Stjórnarskipunarlög
Föstudaginn 15. febrúar 1991


     Guðmundur H. Garðarsson :
    Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni mál sem enginn hv. þm. getur látið afskiptalaust. Þótt um það hafi verið fjallað af formönnum þingflokka og einnig í þingflokkum er málið þess eðlis að hvorki formenn þingflokka né þingflokkar geta bundið hendur hv. þm. í meðferð þess.
    Ég er innilega sammála hæstv. menntmrh. Svavari Gestssyni í því sem hann sagði hér fyrr í ræðu að það sem hér er verið að fjalla um er raunverulega hjartað í þingræði á Íslandi og kjarni þess lýðræðis sem við viljum starfa samkvæmt. Fór hann mörgum orðum um það og hef ég litlu við það að bæta. Einnig vil ég taka undir orð hv. 18. þm. Reykv. Guðrúnar J. Halldórsdóttur þar sem hún vísaði til ræðu hv. 4. þm. Vestf. Þorvaldar Garðars Kristjánssonar er hann flutti gagnmerka ræðu um stöðu og störf Alþingis. Það sem ég heyrði úr hans ræðu var þess eðlis að ég hlustaði á það með athygli og styrkti það skoðun mína á því að hv. þm. ættu ekki að flýta sér um of í þeim efnum að breyta tilhögun Alþingis.
    Það er þannig með okkur sem höfum unnið mikið úti í atvinnulífinu að við kynnumst svokölluðum stjórnunarstörfum með dálítið öðrum hætti en hinir æfðu stjórnmálamenn. En þó verð ég að segja að það kom fram í ræðum manna áðan að þegar verið er að fjalla um einstök atriði þessa frv. þá stöldruðu menn nokkuð við ákveðin hugtök, ákveðin orð sem við, sem höfum tekið þátt í atvinnulífinu og rekstri stórfyrirtækja, höfum rekið okkur alloft á, sérstaklega nú á seinni tímum. Ég nefni þar sérstaklega orðið ,,skilvirkni``, en eins og kemur fram í greinargerð með þessu frv. er lögð alveg sérstök áhersla á það m.a. að með þeirri breytingu sem frv. gerir ráð fyrir sé verið að reyna að auka svokallaða skilvirkni Alþingis. Ég mun ræða nokkuð hér frekar á eftir um orðið skilvirkni vegna þess að mér finnst það ekki eiga við þegar verið er að fjalla um löggjafarsamkomu þjóðarinnar, hið háa Alþingi. ( Menntmrh.: Frekar en t.d. framlegð.) Alveg rétt, hæstv. menntmrh., þetta var mjög góð ábending. Þetta var sama eðlis, mér finnst það ekki eiga við þar sem verið er að ræða um mál þess eðlis sem oft er fjallað um á hinu háa Alþingi. Það getur átt við í vissum tilfellum, þegar t.d. er verið að ræða um fyrirtæki eins og Þormóð ramma í Sþ. o.s.frv. en alls ekki þegar verið er að fjalla um stöðu Alþingis með þeim hætti sem hv. þm. eiga að gera sem útverðir lýðræðis og þingræðis í landinu.
    Áður en hægt er að afgreiða þetta frv. tel ég að hér fyrir hinu háa Alþingi verði að liggja þingskapalög, þ.e. frv. til laga um ný þingskapalög. Hæstv. menntmrh. kom inn á það áðan og einnig hv. þm. Guðrún J. Halldórsdóttir. Það er auðvitað meginmál að frv. til laga um þingsköp liggi fyrir þegar verið er að fjalla um jafnveigamikla og þýðingarmikla breytingu og þetta frv. gerir ráð fyrir. Þess vegna hefði ég viljað varpa fram þeirri spurningu hér, virðulegi forseti, til frsm., sem því miður var nú að víkja af fundi, hv. 4. þm. Suðurl. Margrétar Frímannsdóttur: Hvenær mun

það frv. liggja fyrir með þeim hætti að hægt sé að taka það til umfjöllunar jafnhliða þessu frv.? Þegar haft er í huga að hér er verið að hreyfa við hjarta þingræðis og lýðræðis þá liggur það auðvitað í augum uppi að það er ekki lagt út í aðgerð þess eðlis sem hér um ræðir án þess að fyrir liggi hvernig þingsköp skuli vera.
    Ef þetta frv. fer í gegn með þeim hætti sem hér er um að ræða liggur það í augum uppi að þegar þing verður komið í eina málstofu er það þýðingarmeira, þó það sé auðvitað mjög þýðingarmikið núna, að vernda stöðu minni hlutans fyrir ofríki eða ofurvaldi meiri hlutans. Það er ekki sama hvernig á því máli er haldið nema síður sé. Þetta er algert grundvallaratriði, sérstaklega í þjóðfélagi eins og okkar Íslendinga með sínu lagi í sambandi við nálgun, í samskiptum manna við úrlausn erfiðra og flókinna mála, t.d. í sambandi við það hvernig stjórnmálaflokkar ná saman í samningum sín í milli. Við Íslendingar höfum upplifað það að hið svokallaða flokkavald hefur getað náð samkomulagi um það að stjórna í krafti mjög naums meiri hluta. Og það hefur margsinnis skeð í sögu Alþingis, sérstaklega á seinni árum, að sú deildaskipan sem við búum við hefur forðað því að naumur meiri hluti gæti keyrt í gegnum þingið mál með ólýðræðislegum hætti og þá jafnframt tryggt framkvæmdarvaldinu, þ.e. ríkisstjórn, framgang mála á mjög hæpnum forsendum. Ég tel að deildaskipan Alþingis eins og hún er hafi oft forðað því að hér hafi raunverulega verið haft í frammi það sem ég mundi álíta nálgun þess að landinu væri stjórnað í skjóli --- ég segi ekki einræðis, en án tillits til stöðu minni hlutans, án tillits til allrar sanngirni í meðferð mála og án tillits til almenningsheilla. Þess vegna er ég ekki reiðubúinn til að greiða þessu frv. atkvæði mitt. Ég er ekki reiðubúinn til að leggja niður það deildafyrirkomulag, þá deildaskipan sem nú er fyrr en í fyrsta lagi að frv. til þingskapalaga liggur fyrir og í öðru lagi að það sé tryggt að staða minni hlutans og stjórnarandstöðu þar með sé tryggð og jafnframt að staða einstakra þingmanna til þátttöku í málsmeðferð í þinginu verði með þeim hætti að við verði unað.
    Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að flytja hér lengri ræðu á þessu stigi en minni aðeins hv. þm. á það og okkur öll að lýðræði krefst þolgæðis, umburðarlyndis og skilnings á mannlegum samskiptum. Þetta er grundvallaratriði og sú meginforsenda sem við eigum að starfa samkvæmt þegar við fjöllum um mál þess eðlis sem hér er til umræðu.