Vísinda- og tæknistefna
Mánudaginn 18. febrúar 1991


     Sigrún Helgadóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil lýsa yfir ánægju með að ríkisstjórnin skuli hafa stefnu í þessum mikilvægu málum, vísindum og tækni, en jafnframt lýsa yfir undrun minni yfir áhugaleysi alþingismanna á þessu mikilvæga máli því hér sitja aðeins inni örfáir þingmenn.
    Mér virðist stefnan vera hnitmiðuð og góð byrjun. Ég er að mestu leyti sammála forsendum stefnunnar sem er þarna á fremstu blaðsíðunni, á bls. 5, en hef vissar efasemdir, finnst að þarna örli dálítið um of á forsjár- og þó fyrst og fremst tæknihyggju frekar en vísindahyggju. Ég hnýt um orðalag eins og á bls. 5, með leyfi forseta:
    ,,Stór hluti hverrar upprennandi kynslóðar á Íslandi nýtur nú háskólamenntunar og þeim Íslendingum fjölgar ört sem fengið hafa vísindalega sérþjálfun á ýmsum sviðum. Í þessu felst auðlind sem þarf að virkja í þágu þjóðarhags og menningar.``
    Þetta er kannski bara klaufalega orðað, en það kemur fram þessi tæknihyggja kannski. Það á ekki að þurfa neinar sérstakar virkjanir til að njóta krafta fólks. Ef starfsskilyrði í þjóðfélaginu eru eðlileg þá streymir orka þessa fólks sjálfkrafa um þjóðfélagið. Áherslan á tæknina og raungreinarnar speglast líka í því að ég hef ekki séð að talað sé í skýrslunni um þær rannsóknir sem stundaðar eru t.d. við Kennaraháskóla Íslands, rannsóknir á sviði uppeldismála og kennslu. Þetta er fyrst og fremst um þau vísindi og þá tækni sem er við Háskóla Íslands. Og gott og vel. Það er ágætt að fá stefnu á því sviði. Ég er eins og ég segi ánægð með stefnuna í heild og að hún skuli hafa verið gerð.
    Mig langar til þess að koma með nokkra punkta sem ég rakst á í greinargerðinni, þessari ítarlegu greinargerð. Þeir eru kannski frekar sundurlausir eins og vill verða þegar maður les yfir langt plagg. Það verður að segjast að það gladdi mitt hjarta og mér fannst ánægjulegt að sjá hafða hugsun í öndvegi sem kemur fram í orðum eins og á bls. 7 þar sem stendur: ,,Vísindaleg og gagnrýnin viðhorf til tækninnar auka líkur á að henni sé beitt farsællega til að efla þjóðarhag. Án slíkrar gagnrýni gæti altæk tæknileg hugsun leitt til draumhyggju um tæknilega lausn allra vandamála. Stöðug gagnrýni á heimsmynd mannsins er eitt af mikilvægustu hlutverkum vísinda.``
    Undir þessi orð tek ég heils hugar. Mér hefur fundist oft örla um of á að tæknin leysti allan vanda og það er einmitt mjög mikilvægt að vísindin séu notuð á gagnrýninn hátt eins og þarna er gert ráð fyrir.
    Mér finnst aftur á móti miður að sjá hve oft er minnst á hagvöxt, hinn hefðbundna hagvöxt sem æskilegt og nauðsynlegt markmið og þá gjarnan í tengslum við virkjanir og orkufrekan iðnað. Gagnrýni á hina hefðbundnu hagvaxtarstefnu gerist nú æ háværari í heiminum enda má færa rök fyrir því að hagvöxtur endurspegli ekki endilega aukna velferð og lífsgæði. Ég hefði gjarnan viljað sjá að vísinda- og tæknistefna miðaði að því að Íslendingar legðu sitt af mörkum til

