Skýrsla Ríkisendurskoðunar um Þormóð ramma
Fimmtudaginn 14. febrúar 1991


     Matthías Á. Mathiesen :
    Frú forseti. Ég skal nú ekki lengja þessar umræður. Ég held að hvernig svo sem hæstv. fjmrh. hefur hagað orðum sínum í ræðu eða í blaðaviðtölum, þá liggi það ljóst fyrir að það er skoðun þeirra sem hafa fylgst með þessum málum að hann hafi gefið í skyn --- ég skal ekki orða það svo að setningarnar hafi fallið þannig, en það hafi mátt skilja hann tvímælalaust þannig að ekki bara hér hafi þingmenn beðið um skýrslu heldur hafi þingmenn hér pantað niðurstöðu.
    En ég ætla ekki að fara að deila um þetta heldur vildi ég segja hitt varðandi það sem hæstv. ráðherra sagði að það lægi núna fyrir tillaga að texta að frv. til laga um ráðstöfun á eignum ríkissjóðs og því sem þessu frv. sem hér lá fyrir í fyrra var ætlað að ná yfir, það er mjög ánægjulegt að heyra það og ég trúi að hæstv. fjmrh. beiti sér fyrir því að þessi texti komi í frumvarpsformi hér inn í Alþingi eða þá, eins og ég lagði til hér áðan, verði sem brtt. við frv. hv. 1. þm. Norðurl. v., þá a.m.k. verður það hans frv. sem fer hér í gegn þó að það sé komið með breyttum texta.
    En ég vildi aðeins taka fram út af því sem hæstv. sjútvrh. sagði að frumvarpið um Ríkisendurskoðun eins og Ríkisendurskoðun er í dag var flutt 1977. Ég gegndi fjármálaráðherraembættinu einmitt í þá tíð og ég lýsti yfir fullum stuðningi við þetta fyrirkomulag að fenginni reynslu, taldi þetta vera það sem koma ætti og einmitt taldi ég að Alþingi væri að styrkja sína stöðu. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að við eigum að láta Ríkisendurskoðun finna það traust sem við berum til Ríkisendurskoðunar en ég tel að slíkar umræður eins og hér hefur verið til stofnað séu með þeim hætti að það sé til þess að veikja slíka stofnun í stað þess að Alþingi á að gera allt sem það getur til þess að styrkja hana.