Félagsþjónusta sveitarfélaga
Föstudaginn 15. febrúar 1991


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Ástæða þess að ég bað um orðið var auðvitað sú að það er ekkert efnislegt samkomulag um það að leikskólinn sé inni í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaganna. Það sem menn hafa rætt um milli stjórnarflokkanna er það hvort frv. verður lagt fram sem stjfrv. með fyrirvara um þetta atriði, sem við féllumst á og er ekki aðeins fyrirvari minn heldur þingflokks Alþb. Það verður að vera alveg skýrt.
    En það að hv. 14. þm. Reykv. skuli vera mjög undrandi á slíku, að það komi fyrir að stjórnarflokkar séu með fyrirvara, kannski um einstök atriði í stjfrv., er aftur á móti sérkennilegra, vegna þess að hann var stuðningsmaður ríkisstjórnar sem ruddi mjög brautina í þessum efnum. Það var haustið 1987. Þá var lagt fram fjárlagafrv. með stuðningi hv. 14. þm. Reykv. sem var með þeim hætti að ríkisstjórnin stóð að frv. í heild nema landbrh. Hann hafði fyrirvara um tekjuhliðina en hafði samþykkt útgjaldahliðina. Það var mjög nýstárlegt í þessu efni. Það kemur auðvitað iðulega fyrir að stjórnarflokkar kunna að vera með mismunandi áherslur í sambandi við einstök atriði við flutning stjfrv.
    Hins vegar er það að sjálfsögðu rétt hjá hv. þm. Geir Haarde að það er ekki alveg einfalt að svara því í ljósi sögunnar hvaða pólitísk formsatriði frv. þarf að uppfylla til þess að heita stjfrv. Hin formlegu atriði eru hins vegar þau að viðkomandi ráðherra fái það samþykkt í ríkisstjórninni, sem þó er ekki fjölskipað stjórnvald, að frv. megi flytja sem stjfrv. og að forseti Íslands skrifi upp á það að málið sé lagt fram sem stjfrv. Það eru í raun og veru hin einu formsatriði sem þarf að uppfylla í þessum efnum, en að því er varðar að hin pólitísku atriði í aðdraganda þessa máls séu lögð fyrir sem stjfrv. þá hygg ég að menn geti fundið ótrúlegustu dæmi í sögunni um það hvernig að þeim hlutum er staðið.
    Ég ætla t.d. ekki að rifja upp í þessu efni hvernig var með frv. til laga um stjórn efnahagsmála, sem urðu síðan lög nr. 13/1979. Það var upphaflega flutt af þáv. forsrh. sem lagði það fram á Alþingi 1. mars 1979 eftir nokkrar umræður um þau mál. (Gripið fram í.) Það eru nú kannski aðrir hér í salnum sem eru betri vitni um það hvar það var samið nákvæmlega en undirritaður, þar á meðal og einkum og sér í lagi hæstv. núv. iðn.- og viðskrh. En það er annað mál. Ég hygg að í þessum efnum sé hægt að finna dæmi af þessu tagi.
    Auðvitað er það betra að menn nái samkomulagi um málin lið fyrir lið. Auðvitað er það betra og það var venjan á Alþingi þegar lögð voru fyrir stjfrv. þá var það þannig að það var í raun og veru búið að binda þingmenn stjórnarflokkanna svo að segja upp á punkt og prik í alla hluti. Ég man eftir því á árum viðreisnarstjórnarinnar að þá var það svo að segja algjör undantekning að breytt væri stafkrók í stjfrv. við meðferð málsins á Alþingi af því það var búið að kemba málin svo nákvæmlega í þingflokkunum og

Stjórnarráðinu áður. Þetta hefur verið að breytast og menn sjá það þegar verið er að afgreiða frv. hér undir núverandi ríkisstjórn, og eins þeirri sem var þar á undan og þar á undan, að það kemur aftur og aftur fyrir að menn eru með brtt. við ýmsa þætti í stjfrv. og það er ekkert við því að segja.
    Ríkisstjórn á ekki að gera tilraunir til þess að stilla Alþingi upp við vegg í smáatriðum í málum af þessu tagi. En hitt er auðvitað rétt að best er að menn séu búnir að kemba hlutina pólitískt sín á milli. Og það er alveg rétt að viðurkenna að það er ekki í þessu tilviki að því er varðar leikskólann í þessu frv., því miður. Og ástæðan fyrir því hvað hefur dregist að koma því inn var auðvitað fyrst og fremst sú að við vildum bæði, ég og hæstv. félmrh., reyna allt sem hægt var til að finna lendingu í málinu áður en það kæmi inn til þingsins.