Skýrsla Ríkisendurskoðunar um Þormóð ramma
Fimmtudaginn 14. febrúar 1991


     Þorsteinn Pálsson :
    Frú forseti. Ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum með undirtektir hæstv. sjútvrh. að því er varðaði traust af hálfu Alþingis á Ríkisendurskoðun. Það er meiri tvöfeldni í afstöðu en Alþingi getur sætt sig við þegar meiri hlutinn stendur að baki og hefur fullt traust á ráðherra sem hefur lýst vantrausti á Ríkisendurskoðun, eins og hann hefur gert, en segja á sama tíma: Ríkisendurskoðun getur starfað og hefur fullt traust. Í þessu kemur fram meiri tvöfeldni en hægt er fyrir Alþingi að sætta sig við. Það er ekki hægt að segja, um leið og ráðherra í umboði meiri hluta þings hefur lýst slíku vantrausti, að Ríkisendurskoðun geti starfað eins og ekkert hafi í skorist. Þess vegna eru aðeins færir þessir tveir kostir. Annaðhvort að ráðherrann víki eða Alþingi víki ummælum hans í reynd til hliðar með því að lýsa yfir trausti á Ríkisendurskoðun og ég skora enn á meiri hlutann að taka undir óskir þar um til þess að Ríkisendurskoðun geti haldið áfram störfum sínum.