Kynning á vörum frá vernduðum vinnustöðum
Mánudaginn 18. febrúar 1991


     Frsm. félmn. (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Félmn. hefur fjallað um till. og skilar nál. á þskj. 633. Umsagnir bárust um till. frá Verslunarráði Íslands, Neytendasamtökunum og Öryrkjabandalagi Íslands. Á fund nefndarinnar komu til viðræðna um málið Helgi Seljan og Ásgerður Ingimarsdóttir frá Öryrkjabandalagi Íslands, Gréta Aðalsteinsdóttir, formaður stjórnarnefndar um málefni fatlaðra, og Aðalsteinn Steinþórsson, formaður Sambands verndaðra vinnustaða.
    Forráðamenn verndaðra vinnustaða hafa myndað með sér samband sem ráðið hefur starfsmann til að vinna að hagsmunamálum verndaðra vinnustaða. Að mati nefndarinnar er Samband verndaðra vinnustaða kjörinn vettvangur til að beita sér fyrir því kynningarátaki sem tillagan gerir ráð fyrir á vörum frá þessum vinnustöðum og stuðla um leið að æskilegri samræmingu og samstarfi milli þeirra, svo og um nýbreytni í framleiðslu. Eðlilegt er að þetta samband fjalli um ráðstöfun á því fjármagni sem veitt yrði frá ríkinu í þessu skyni og leiti stuðnings opinberra stofnana eins og Iðntæknistofnunar við kynningarátakið.
    Með þetta í huga mælir nefndin með samþykkt tillögunnar með breytingu sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.
    Kristinn Pétursson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en undir nál. rita aðrir fulltrúar í félmn.
    Brtt. sem er á þskj. 634 er þannig:
    ,,Tillgr. orðist svo: Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að leita samvinnu við Samband verndaðra vinnustaða um átak til kynningar og þróunar á framleiðslu verndaðra vinnustaða og að veitt verði fé og önnur aðstoð í þessu skyni.``