Félagsþjónusta sveitarfélaga
Föstudaginn 15. febrúar 1991


     Geir H. Haarde :
    Virðulegi forseti. Ég hyggst ekki bæta löngu máli við það sem þegar hefur komið fram af minni hálfu við þessa umræðu, en ég hlýt að benda á þann ágreining sem uppi er milli ráðherra í ríkisstjórn Íslands um þetta mál. Ég sagði það í minni fyrri ræðu að ég hefði miklar efasemdir um að þetta væri stjfrv. og ég tel að umræður hér í dag staðfesti að þó að svo kunni að vera að formi til,
þá er þetta efnislega ekki stjfrv., ekki frekar en frv. sem sjútvrh. hefur lagt fram í Ed. í eigin nafni vegna þess að hann fékk ekki stuðning í ríkisstjórninni til að flytja stjfrv. um ráðstafanir vegna loðnubrests.
    Það er orðið þannig ástandið í ríkisstjórninni að ráðherrarnir flytja í eigin nafni frumvörp í þingdeildunum sem koma á dagskrá eins og hver önnur þingmannafrumvörp. Og miðað við þær upplýsingar sem hér hafa komið fram af hálfu hæstv. menntmrh. er náttúrlega augljóst að hæstv. félmrh. hefði átt að leggja þetta frv. fram í eigin nafni.
    Hæstv. félmrh. hélt því fram við 1. umr. að um þetta mál hefði náðst samkomulag í ríkisstjórninni sem menntmrh. væri sáttur við. Ég sagði það í minni fyrri ræðu að það væri rétt að hæstv. menntmrh. segði sjálfur frá því, ef svo væri, og það er komið á daginn að svo er ekki. Þær upplýsingar sem hæstv. félmrh. reiddi hér fram fyrr í vikunni við þessa umræðu voru því miður ekki réttar. Hæstv. félmrh. sagði, með leyfi forseta í ræðu sinni þann 12. febr.:
    ,,Þess hefur verið krafist að öll ákvæði frv. þessa um málefni leikskóla verði numin á brott og því haldið fram að þau séu í andstöðu við frv. menntmrh. um leikskóla.`` Síðan segir, með leyfi forseta: ,,Ekki var menntmrh. þeirrar skoðunar sl. vor þegar samkomulag var gert í málinu og bæði frumvörpin lögð fyrir þingið. Því síður á það við um þetta frv. sem nú er lagt fyrir þingið þar sem enn hafa verið gerðar breytingar á því frá fyrri framlagningu sl. vor í þá veru að samræma hugtakanotkun beggja frumvarpanna þannig að orðið leikskóli er notað sem samheiti dagvista.``
    Hér hafa verið bornar á borð af hálfu hæstv. félmrh. þær upplýsingar að það sé samkomulag í ríkisstjórninni um þetta mál. Það er bara einfaldlega rangt. Það er ekki ég sem held því fram. Það er sjálfur menntmrh. sem hefur staðfest það. Það liggur alveg fyrir, til að mynda eftir ræðu hv. 13. þm. Reykv., að um þetta mál er ekki bara ágreiningur milli einstakra ráðherra heldur djúpstæður ágreiningur milli stjórnarflokkanna. Ég tók eftir því að hv. 13. þm. Reykv. lýsti því yfir að þetta frv. yrði aldrei samþykkt af hennar hálfu með þeim X. kafla, um málefni leikskóla, sem er nú í frv., þar inni. Það er reyndar nákvæmlega það sem ég sagði í minni fyrri ræðu. Ég lýsti því yfir að það yrði ekki samkomulag um að hafa hann í frv. eða ganga frá því eins og það er óbreytt.
    Ráðherra menntamála lýsti því hér yfir fyrir örstuttu síðan að hann væri ósáttur við það að ákvæði um leikskóla væri í þessu frv. þvert á það sem félmrh. var búinn að upplýsa þingheim um. Og ráðherra menntamála lýsti því líka yfir að hann teldi það að öllu leyti óskynsamlegt að hafa þessi ákvæði í frv., að öllu leyti óskynsamlegt. Hér er því ekki bara um það að ræða að það er ágreiningur milli ráðherra, það hefur líka verið sagt rangt frá í framsögu þessa máls. Því hefur ranglega verið haldið fram að það sé samkomulag í ríkisstjórninni um þetta mál sem ekki er tilfellið, þannig að þó að þetta sé að formi til stjfrv., þó að það sé nú á mörkunum að það uppfylli formskilyrði þess, þá er ekki efnislegt samkomulag um þetta mál, hvorki í ríkisstjórn né stjórnarflokkum.
