Læknisþjónusta á landsbyggðinni
Mánudaginn 18. febrúar 1991


     Frsm. félmn. (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Nefndin hefur fjallað um till. á nokkrum fundum og fengið um hana umsagnir frá aðilum sem tilgreindir eru í nál.
    Þá fékk nefndin á sinn fund Pál Sigurðsson, ráðuneytisstjóra í heilbr.- og trmrn., Ólaf Ólafsson landlækni og Matthías Halldórsson aðstoðarlandlækni.
    Frá því tillagan var lögð fram hefur verið gripið til ýmissa aðgerða af hálfu stjórnvalda til að bæta úr brýnasta vanda varðandi læknishéruð sem erfitt hefur verið að manna.
    Á fjárlögum fyrir árið 1991 er 19 millj. kr. framlag til að leysa vanda lítilla heilsugæslustöðva og á fjáraukalögum fyrir 1990 var 5 millj. kr. framlag í sama tilgangi. Þessu fjármagni hefur í aðalatriðum verið varið með eftirfarandi hætti:
    a. Ríkið hefur keypt eða átt hlut að kaupum á torfærubifreiðum til fimm heilsugæslustöðva.
    b. Sex heilsugæslustöðvum hefur verið heimilað að gera svokallaða staðarsamninga til að bæta starfskjör heilbrigðisstarfsfólks eftir nánari ákvörðun stjórnar viðkomandi heilsugæslustöðvar í samráði við starfsfólk á stöðinni og heilbrrn. Á árinu 1991 eru til ráðstöfunar 15 millj. kr. í þessu skyni.
    Viðræður fóru fram á árinu milli fulltrúa Læknafélags Íslands og heilbrrn. um málefni H1-stöðva, m.a. um breytt starfskjör lækna á þessum stöðvum.
    Af hálfu talsmanna heilbrrn. og landlæknis komu fram í viðræðum í nefndinni ýmsar hugmyndir um aðgerðir til að bæta heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Einnig komu umsagnaraðilar um tillöguna fram með margar gagnlegar ábendingar sem nefndin hefur komið á framfæri við heilbrrn.
    Með vísan til þess sem að framan greinir leggur nefndin til að tillögunni verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Undir þetta nál. skrifa allir fulltrúar í félmn. Sþ.