Brottnám líffæra og krufningar
Föstudaginn 15. febrúar 1991


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason) :
    Herra forseti. Fyrir réttu rúmi ári síðan skipaði ég nefnd sem fékk tvíþætt verkefni. Annars vegar að gera tillögur að löggjöf um skilgreiningu dauða og hins vegar að gera tillögur að reglum um brottnám líffæra. Í nefndinni áttu sæti Páll Sigurðsson ráðuneytisstjóri, sem var formaður nefndarinnar, Ólafur Ólafsson landlæknir, Páll Ásmundsson yfirlæknir, sr. Sigfinnur Þorleifsson sjúkrahúsprestur, Sigþrúður Ingimundardóttir hjúkrunarfræðingur, Þórður Harðarson prófessor og Dögg Pálsdóttir lögfræðingur sem jafnframt var ritari nefndarinnar.
    Nefnin lauk störfum snemma á seinasta ári. Eftir vandlega athugun mælti nefndin með því að sett verði lög um ákvörðun dauða og þar staðfest að maður teljist látinn þegar öll heilastarfsemi hans er hætt og engin ráð eru til að heilinn starfi á ný. Nefndin samdi tvö lagafrv., frv. til laga um ákvörðun dauða og frv. til laga um brottnám líffæra og krufningar sem hér er til umræðu. Bæði frv. voru lögð fram á 112. löggjafarþinginu til kynningar en ekki afgreiðslu á því þingi.
    Í gegnum starfsemi norrænu líffæraflutningastofnunarinnar, Scandiatransplant, hafa íslenskir sjúklingar þegið nýru úr nýlátnum einstaklingum frá árinu 1971. Í árslok 1989 höfðu samtals 50 nýru verið grædd í 46 sjúklinga. Þrír Íslendingar, tveir karlmenn og ein kona, hafa þegið hjarta eða hjarta og lungu. Ígræðslurnar hafa allar verið gerðar á sjúkrahúsi í Lundúnum. Þrír íslenskir sjúklingar hafa þegið lifur.
    Niðurstaða nefndarinnar var sú að ólíklegt sé að líffæraígræðslur, aðrar en hornhimnuígræðslur sem hér hafa verið framkvæmdar um árabil, verði stundaðar hér á landi í náinni framtíð vegna smæðar þjóðarinnar. Við bestu aðstæður hér á landi mun hins vegar verða unnt að nema brott líffæri sem send yrðu utan til ígræðslu. Þótt ólíklegt sé að slík líffæri nýttust í íslenska sjúklinga mundi þátttaka Íslendinga í slíku starfi auka líkur íslenskra sjúklinga sem bíða líffæraflutninga.
    Nefndin taldi hins vegar nauðsynlegt að lögfesta skýr ákvæði um brottnám líffæra til ígræðslu, auk þess sem nefndin taldi nauðsynlegt að setja skýrar reglur um hvenær krufning væri heimil.
    Frv. það sem hér liggur fyrir skiptist í þrjá kafla, brottnám líffæra, krufningar og almenn ákvæði. Í I. kafla frv. er fjallað um brottnám líffæra. Þó er blóðgjöf og notkun blóðs undanþegin ákvæðum laganna. Gert er ráð fyrir að einstaklingur sé orðinn 18 ára til þess að geta gefið samþykki til brottnáms líffæris eða lífrænna efna úr eigin líkama til nota við læknismeðferð annars einstaklings. Aldrei má þó stofna lífi og heilsu væntanlegs líffæragjafa í hættu. Lækni ber að gefa væntanlegum líffæragjafa upplýsingar um eðli aðgerðar og hugsanlegar afleiðingar. Auk þess skal hann ganga tryggilega úr skugga um að væntanlegur líffæragjafi hafi skilið upplýsingarnar.
    Sé fyrirhugað að nema brott líffæri eða lífrænt efni úr nýlátnum einstaklingi skal einstaklingurinn fyrir

andlátið hafa gefið samþykki sitt til slíkrar aðgerðar. Vottur þarf að geta staðfest munnlegt samþykki. Þó að samþykki liggi ekki fyrir skal brottnám líffæra eða lífræns efnis engu að síður heimilt ef fyrir liggur samþykki nánasta vandamanns ef slíkt er ekki talið brjóta í bág við vilja hins látna.
