Skýrsla Ríkisendurskoðunar um Þormóð ramma
Fimmtudaginn 14. febrúar 1991


     Pálmi Jónsson :
    Virðulegi forseti. Ég met það svo að þær umræður sem hér fara fram séu býsna athyglisverðar og þarfar. Það hefur auðvitað komið í ljós að fruntaleg árás hæstv. fjmrh. á eina af stofnunum ríkisins, þ.e. Ríkisendurskoðun, sem heyrir undir Alþingi, hefur orðið til þess að vekja hér viðbrögð eins og brýn nauðsyn var til. Ég lýsi því yfir að ég met mikils ræðu hæstv. forseta neðri deildar, hv. þm. Árna Gunnarssonar, sem talaði hér áðan og sýndi það að hann áttar sig á því að fullu að Alþingi er skylt að snúast til varnar þegar undirstofnun þess, sem við eigum öll svo mikið undir að njóti virðingar og trausts, eins og hún hefur gert, haldi því trausti áfram.
    Ég vil aðeins segja það út af einu atriði í ræðu hv. þm. Árna Gunnarssonar, þar sem hann vék að því, sem hann hefur gagnrýnt bæði fjvn. og Ríkisendurskoðun fyrir og er kunnugt frá fyrri tíð, að hann telur óeðlilegt að fjvn. njóti starfa frá Ríkisendurskoðun í sinni vinnu. Um þetta er ég honum ekki sammála. Ég hef alllanga reynslu af starfi í fjvn. og ég fullyrði það hér að hvort sem sú regla hefur verið viðhöfð að nýta starfskrafta frá Fjárlaga- og hagsýslustofnun, eins og löngum var gert, ellegar þá að starfsmaður fjvn. væri jafnframt starfsmaður Ríkisendurskoðunar, þá hefur það hvort tveggja gefist vel. Ég geri í rauninni ekki mun á því efnislega því að reynsluna hef ég af hvoru tveggja. Störf þess starfsmanns, sem nú starfar fyrir fjvn. og er jafnframt starfsmaður Fjárlaga- og hagsýslustofnunar, hafa gefist afar vel og störf flestra þeirra, sem áður voru í tengslum við Fjárlaga- og hagsýslustofnun og urðu starfsmenn fjvn., voru einnig góð.
    Ég tel því ekki ástæðu til að taka hér inn í þessa umræðu gagnrýni á þetta fyrirkomulag og hlýt að endurtaka það að starf Sigurðar Rúnars Sigurjónssonar, sem nú starfar fyrir fjvn. og er jafnframt starfsmaður Ríkisendurskoðunar, hefur gefist afar vel. Þarf ekki að leita lengi í ræðum formanns fjvn., hv. 5. þm. Vestf., til að sjá að hans dómur er hinn sami. Við í fjvn. höfum svo enn fremur leitað nokkuð um upplýsingaöflun til Ríkisendurskoðunar og það er einnig eðlilegt. Við leitum okkur upplýsinga um framkvæmd fjárlaga, um stöðu ýmissa fyrirtækja og stofnana ríkisins og ýmsa þá þætti sem varða fjármál ríkisins til ýmissa aðila, ekki síst til fjmrn., áður til Fjárlaga- og hagsýslustofnunar meðan hún starfaði sem sjálfstætt ráðuneyti, til Ríkisendurskoðunar, til Þjóðhagsstofnunar og annarra þeirra aðila sem við teljum þurfa. Og það er fullkomlega eðlilegt að fjvn. leiti upplýsinga og fanga í starfi sínu til Ríkisendurskoðunar eins og annarra þessara aðila. Að öðru leyti vil ég endurtaka að ég met mikils það sem hv. forseti neðri deildar sagði hér áðan.