    Þannig að mér sýnist einsýnt að það náist samkomulag með öðrum hætti heldur en nú er í þinginu milli stjórnar og stjórnarandstöðu um það að breyta þessu frv. Ég sé nú ekki betur. Það mætti þá taka ýmis önnur ákvæði eins og þau sem við hv. 13. þm. Reykv. gerðum hér að umtalsefni og breyta þeim þá í leiðinni eins og það að leggja þá lagaskyldu á herðar félagsmálastofnana að hafa ætíð hæfu starfsfólki á að skipa, að viðlagðri aðför að lögum, sem er að vísu undanskilið en ekki tilgreint í frv., og öðrum álíka ákvæðum sem hv. 13. þm. Reykv. benti á í sinni ræðu að væru margvísleg sem þyrftu nánari athugunar og meðferðar við.
    Ég ætla ekki að fara nánar út í þessar umræður um leikskólann sem hæstv. menntmrh. gat um, en ég bendi á það að í Morgunblaðinu fyrir tveimur dögum síðan, eftir umræðurnar hér á þriðjudag, þá sagði hæstv. menntmrh. að hann væri enn þeirrar skoðunar að ákvæðin um leikskóla í frv. félmrh. ætti að fella á brott eða breyta frv. á einhvern annan sambærilegan hátt. Ég les þetta, með leyfi forseta:
    ,,Menntmrh. sagði að hann og félmrh. hefðu reynt að ná samkomulagi en það hefði ekki tekist.``
    Þetta staðfestir enn að það sem ráðherrann hélt hér fram við 1. umr., að allt væri hér komið í gott samkomulag, það er rangt.
    Það hafa borist athugasemdir frá ýmsum aðilum, eins og hæstv. menntmrh. gat um, við þennan kafla, X. kafla frv., sem eru samhljóða því eða ganga í sömu átt og þau viðhorf sem hann hefur lýst og ég lýsti í fyrri ræðu minni og hv. 13. þm. Reykv. Ég skal ekki draga þessa umræðu með því að vera að lesa það upp, en það er alveg ljóst að það er ekki bara Fóstrufélag Íslands sem er andstætt þessum áformum eins og þau liggja nú fyrir. Það eru miklu fleiri aðilar sem þessu máli tengjast og hafa starfað að þessum málum. Auðvitað er þetta á endanum, þegar öllu er á botninn hvolft, spurning um það hvernig menn vilja skilgreina þá starfsemi sem fram fer á vegum leikskólanna, hvort menn vilja líta á hana sem undirbúning undir skólanám og þar af leiðandi sem menntamál og uppeldismál, eða hvort menn vilja skilgreina hana á annan veg eins og tilraun er gerð til í þessu frv.
    En mér finnst aðalatriðið á þessu stigi málsins, burt séð frá efnisatriðum frv., vera að það hefur verið leitt í ljós við þessa umræðu að um málið er djúpstæður ágreiningur. Því hefur ranglega verið haldið fram að

þetta mál gæti siglt hér í gegnum þingið þöndum seglum nánast á grundvelli samkomulags í stjórnarflokkunum. Það er ekki svo. Ef á að gera hér eitthvert samkomulag um að koma þessu máli í gegn, ja, þá er það á milli stjórnarandstöðu, að einhverju leyti a.m.k., og einhverra stjórnarflokkanna um að gera breytingar í átt við það sem fram hefur komið hér í þessari umræðu að nauðsynlegt sé. Þannig stendur þetta mál að mínum dómi.
    Ég tel að félmn. þurfi að fara mjög rækilega í saumana á þeim athugasemdum sem komið hafa hér fram. Hún kemst ekkert hjá því. Þó að þetta mál sé búið að vera lengi í meðferð og undirbúningi og þó að ýmsir aðilar hafi fengið að skoða það á undan þinginu og fengið það til umsagnar, þá er það óhjákvæmilegt eins og þetta mál er allt í pottinn búið og nauðsynlegt að hvika í engu frá þeim kröfum sem hér eru gerðar í þinginu, eða eiga að vera alla jafna, um vandaða meðferð mála.