    Í frv. er sérstaklega tekið fram hverjir skulu teljast nánustu vandamenn í þessu sambandi. Er fyrst og fremst átt við maka, sambýlismann eða sambýliskonu. Hafi hinn látni ekki átt maka skal afla samþykkis barna og hafi hann verið barnlaus þá samþykkis foreldra. Séu foreldrar hins látna ekki á lífi teljast systkini hans nánustu vandamenn. Þannig má ekki nema á brott líffæri eða lífrænt efni úr einstaklingi sem á ekki svo nána vandamenn sem frv. tilgreinir nema hann hafi gefið samþykki sitt áður en hann lést.
    Frv. gerir ráð fyrir að andlát skuli staðfest með enn tryggilegri hætti en venja er ef nema á brott líffæri til ígræðslu. Þannig skal andlátið staðfest af tveimur læknum öðrum en þeim sem nema brott líffærin.
    Frv. setur fram skýrar kröfur um skrá yfir brottnumin líffæri.
    Í II. kafla frv. er fjallað um krufningar. Þar er gert ráð fyrir þeirri meginreglu að krufningu megi ekki gera nema hinn látni hafi samþykkt hana eða vandamenn hans í þeim tilvikum þegar ekki er vitað um vilja hins látna. Jafnframt er lögð sú skylda á lækni sem telur krufningu nauðsynlega að hann kynni vandamönnum tilgang og markmið krufningarinnar. Þá er og gert ráð fyrir því að vandamenn eigi sjálfstæðan rétt til þess að óska krufningar.
    Í III. kafla frv. eru almenn ákvæði þar sem gert er ráð fyrir að ráðherra sé heimilt að setja reglur um framkvæmd laganna, m.a. um frágang líka að lokinni krufningu. Þykir nauðsynlegt að slíkar reglur eigi sér skýra lagastoð.
    Á kirkjuþingi sem stóð yfir þegar frv. var til umræðu í Nd. var fjallað um dauðann og líffærakrufningar. Fyrir þinginu lá álitsgerð Rannsóknastofnunar í siðfræði um að skilgreining dauða skyldi miðast við algjört heiladrep og að brottnám og ígræðsla líffæra skuli heimiluð að uppfylltum tilteknum skilyrðum.
    Í álitsgerðinni er því haldið fram að sömu siðferðilegu rökin komi til álita þegar fjallað er um brottnám líffæra úr látnum manni og um brottnám og ígræðslu líffæra þegar lifandi gjafi á í hlut. Þar segir m.a., með leyfi forseta: ,,Að því tilskildu að aðgerðin sé í einhlítu lækningaskyni og engin annarleg sjónarmið séu með í för, t.d. verslun með líffæri, þá þjónar hún tvímælalaust góðu og göfugu markmiði, þ.e. að bjarga mannslífi.``
    Í álitsgerðinni er lögð áhersla á að virða beri yfirlýsta ósk hins látna um að líffæri úr líkama hans verði notað til ígræðslu að því tilskildu að fyrir liggi læknisfræðilegur úrskurður um að líffærið komi að tilætluðum notum. Að sama skapi ber að tala fullt tillit til þess hafi hinn látni lagt bann við að líffæri úr líkama hans verði notað til ígræðslu. Þegar ekki er vitað með vissu um vilja hins látna megi færa rök fyrir því að unnt sé að heimila aðgerðina að uppfylltum tilteknum skilyrðum er lúti að því að ráða í vilja hins látna.
    Er niðurstaða álitsgerðarinnar sú að með hliðsjón af læknisfræðilegum þáttum og að uppfylltum siðferðilegum skilyrðum sé brottnám líffæra til ígræðslu réttmætt.
    Virðulegi forseti. Ég hef hér rakið efni frv. þessa til laga um brottnám líffæra og krufningar. Frv. er hér til meðferðar í síðari deild, hefur þegar fengið meðhöndlun í Nd. og var samþykkt þar með smávægilegum breytingum. Ég leyfi mér því að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.