    Í ræðu sinni hér í fyrrakvöld sagði hv. 4. þm Norðurl. v. Ragnar Arnalds nokkur orð í garð okkar samþingsmanna, sem mér finnst ástæða til að gera að umtalsefni, þó að hv. 3. þm. Norðurl. v. hafi gert það einnig hér í síðustu ræðu. Í gær var einnig viðtal við

þennan hv. þingbróður okkar í Þjóðviljanum. Þar er hann kynntur sem alþingismaður og leikritaskáld. Að því er vikið í viðtalinu að löngum hafi hann starfað sem þingmaður, stjórnmálamaður, hér á Alþingi. Og ég vil taka það fram að við
hann sem slíkan hef ég átt ágætt samstarf. Hann starfaði sem mjög ötull þingmaður fyrir sitt kjördæmi og fyrir sinn flokk og sem stjórnmálamaður hér á hinu háa Alþingi þegar hann helgaði sig því hlutverki einvörðungu. Síðan slakaði hann nokkuð á þessu hlutverki sínu og tók að helga sig meira hinu síðara, sem kynnt er í viðtali við hann í Þjóðviljanum í gær, þ.e. ritun leikrita. Nú segir þar í því viðtali að hann geti ekki gegnt því hlutverki um sinn vegna anna og þær annir birtast væntanlega m.a. í þeim kveðjum sem hann sendi okkur hér í fyrradag, öðrum þingmönnum kjördæmisins. En þá kom sem sé í ljós að þessi hv. þingbróðir okkar hafði ruglað nokkuð saman starfsvettvangi sínum sem þingmanns og starfsvettvangi sínum sem leikritaskálds. Og það er mjög miður að hv. þingbróðir okkar, 4. þm. Norðurl. v., skuli ekki geta skilið þarna betur á milli heldur en hann gerði hér í ræðu sinni í gær.
    Hann sagði að ágreiningur væri milli þingmanna kjördæmisins um eitt atriði í því máli sem hér er rætt utan dagskrár. Það var að --- og hann nefndi hv. 1. þm. kjördæmisins og mig --- komið hefði í ljós að við vildum selja öðrum, við vildum selja kvótann burt úr byggðarlaginu og það væri okkar ætlun að fá hærra verð. Ég segi að þetta er ekki satt og þetta er ekki rétt. Við höfum talað alveg skýrt um þessi efni og engin ástæða til að semja um það eitthvert sérstakt leikrit sem ekki er í samræmi við raunveruleikann. Ég get lesið hér upp úr utandagskrárumræðu sem fram fór hinn 6. des. það sem ég sagði um þessi efni og sannar alveg hið gagnstæða. Ég segi til að mynda, með leyfi hæstv. forseta, eftir að ég hef lýst ýmsum þeim skilmálum sem ég telji að þurfi að vera við þessa sölu, ef af henni verður:
    ,,Ég tel það einnig spurningu hvort ekki eigi að bjóða öðrum að gerast þarna aðilar að, öðrum en þeim sem búa á Siglufirði, því það kann að vera vinningur að því fyrir bæjarfélagið að fá nýtt fjármagn inn í þetta fyrirtæki, ekki síst ef því fylgir að eigendur fjármagnsins kynnu að vilja flytjast til Siglufjarðar. Ég vil því ekki loka fyrir þá leið sem er einnig eðlileg í viðskiptum eins og um þessi mál. En kvaðir sem fylgja sölunni mundu verða að tryggja hagsmuni bæjarins og bæjarbúa ef af slíku yrði.``
    Þrátt fyrir þessi orð mín tók hv. 4. þm. Norðurl. v. Ragnar Arnalds til máls í þeirri umræðu og sneri út úr þeim þannig að ég sá mig knúinn til að gera athugasemd og þar segi ég, og svara þá einnig fyrir hönd hv. 1. þm. Norðurl. v. Páls Péturssonar, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Hvorugur okkar tók neitt af um þetta.`` Þ.e. að við kynnum að vera reiðubúnir til þess að fleiri en Siglfirðingar byðu í hlutabréfin. Enn segi ég svo áfram: ,,Hins vegar viljum við láta athuga það í framkvæmd þessa máls hvort ekki kunni að vera vinningur að því

að fá nýtt fé inn í fyrirtækið, nýtt fé inn í bæjarfélagið og þá helst ef því fylgir að eigendur þess fjármagns flytjist þangað og gerist þar bæjarbúar.``
    Þetta sagði ég í umræðum um þessi mál hinn 6. des. sl. og það sem ég sagði hér í ræðu minni í fyrradag var allt í samræmi við þetta. Ég sagði að það hefði ekki verið fylgt leikreglum, hvorki viðskiptalegs eðlis né siðferðislegs eðlis, í framkvæmd þessa máls. Ég tel að það hefði átt að bjóða þessi hlutabréf til sölu. Það var líka mjög auðvelt að gera það á opnum markaði með kvöðum, með þeim fyrirvara sem er í tengslum við söluna, að kvótinn verði ekki seldur úr bænum, að atvinnutækin verði ekki seld þaðan án samþykkis bæjarstjórnar. Slíkar kvaðir var hægt að hafa varðandi útboð. Þá hefði komið í ljós hver bauð best og þá hefði markaðurinn verið látinn ráða miðað við þær kvaðir sem þar fylgdu. Ég er nefnilega sannfærður um að það hefði ekki veitt af því að fá nýtt fjármagn inn í þetta fyrirtæki. Það hefði ekki veitt af því að það flyttist fjármagn til viðbótar við það sem fyrir er í Siglufirði til Siglufjarðar með því að aðrir aðilar fengjust til þess að leggja fé í fyrirtækið og flyttust þangað sjálfir til þess að styrkja fyrirtækið sjálft og styrkja bæjarfélagið, þar með atvinnulífið allt á Siglufirði. Þetta mátti ekki. Og það mátti heldur ekki selja öðrum aðilum á Siglufirði sem á 12 tímum tókst að safna 175 manns sem vildu kaupa fyrirtækið. Það mátti ekki vegna þess að það var ráðið fyrir fram að afhenda það einni fjölskyldu. Meirihlutaeign í fyrirtækinu skyldi verða afhent einni fjölskyldu, að kalla, þeim svilum, Róbert Guðfinnssyni og Ólafi Marteinssyni. Það var þetta, það var þessi misnotkun valds sem réði því að ekki fékkst, þrátt fyrir ítrekaðar kröfur okkar þingmanna kjördæmisins flestra, að eðlilegar viðskiptavenjur væru viðhafðar. Og það var þessi misbeiting valds sem gerir það að verkum að allt þetta mál er komið í það endemi sem raun ber vitni. Það er þessi misbeiting valds sem ræður því einnig að verðið verður umdeilanlegt.
