. Ólafur Nilsson segir: ,,Við höfum ekki haft aðstöðu til að skoða eignir félaganna sérstaklega og munum við ekki leggja hér mat á einstakar eignir þeirra. Ef farin verður sú leið að ríkissjóður selji hluta af hlutabréfum sínum í Þormóði ramma hf. og að félögin verði síðan sameinuð er nauðsynlegt að leggja mat á öll félögin.`` Er nauðsynlegt. Þetta segir endurskoðandinn. Og þetta er auðvitað alveg grundvallaratriði.
    Ég átel þetta harðlega því hér eru leikreglur og venjulegir viðskiptahættir vissulega alls ekki virtir, virðulegi ráðherra. Hér er jafnræðis ekki gætt milli þeirra sem nú hafa eignast fyrirtækið og hinna sem er verið að bjóða að kaupa hlutabréf í fyrirtækinu í dag. Hér sitja menn nefnilega ekki við sama borð og það er ámælisvert. Það er ámælisvert. Hér hafa að mínu viti alvarlegir hlutir gerst sem eru í hróplegu ósamræmi við þau ummæli fjmrh., þar sem hann sagði hér að nauðsynlegt væri að byggja upp pólitískt og faglegt traust.
    Sjálfsagt má endalaust deila um kaupverð þessa fyrirtækis og hvort rétt hafi verið af hæstv. fjmrh. að selja það. Um það má deila og verður örugglega deilt. Mitt álit er, og ég dreg það saman örstutt, hæstv. ráðherra, að söluverð fyrirtækisins sé of lágt og ekki hafi verið rétt að sölu þess staðið. Ég átel harðlega málsmeðferðina og tel að hæstv. fjmrh. og hans starfsfólk hafi staðið illa að þessu máli öllu og ekki virt venjulega viðskiptahætti. Það er mín niðurstaða í þessu máli, virðulegi ráðherra.