þess sem hefur nú á síðustu árum verið kallað sjálfbær þróun, sem þýðir í rauninni bara það að athafnir okkar mannanna og gjörðir standist þegar til langs tíma er litið, að þær falli inn í þau náttúrulögmál sem móðir jörð setur okkur. Það er stefnan víða í heiminum í dag og þá ekki síst í hinum svokölluðu þróunarlöndum. Við vitum að sú tæknistefna, sem hófst fyrir nokkrum hundruðum ára, hefur farið ákaflega illa með umhverfi jarðar og hún stenst ekki þegar til langs tíma er litið og lausnarorð hjá mörgum nú í dag er sú hugsun sem er á bak við orðin sjálfbær þróun. Það hefði verið gaman að sjá að íslensk vísinda- og tæknistefna beindist í þá átt.
    Á bls. 15 er grein sem ég vil taka undir þar sem stendur:
    ,,Í mannvísindum, félagsvísindum og læknisfræði hamlar ekki aðeins fjárskortur því sem hér er nefnt ,,nýting rannsóknakrafta``, heldur einnig of lítil áhersla rannsóknamanna á að miðla til almennings þekkingu og skilningi á viðfangsefnum sínum í aðgengilegu formi. Væri æskilegt að örva sérfræðinga til að semja bækur fyrir kennara og nemendur í grunn- og framhaldsskólum landsins til þess að tryggja það að ný þekking lokist ekki inni í sérfræðitímaritum. Væri þetta einn liðurinn í því að efla tengsl vísinda og tækni við skólakerfið og almenning.``
    Ég vil sérstaklega taka undir þessi orð. Ég er sammála þeim. Vísindamenn eru því miður oft allt of mikið inni í lokuðum heimi. Þeir verða stöðugt sértækari í því sem þeir eru að gera og verða þeim mun óskiljanlegri fyrir almenning. Það er mjög nauðsynlegt að þarna á milli, á milli vísindamanna og almennings, séu einhverjar brautir þannig að þau atriði sem vísindamenn komast að nái til almennings. Ég tek því sérstaklega undir þessa grein.
    Á bls. 16, svo ég fari úr einu í annað, fannst mér ágætt að sjá að þarna væri viðurkennt að vöxtur þjóðarframleiðslu undanfarin tíu ár hafi að miklu leyti byggst á aukinni atvinnuþátttöku kvenna. Ég nota tækifærið og bendi á að á sama tíma berast um það upplýsingar frá aðilum eins og kjararannsóknanefnd að enn breikkar launabil á milli karla og kvenna og að þjóðarsáttin svokallaða hvílir fyrst og fremst á herðum kvenna.
    Nokkru aftar fannst mér aftur ánægjulegt að sjá í þessari ágætu skýrslu haldbær rök fyrir þeirri stefnu Kvennalistans að stofna sérstakt atvinnumálaráðuneyti allra frumatvinnuveganna og sterkt umhverfisráðuneyti. Ég get ekki betur séð en að skýrsluhöfundar styðji þessa tillögu okkar kvennalistakvenna þar sem þeir skrifa, með leyfi forseta, neðst á bls. 18: ,,Vísinda- og tækniþekking er hins vegar yfirleitt ekki bundin einstökum atvinnugreinum, heldur er almennari í eðli sínu, og getur góð þekking nýst þvert á þessa hefðbundnu skiptingu. Reyndar er það eðli nýtæknigreinanna, eða hátæknigreinanna, að framfarir síðustu ára í skilningi á innri gerð líf- og efnisheims hafa áhrif þvert á allar tæknigreinar og hefðbundna atvinnuvegaskiptingu. Hagnýting þessarar nýju þekkingar er hins vegar háð samvinnu milli þekkingarsviða.

    Margt bendir til þess að breyta þurfi skipulagi og starfsháttum vegna þessarar þróunar, færa stofnanir saman og koma á þverfaglegri samvinnu. Hefðbundin atvinnuvegaskipting má ekki verða til þess að hindra að þekking nýtist sem best fyrir þjóðfélagið í heild.``
    Þetta þótti mér ágætt að sjá þarna og nokkuð sem við höfum haldið fram líka.
    Á bls. 21 er þörf ábending þar sem segir að taka þurfi afstöðu til hlutverks skóla á háskólastigi, verkaskiptingar þeirra á milli og hlutdeildar þeirra í rannsóknum. Þetta er þörf ábending en því miður er ekki gerð nein tilraun til að gera þessu efni skil í greinargerðinni en vonandi verður ekki látið þar við sitja.
    Smáathugasemd: Aðeins aftar, í kafla 3.7, er oft vitnað í töflu 3, en hún virðist hafa gleymst og fylgir ekki skýrslunni.
    En þó ég hafi stiklað hér mjög á stóru þá vil ég aftur þakka fyrir þetta góða framtak og vona að þetta verði stefna sem komandi ríkisstjórnir geti fylgt eftir.