    Ef sala hefði farið fram með eðlilegum hætti, ef hæstv. ráðherra, sem hér gengur fram hjá ræðustólnum, hefði fengist til þess að nota eðlilega viðskiptahætti og fengist til þess að nota einhvern tíma, t.d. tvær til þrjár vikur, þó ekki væri nú meira, til þess að leitast við að ná saman samkomulagi þeirra aðila sem vildu kaupa þetta fyrirtæki heima í Siglufirði þannig að friður gæti orðið um málið, þá var ekkert við verðið að athuga, ekki nokkur skapaður hlutur. En vegna þess að valdi var misbeitt til þess að afhenda tilteknum aðilum meirihlutaeign, þá verður verðið líka umdeilanlegt og það hljóta allir að sjá. Og það er auðvitað margítrekað hér að verðið er lágt. Því verður vitaskuld ekki slegið föstu með einni tölu, hvorki til eða frá. En það er augljóst að verðið er lágt.
    Það er svo hreinn útúrsnúningur hjá hv. þm. Ragnari Arnalds að við hinir þingmenn kjördæmisins hefðum viljað gæta hagsmuna kjördæmisins á þann hátt að verðið yrði tvöfalt hærra. Það er útúrsnúningur. ( RA: Annað er ekki að sjá.) Það er útúrsnúningur hjá leikritaskáldinu. ( Gripið fram í: Hvað segir Páll Pétursson?) Páll Pétursson segir sjálfsagt eitthvað um það á eftir. En þetta er útúrsnúningur hjá leikritaskáldinu. Ef friður hefði verið um málið, ef eðlilega hefði verið staðið að sölu, ef viðskiptaleikreglna hefði verið gætt, þá mátti verðið vera hvað sem var og ekki gagnrýnisvert. En við það að svona er á málum haldið af hinu pólitíska valdi, þá verður verðið líka gagnrýnisvert. Og a.m.k. þingmaðurinn hv., Ragnar Arnalds, á að geta skilið þetta, þessi einföldu sannindi. Leikritaskáldið kann að vilja vefja þetta í einhvern annan búning. Og ég vænti þess að hv. þm. Ragnar Arnalds geti í framtíðinni fengið betra tækifæri og aukið svigrúm til þess að þjóna því verksviði sínu að takast á við leikritun heldur en hann hefur gert til þessa. Ef hann hins vegar fer að rugla því saman við stjórnmálastarf, þá er illa farið með þann ágæta mann sem ég hef löngum átt gott samstarf við og hvergi um hann annað sagt. Ég held að ég láti þetta duga um þá ræðu sem hv. þm. Ragnar Arnalds flutti hér í fyrrakvöld.
