Stjórnarskipunarlög
Föstudaginn 15. febrúar 1991


     Stefán Guðmundsson :
    Herra forseti. Við erum að fjalla um frv. til stjórnskipunarlaga eða um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, það er nú hvorki meira né minna en það. Ég tek undir það sem hér var sagt af hv. 18. þm. Reykv. Guðrúnu J. Halldórsdóttur að það væri svo sannarlega tilefni til þess að hér sætu fleiri og blönduðu sér í umræðuna á þessu stigi málsins. En við eigum sjálfsagt eftir að ræða þetta nokkuð mikið enn, þannig heyrist mér hljóðið í mönnum.
    Ég vil eins og aðrir vekja athygli á eftirtektarverðri ræðu hjá hv. 4. þm. Vestf. Þorvaldi Garðari Kristjánssyni sem flutti frábærlega gott mál og talaði af mikilli þekkingu um þessi mál. Það væri þarft, held ég og ætla ég þó ekki að vera með ábendingar til starfsnefnda þingsins, en ég held að það væri þarft að leitað yrði til þeirra sem hér hafa starfað lengst og þekkja best til allra hluta og þess sem hér gerist innan húss áður en menn flaustruðu af einhverju vanhugsuðu í þessu máli.
    Ég verð að segja það einnig að mér finnst kveikjan að þessu máli nokkuð merkileg. Mér finnst upphaf og málatilbúnaðurinn að þessu máli nokkuð merkilegur, þar sem forsetar þingsins kvaka til formanna þingflokka og biðja þá að flytja þetta mál. Ég hrökk við þegar ég las um það í einu dagblaðinu sem skrifaði um þetta og þá voru þeir að skila af sér, þetta heiðursfólk sem skipar þessa vösku sveit í þinginu. Það var nokkurn veginn sjálfgefið, menn veltu því fyrir sér hvort það þyrfti nokkuð að fara með þetta mál inn í þingið, þetta væru slíkir afburðamenn og slíkir forustumenn í þinginu að það væri nokkurn veginn klárt að málið var afgreitt. Það var búið að samþykkja þær breytingar sem þetta ágæta fólk var að flytja. Mér blöskraði þessi tilbúnaður allur.
    Ég verð að taka það skýrt fram að auðvitað má ýmsu breyta og ég er viss um að það væri þarfara að breyta ýmsu öðru í störfum þingsins en deildaskipan þess. Ég hef miklar, svo að ég segi ekki meira úr þessum stóli nú, efasemdir um ágæti þessa máls. Og ekkert, ekki nokkur skapaður hlutur hefur komið fram í máli þeirra sem breytingarnar flytja eða sem breytingarnar styðja sem sannfærir mig um nauðsyn þessa máls. Ef eitthvað er sem komið hefur fram í umræðunni þá er það hið gagnstæða.
    Ég er ekki búinn að vera hér mjög lengi, þó einhverjum finnist kannski að ég sé búinn að vera nógu lengi og sumum kannski allt of lengi. Þetta er alltaf matsatriði. En ég er þó búinn að vera það lengi í þessari ágætu deild að ég veit að deildaskipting Alþingis hefur oftar en einu sinni orðið til þess að koma í veg fyrir að meingölluð mál færu frá þessari ágætu stofnun.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að tefja lengur. Ég treysti því að sú þingnefnd sem tekur þetta að sér til að fjalla um þetta mikilsverða mál taki sér allan þann tíma sem hún þarf til þess að kryfja það sem best til mergjar og vinna það af sem allra mestri kostgæfni. Og annað sem ég vil einnig benda þessari ágætu

nefnd á og ég hef velt fyrir mér í þessari umræðu er að það læðist að mér sá grunur að hér sé aðeins verið að stíga fyrsta skrefið að töluvert viðamiklum breytingum á starfsemi þingsins.