Stjórnarskipunarlög
Föstudaginn 15. febrúar 1991


     Guðmundur Ágústsson :
    Virðulegi forseti. Ég hef nú hlýtt á mál manna hér og það er greinilegt að það er önnur skoðun hér í hinni hv. efri deild heldur en var í hinni neðri enda kannski aðra hagsmuni að verja hér heldur en í neðri deild þar sem þeir hafa löngum viljað taka til sín meira vald heldur en þeir hafa átt skilið. Ég tel samt rétt að ég komi hér og tjái aðeins mínar hugrenningar um þetta og hvað ég tel að hafi átt að gera. Ég er einn af þeim mönnum sem sátu í þessari nefnd og kem til með að ræða þetta sem formaður allshn.
    Að mínu viti hefði mátt ganga töluvert lengra heldur en hér er lagt til. Því miður náðist ekki samstaða um meiri breytingar heldur en hér er fjallað um. Hér má segja að grunnhugsunin og það atriði sem samstaða náðist um var það að sameina þingið í eina málstofu, en án þess að gripið væri til annarra ráðstafana í leiðinni til þess að styrkja þingið gagnvart framkvæmdarvaldinu. Mín skoðun er sú að með þessari breytingu sé viss hætta á því að Alþingi missi tök á framkvæmdarvaldinu og það verði auðveldara fyrir framkvæmdarvaldið að koma hér sínum málum í gegn. Staða hins einstaka þingmanns og stjórnarandstöðu verður veikari. Þess vegna hefði ég kosið að aðrar breytingar sem ræddar voru í nefndinni hefðu náð fram að ganga og þá vil ég í fyrsta lagi nefna að þingrofsréttur væri í höndum Alþingis en ekki í höndum ríkisstjórnar. Einnig hefði ég kosið að bráðabirgðalagasetning yrði mjög svo takmörkuð og jafnvel afnumin og þingið látið fjalla um þau mál sem nauðsyn hefði verið að ræða um þó að þing sæti ekki og það bara einfaldlega kallað saman.
    Öðrum breytingum var ég líka mjög hlynntur sem gengu í þá átt að styrkja Alþingi. Mín skoðun er sú að þær breytingar sem orðið hafa á undanförnum árum hafi verið í þá átt að styrkja framkvæmdarvaldið gagnvart Alþingi, hinni lýðræðislega kjörnu samkundu okkar. Þess vegna var ég þeirrar skoðunar allan tímann að við yrðum að styrkja þennan máttarstólpa í þessari þrígreiningu valdsins og efla mjög verulega Alþingi þar.
    Þegar þetta mál kemur fyrir hv. allshn. kem ég að sjálfsögðu til með að fara mjög náið ofan í þær breytingar sem hér eru lagðar til og kalla til aðila sem þekkja þessi mál mjög vel. Ég heyri það á máli hv. 4. þm. Vestf., að hann hefur ýmsar athugasemdir við frv. og mér þætt það mjög slæmt ef mál af þessu tagi er afgreitt hér í Alþingi gegn andstöðu manns sem svo sannarlega hefur markað sín spor hér í þingsögunni og hefur einna gleggsta yfirsýn yfir það hvernig Alþingi eigi að starfa.
    Ég er ekki jafnsannfærður nú eins og kannski áður að þarna sé verið að stíga skref í þá átt sem eðlilegt megi vera. Þó svo að hér sé verið að taka upp þá skipan sem er á öðrum Norðurlöndum þá hefði mér fundist að það ætti að styrkja aðrar stoðir í leiðinni eins og þá að Alþingi fái eitthvað annað í staðinn sem komi á móti þannig að þingið verði styrkara heldur en nú er. En því er ekki gert ráð fyrir í þessu frv.

    Meira vil ég nú ekki segja á þessu stigi málsins, hef kannski sagt of mikið, þar sem þetta frv. er flutt af mér sjálfum, eða alla vega með vitund minni og vilja. En ég heiti þessari þingdeild því að þetta mál fái mjög svo góða meðferð í þeirri nefnd sem ég á sæti í og stjórna þannig að hér verði ekki eitthvert slys í þessa átt, því að eins og flestir vita þá verður mjög erfitt að ganga skrefið til baka aftur.
    Hins vegar verð ég að segja að þau rök sem hv. þm. 4. þm. Vestf. hafði út af þessu, að hér hafi verið í gildi í 200 ár sú skipan að hafa Alþingi í tveim málstofum, það eru í mínum huga ekki rök í málinu að því leyti til að þjóðfélagið hefur breyst og þingmenn eru orðnir miklu fleiri en áður, og að mínu viti eru tvær málstofur arfleifð frá gamalli tíð. Ég er í sjálfu sér sammála því að taka upp eina málstofu en finnst að það þurfi á ýmsan hátt þá að styrkja stöðu einstakra þingmanna og stjórnarandstöðu á móti. Ég sé að það er gert að einhverju leyti en kannski ekki nægjanlega.