    En það var einnig flutt önnur ræða sem var býsna athyglisverð og það var ræða hæstv. fjmrh. Eftir að hér höfðu komið þingmenn í þennan ræðustól, hver á fætur öðrum, og tætt í sundur málflutning hæstv. fjmrh., sýnt fram á ósannindavaðalinn, sýnt fram á blekkingarnar, sýnt fram á hugtakaruglinginn, sýnt fram á vinnubrögðin, pólitísk vinnubrögð sem hvorki samrýmdust leikreglum viðskipta né siðferðis, þá kom hann hér í ræðustólinn. Og hvað sagði svo hæstv. ráðherra? Hvar greip hann til varnar? Ekki eitt einasta orð. Hann greip ekki til varnar með einu einasta orði. Hann reyndi ekki með nokkru móti að hrekja eitt einasta atriði sem fram hafði komið í málflutningi, hvorki af minni hálfu né hv. þm. Páls Péturssonar. Ekki eitt einasta orð. Þess í stað greip hæstv. ráðherra til þess að lesa upp úr blaðagrein hv. þm. Jóns Sæmundar Sigurjónssonar sem birtist þann 7. þ.m. í Morgunblaðinu. Það kom sem sé í ljós að það ríður ekki við einteyming löngun hæstv. ráðherra til að rýra traust ekki einungis á stofnunum heldur einnig á einstökum mönnum, í þessu tifelli einstökum hv. þm. Hann sem sé gerði hv. þm. Jóni Sæmundi Sigurjónssyni þann bjarnargreiða að fara að lesa upp úr grein hans hér í ræðustól. Og það er auðvitað því verra þar sem þessi hv. þm. var ekki hér viðstaddur og situr ekki á þingi þessa stundina.
    Vegna þessarar ræðu hæstv. fjmrh. verður hins vegar ekki hægt að komast hjá því að minna á það að það var einmitt þessi hv. þm., Jón Sæmundur Sigurjónsson, sem óskaði eftir umræðu utan dagskrár um þetta mál, umræðu sem fram fór þann 6. des. sl. Hvers vegna? Vegna þess að honum varð meira brátt í málinu heldur en öðrum þingmönnum kjördæmisins um að rífa það upp. Og honum þótti á þeirri tíð málið tortryggilegra heldur en jafnvel okkur hinum. A.m.k. var það mín skoðun að ekki væri tilefni til þess að biðja um umræðu utan dagskrár um málið fyrr en að loknum fundi þingmanna með hæstv. fjmrh. sem við höfðum beðið um. Þessi hv. þm., 5. þm. Norðurl. v. Jón Sæmundur Sigurjónsson, taldi ekki eðlilegt að viðhafa þá kurteisisvenju í meðferð mála

hér á Alþingi að láta fyrst fara fram fund með þeim hæstv. ráðherra sem ætlunin var að tala við þannig að menn gætu skipst á skoðunum, heldur var honum svo brátt um þetta mál að hann bað um utandagskrárumræðu áður en fundurinn fór fram. Ég hafði hugsað mér að biðja um að málið yrði rætt utan dagskrár eftir þann fund, en þessi hv. þm. tók af mér ómakið. Í þeirri umræðu kemur það glöggt í ljós að honum er nokkuð í mun að að þessu verði staðið á annan hátt heldur en raun varð á.
    Þessi hv. þm. skrifar síðan á beiðni með okkur öðrum þingmönnum kjördæmisins um sérstaka úttekt Ríkisendurskoðunar á framferði hæstv. fjmrh. Hvers vegna? Ekki er ástæða til að biðja um skýrslu eða greinargerð um framferði eins tiltekins ráðherra ef það er allt saman augljóst að þar sé allt í góðu lagi, þar sé allt í fínasta lagi, þar hefði engu valdi verið misbeitt, þar hefði ekki verið misfarið með fé, þar væri allt saman tandurhreint og hvítt. Auðvitað var það ekki þess vegna sem hv. 5. þm. Norðurl. v. bað um skýrslu Ríkisendurskoðunar um þennan gerning hæstv. fjmrh. Það var vitaskuld vegna þess að hann, eins og aðrir þingmenn kjördæmisins að undanskildum hv. þm. Ragnari Arnalds, taldi að hér væri ekki farið að eins og vera þyrfti í meðferð opinberra mála.
    Svo gerist það að hv. þm. gengur á hurð og virðist skipta um skoðun og talar bara allt öðruvísi og þvert ofan í sjálfan sig í einhverri blaðagrein. Og til þess að hæstv. fjmrh. gæti þjónað lund sinni að rýra traust ekki einungis á Ríkisendurskoðun heldur líka á tilteknum mönnum, í þessu tilfelli þessum hv. þm., 5. þm. Norðurl. v., þá fer hann að lesa upp það sem stendur í þessari grein.
