Stjórnarskipunarlög
Föstudaginn 15. febrúar 1991


     Margrét Frímannsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ekki vil ég trúa því að hv. þm. þessarar deildar telji formenn þingflokka umboðslausa í því starfi sem þeir hafa innt af hendi. Hæstv. forsetar þingsins fólu þingflokksformönnum að fara yfir málið og ég fullyrði það hér að nefndin reyndi að vinna þetta verk vel undir góðri stjórn formanns þingflokks Sjálfstfl. sem stýrði nefndinni og lagði mikla vinnu í að ljúka málinu þannig að samkomulag næðist meðal nefndarmanna. Eins og ég sagði áðan í framsöguræðu minni þá voru ýmis atriði sem við þingflokksformenn vorum beðnir um að fara yfir sem ekki náðist samkomulag um og því eru þau ekki hér í því frv. sem er verið að ræða.
    Það er alveg rétt sem kom fram hjá hv. þm. Salome Þorkelsdóttur að það skiptir meginmáli hvort fullyrt er að það sé samstaða meiri hluta hér á Alþingi um afnám deildaskiptingar. Slík fullyrðing kom ekki fram í ræðu minni, enda hef ég ekki þá þekkingu á afstöðu hv. þm. almennt að ég geti fullyrt þetta, langt í frá. Það sem kom fram í ræðunni er þetta: Ég gat þess í upphafi að forsetar Alþingis hefðu sent þingflokksformönnum bréf og í því bréfi kæmi fram að þeir hefðu ástæðu til að ætla að afnám deildaskiptingar Alþingis hafi mikinn hljómgrunn í öllum þingflokkum og samstaða gæti tekist um breytingu á skipulagi Alþingis á þessu þingi.
    Enn fremur sagði ég að meginatriði þessa frv. væri afnám deildaskiptingar. Um það væri samstaða í nefndinni, þó vitaskuld væru menn misjafnlega sannfærðir um ágæti þeirrar breytingar. Jafnframt sagði ég að nokkrir þingflokksformanna, þar á meðal ég, hefðu lagt áherslu á að fyrir lægi, áður en nefndin afgreiddi málið frá sér, sæmilega ítarleg drög að þingskapalögum þannig að við gætum séð hvernig þessi breyting á skipulagi Alþingis yrði útfærð í smáatriðum. Og einnig gat ég þess að hugmynd um afnám deildaskiptingar Alþingis væri gömul og hefði komið oft fram og hér á Alþingi hefðu verið flutt bæði tillögur og frumvörp þess efnis. En hvergi í minni ræðu fullyrti ég að um algera samstöðu meiri hluta þingmanna væri að ræða varðandi þessa breytingu.