Stjórnarskipunarlög
Föstudaginn 15. febrúar 1991


     Salome Þorkelsdóttir :
    Hæstv. forseti. Hér hefur verið mælt fyrir frv. um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og það er hv. 4. þm. Suðurl., formaður þingflokks Alþb., sem mælir fyrir frv. hér þar sem hún er, eins og fram kom í hennar framsöguræðu, einn af þeim formönnum þingflokka sem sömdu þetta frv.
    Mér fannst eitt eftirtektarvert sem ég held ég fari rétt með að kom fram í hennar máli og það var að hún fullyrti að nú lægi það fyrir að hér á hv. Alþingi væri meiri hluti fyrir því að fara frá deildaskiptingunni og yfir í eina málstofu. Kannski hef ég þar misskilið hennar mál og ef svo er, þá væntanlega leiðréttir hún það. Mér sýndist það á hennar svip nú að hún gæfi mér það til kynna að ég færi þar ekki með rétt mál. En það kannski skiptir nú ekki miklu máli. ( Gripið fram í: Það skiptir bara öllu máli.) Það skiptir öllu máli ef þetta hefur verið sagt, já, en það kannski skiptir ekki öllu máli hvort ég fer hér með rétt eða rangt á þessari stundu því að hv. 4. þm. Suðurl. mun þá leiðrétta það hér á eftir.
    En það má segja að hér sé um að ræða tímamótafrumvarp og ég verð næstum því að segja að síðasti ræðumaður, hv. 4. þm. Vestf., hafi haldið hér tímamótaræðu um þetta mál. Kannski eru það fáir þingmenn hér á hv. Alþingi sem hafa meiri reynslu í störfum Alþingis heldur en einmitt hv. 4. þm. Vestf. sem hefur setið á forsetastóli hér bæði í deild og sameinuðu þingi. Þess vegna hlustaði ég af mikilli athygli á hans ræðu. Hann var harðorður og ákveðinn í sínum málflutningi. En það sama get ég ekki sagt hvað mig varðar. Ég ætla mér hvorki að vera harðorð né ákveðin í mínum málflutningi. Ég held að hvað mig snertir þá hafi fæst orð minnsta ábyrgð. Ég á sæti í allshn., sem fær þetta frv. til umfjöllunar, og ég ætla þess vegna ekki að fara að fjalla efnislega um einstök atriði frv., enda eins og hv. 4. þm. Vestf. benti á, þá eru hin einstöku atriði frv. öll tengd þessu grundvallaratriði, þ.e. deildaskiptingunni.
    En ég get ekki annað en talað hérna svolítið út frá tilfinningum og þá er mér kannski efst í huga sú spurning hvort þessi breyting, að breyta störfum Alþingis í eina málstofu, sé í raun til bóta. Hvort það verði til að einfalda störf þingsins, til þess að gera þau skilvirkari og til þess að auðvelda þingmönnum að fjalla um störf sem snúa að löggjafarstarfinu og fara fram í deildum þingsins. Þetta finnst mér vera meginatriðið og til marks um það þá hafa verið og eru miklar efasemdir í mínum huga að þarna hafi menn rétt fyrir sér, kannski ekki síst það hvað við heyrum það oft frá þingmönnum sem hafa átt þess kost að taka þátt í störfum þingsins í báðum deildum. Það kemur oft fyrir, eins og við vitum, að varaþingmenn koma ýmist til starfa í efri deild eða neðri deild eftir því fyrir hverja þeir koma inn á þing hverju sinni. Eins er það líka svo að við höfum heyrt þetta af vörum hæstv. ráðherra sem hafa verið þingmenn í neðri deild en koma svo hér inn í þessa hv. deild, efri deild, sem ráðherrar og fylgjast með störfum þessarar litlu, góðu deildar, að þeir láta í ljósi hvað þeim þykir þetta miklu betri deild að sitja í eða starfa í vegna þess að hún er fámennari og þess vegna verður umræðan öll málefnalegri og með öðrum hætti heldur en gerist í neðri deild.
    Þess vegna liggur við að ég sé fyrir fram hér í ræðustólnum með söknuði í huga ef þingmenn fá ekki lengur tækifæri til að starfa með þeim hætti sem ég held að mörg okkar, sem eigum sæti hér í þessari hv. deild, kunnum vel að meta, a.m.k. þeir þingmenn sem ekki sækjast eftir því að vera ætíð í fjölmiðlunum. En það vitum við auðvitað sem sitjum í þessari deild að fjölmiðlarnir virðast ekki hafa sama áhuga fyrir því sem fer fram hér í þessari litlu deild eins og því sem fer fram í sameinuðu þingi eða hv. neðri deild sem situr í þessum stóra sal og umræðan verður óneitanlega með allt öðrum hætti. Það má vel vera, og ég held að ég hafi nú einhvern tímann heyrt þá skýringu frá fjölmiðlamönnum, að það sé svo erfitt, t.d. fyrir sjónvarpið, að fylgjast með í þessari deild því það sé svo erfitt að taka héðan myndir. Það má vel vera að svo sé. En ég held að það sé fyrst og fremst vegna þess hve umræðan hér er öll miklu málefnalegri af því að við erum svo fá að það hefur bætandi áhrif á okkur, tengslin verða persónulegri og þar með öll umræðan og vinnan betri.
    Þetta leyfi ég mér að segja nú án þess að ég sé fyrir fram að taka þá ákvörðun að ég ætli að fara að berjast á móti samþykkt þessa frv. Það má vel vera að það sé rétt, sem ég hélt að hefði verið sagt hér, að það sé samstaða eða meiri hluti fyrir þessari breytingu. Þá kemur það í ljós. Ég hef þá talað hér sem einn úr minni hlutanum. Ég held að það sé nauðsynlegt að láta þær raddir einnig heyrast.
    En ég er þeirrar skoðunar að með því að starfa í tveimur deildum í löggjafarstarfinu, þá megi segja að það sjái betur augu en auga, og við höfum líka reynslu af því að oft verða breytingar á hinum ýmsu frumvörpum sem við erum að fjalla um og meðhöndla milli deilda því það sem önnur deildin sá ekki, það sá hin síðari deild, og þannig er stundum hægt að lagfæra og koma jafnvel í veg fyrir slys í gerð lagasetningar hér á hv. Alþingi.
    Ég ætla ekki, hæstv. forseti, að hafa þessi orð öllu fleiri en ég stenst það ekki að láta mína rödd koma hér fram við 1. umr., að láta það koma fram að það eru miklar efasemdir í mínum huga um ágæti þessara breytinga án þess, eins og ég sagði áðan, að ég sé að lýsa því yfir að ég ætli að berjast á móti þessari breytingu. Ég sé ýmsa kosti en ég held að þeir vegi ekki þyngra. Ég held að ókostirnir séu kannski þyngri á metunum. Þannig er þetta í mínum huga nú og þess vegna stóðst ég nú ekki mátið, þó ég hafi ekki sest niður og fjallað hér um þetta mál í ljósi sögunnar, eins og hv. 4. þm. Vestf. gerði hér áðan, og mér fannst bara mjög gott að fá inn í þingtíðindin hans sjónarmið hér og allar þær upplýsingar sem hann setti fram.
    Ég held, hæstv. forseti, að ég hafi þessi orð mín ekki fleiri hér við þessa umræðu. Eins og ég sagði

áðan á ég sæti í hv. allshn. og fæ því tækifæri til að vinna að umfjöllun þessa frv. í nefndinni.