    Þetta var nú það ráð sem hæstv. fjmrh. tók, eftir að málflutningur hans hafði verið tættur svo í sundur sem raun ber vitni hér fyrir tveimur dögum. Annað var það ekki. Ekki eitt einasta orð sem haggaði því sem við höfðum sagt, við hv. þm. Páll Pétursson. Ekki eitt einasta orð og ekki gerð tilraun til þess. Það má gjarnan skrifa það hjá sér. Ekki gerð tilraun til þess. Hann vék aðeins að einu atriði, að talað hefði verið við mann úti í bæ, Sigurð B. Stefánsson, og svo vill til að við þennan mann, Sigurð B. Stefánsson, er viðtal í Alþýðublaðinu í gær. Í þessu viðtali segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Okkar niðurstaða var að hlutabréfin væru jafnvel einskis virði, segir Sigurður B. Stefánsson, forstöðumaður Verðbréfamarkaðar Íslandsbanka, um mat á hlutabréfum í Þormóði ramma. Í fyrrasumar voru aðilar að Verðbréfamarkaði Íslandsbanka beðnir um að slá á virði hlutabréfa í útgerðarfyrirtækinu Þormóði ramma á Siglufirði. Lýsti forstöðumaður Verðbréfamarkaðarins munnlega sínum viðhorfum. Var miðað við að nýr aðili kæmi að fyrirtækinu til að reka það áfram.``
    Síðan segir: ,,Það mætti þakka fyrir að sala á eignum dekkaði skuldir, segir Sigurður. Skuldir Þormóðs ramma eru 850 -- 900 millj. en deilt hefur verið um verðmæti kvótans.``
    Hvað segir nú þetta? Í fyrrasumar koma menn til

þessa virta verðbréfasala og biðja um álit hans og honum er sagt að skuldir fyrirtækisins séu 850 -- 900 millj. kr. Og miðað við það er líklegt, segir þessi forstöðumaður Verðbréfamarkaðarins, að fyrirtækið sé einskis virði. Þarna telur hæstv. fjmrh. að hann hafi aldeilis fengið tromp í hendurnar. En þarna er auðvitað það sem gerist að Sigurður B. Stefánsson fær rangar upplýsingar. Honum er sagt að skuldir Þormóðs ramma séu 850 -- 900 millj. kr. Og hæstv. fjmrh. hefur notað þessa tölu og ruglað með því og villt um fyrir fólki með blekkingum. Skuldir Þormóðs ramma eru nefnilega ekki 850 -- 900 millj. kr., heldur voru þær miðað við uppgjör frá því í maílok um 589 millj. kr., að frádregnum veltufjármunum, en eru núna væntanlega um 500 millj. kr., að frádregnum veltufjármunum, vegna þess hvað fyrirtækið hefur hagnast á þeim tíma sem liðinn er síðan 31. maí. Og ef Sigurður B. Stefánsson hefði nú fengið réttar upplýsingar, þá þýðir þetta það að að hans mati er fyrirtækið 450 -- 500 millj. kr. virði.
    Sigurður B. Stefánsson gerir því ekki einungis að staðfesta mat Ríkisendurskoðunar heldur er hans mat hærra, ef hann hefði fengið réttar upplýsingar. En það kemur ekki fram í þessu viðtali að hann hafi skilað um þetta neinni skýrslu eða hann hafi gert neina athugun heldur segir hann þessa hluti á grundvelli þeirra upplýsinga sem fram koma í viðtali. Spursmálið er það og það má spyrja hæstv. fjmrh.: Voru það sendimenn fjmrh. sem fóru til Sigurðar B. Stefánssonar og lögðu málið á þennan veg fyrir? Eða voru það þeir sem ætluðu sér að kaupa og voru að fá mat virts manns sem byggt var á fölskum forsendum, röngum upplýsingum?
    Þetta er eins og annað í málflutningi hæstv. ráðherra og þetta var það eina sem tuðaðist út úr hæstv. ráðherra sem eitthvað kom við efni málsins í ræðu hans hér í fyrrakvöld. Það eina. Og það var þá svona.
    Ég held að það sé ekki ástæða fyrir mig að flytja hér lengri ræðu. Ég taldi nauðsynlegt að láta þetta koma fram hér varðandi þessar tvær ræður sem fluttar voru í fyrrakvöld. Ég lýsti í fyrri ræðu minni hvernig meðferð hæstv. fjmrh. er á þessu máli og hans vinnubrögðum og sé ekki ástæðu til að endurtaka það. Það hefur ekki verið hrakið. En ég ítreka að það er illt verk þegar einn af æðstu mönnum stjórnkerfisins notar pólitíska aðstöðu og pólitíska starfsmenn sína til þess að rakka niður traust þeirrar stofnunar sem við eigum hvað mest undir að njóti virðingar og trausts eins og hún hefur gert --- og gerir þrátt fyrir þá lúalegu árás sem hæstv. fjmrh. hefur gert hér á Alþingi.