Skýrsla Ríkisendurskoðunar um Þormóð ramma
Fimmtudaginn 14. febrúar 1991


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð. Það hefur nokkuð verið vikið að því hér í þessum umræðum að ég hafi sagt að það væri hægt að panta skýrslu frá Ríkisendurskoðun og hv. þm. Geir Haarde gerði það sérstaklega að umræðuefni. Ég vil biðja hv. þm. að skoða bæði það sem ég sagði og eins samhengi málsins, vegna þess að ég hef hvergi sagt að það væri hægt að panta niðurstöður frá Ríkisendurskoðun, frá einstökum aðila. Og þegar fréttamaðurinn spurði mig að því í inngangi að því viðtali sem hér hefur verið vitnað til, þá gaf ég alveg skýr svör við því.
    Menn hafa verið hér í orðaleik um það að það er munur á því að segja að þingmenn hafi ,,pantað`` skýrslu og vissulega má það til sanns vegar færa að þessir fjórir þingmenn hafi pantað skýrslu í merkingunni að biðja um skýrslu og svo hinni merkingunni að menn hafi pantað tilteknar niðurstöður í skýrslunum. Það eru hreinir útúrsnúningar sem menn hafa haft við hér í umræðunum þegar menn eru að nota það svar mitt, þar sem ég vitna í það að það sé staðreynd að bæði hafi þessir þingmenn pantað og síðan í tengslum við Atvinnutryggingarsjóð verið pöntuð skýrsla, í þeirri merkingu sem fréttamaðurinn vildi nota það, þ.e. beðið um skýrslu. Og ef menn ætla að gera þetta að einhverju aðalatriði í málinu, þá verða menn að gera þennan greinarmun á þessu tvennu. Þessu bið ég menn nú að átta sig á, ef þetta á að vera eitthvert aðalatriði í málflutningnum.
    Hitt vildi ég svo segja í tilefni af ræðu hv. þm. Matthíasar Á. Mathiesen að það hefur verið unnið mikið starf að því að leiða saman þau sjónarmið sem ýmsir embættismenn, bæði í fjmrn. og annars staðar, einstaka ráðherrar og síðan fjvn. hafa varðandi það frv. sem fjvn. flutti hér í fyrra. Um það hefur verið fjallað ítarlega af ríkisreikningsnefnd, undirnefnd hennar, og það liggja fyrir tillögur um endanlega gerð slíks frv. sem fulltrúar fjmrn. og fjvn. hafa verið að ræða til þess að flytja frv. sem væri fullkomin samstaða um milli fjvn. og fjmrn. Ég tel að það sé unnið að því verki í góðum anda og það eigi á næstu dögum að geta legið fyrir niðurstaða í því. Ég held að í dag hafi verið fundur fulltrúa fjvn. og fjmrn. um það mál. Ég hef rætt það við formann fjvn. hvað eftir annað og það liggur fyrir tillaga að texta sem í grófum dráttum er samstaða um milli fjvn. og fjmrn. þannig að það þarf ekki að gera mikið mál úr því. Sú vinna er nánast í höfn. Og ég hef lýst því yfir hvað eftir annað en ég tel æskilegt að það sé sameiginlegt verk fjvn. og fjmrn. þótt það sé flutt hér af fjvn. vegna þess að ég tel að það sé enginn efnislegur ágreiningur um þetta atriði.
    Ég sagði hér í þessum umræðum og hef sagt hvað eftir annað að ég telji að það þurfi að setja skýrari reglur og ákvæði um það með hvaða hætti eigi að selja eignir ríkisins. Það var upphaf minnar ræðu hér í þessum umræðum að taka það alveg skýrt fram að það þyrfti að gera, þannig að það er enginn ágreiningur við mig um það atriði. Þvert á móti lýsti ég því

yfir í umræðunum um þetta frv. fjvn. í fyrra að það væri að mörgu leyti mjög þarft og það væru fjölmörg atriði í því nauðsynleg, en það þyrfti hins vegar að skoða frv. og fara yfir það mjög rækilega sem hefur verið gert. Og ég vona að áður en þingi lýkur hér í vor verði hægt að afgreiða slíkt frv.
    Að lokum þetta, virðulegi forseti. Það eiga eftir að koma hér margir ráðherrar á næstu árum. Það eiga eftir að koma hér margar skýrslur frá Ríkisendurskoðun sem þingmenn biðja um, en ég bið menn að átta sig á því að það liggur í eðli máls að ráðherrar og sérfræðingar utan Alþingis hljóta oft að hafa aðra skoðun á því sem fram kemur í skýrslum Ríkisendurskoðunar heldur en höfundar skýrslnanna hjá Ríkisendurskoðun. Þau fræði sem Ríkisendurskoðun fjallar um eru einfaldlega þess eðlis að þar getur sýnst sitt hverjum og það er nánast út í hött að þingmenn vilji halda þannig á málum að fyrirbyggja að ráðherrar eða aðrir sérfræðingar geti látið í ljósi aðra skoðun eða þá ef þeir gera það, þá jafngildi slíkt vantrausti á Ríkisendurskoðun. Það er sem betur fer í íslensku máli mikill munur á því að leyfa sér að gagnrýna einstaklinga eða stofnun og að lýsa vantrausti á einstakling eða stofnun. Ég leyfi mér oft t.d. að gagnrýna samráðherra mína í ríkisstjórninni, en ég ber fyllsta traust til þeirra. Ég leyfi mér líka að gagnrýna ærið oft þingmenn stjórnarandstöðunnar þó að ég sé ekki að lýsa á þá vantrausti.
    Ég bið menn að nota málið með þeim hætti að gera skýran greinarmun á þessu því að ella eru menn að setja slíkar hömlur á lýðræðislega umræðu í landinu að sá tilgangur, sem Ríkisendurskoðun átti upphaflega að þjóna --- og ég var sammála, eins og ég sagði hér í minni upphafsræðu, ég var sammála því, það var mikil og góð breyting í stjórnskipun landsins að flytja Ríkisendurskoðun úr fjmrn. og yfir til Alþingis, en menn væru þá að koma í veg fyrir það að sá tilgangur næði fram að ganga.