Vísinda- og tæknistefna
Mánudaginn 18. febrúar 1991


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 2. þm. Reykv. fyrir að hafa tekið þátt í þessari umræðu. Ég er sammála mjög mörgu af því sem hún sagði og þó kannski alveg sérstaklega því að framkvæmdin er það sem kannski ræður úrslitum, þ.e. hvernig búið er að þessum stofnunum og rannsóknarfólki, m.a. fjárhagslega. Það má segja að stigin hafi verið markverð skref í þeim efnum í fjárlögum ársins 1991 þar sem um er að ræða um það bil fjórðungs hækkun á framlögum til rannsókna og vísinda frá því sem var á síðasta ári, úr 356 millj. kr. í 442 millj. kr. Framlög til Rannsóknasjóðs hafa verið aukin um 24%, til Vísindasjóðs um 50% og til Keldna um 30%, þannig að þegar þessi málaflokkur er skoðaður, vísindi og rannsóknir, þá er það rétt að þetta er of lítið, en það er um fjórðungs aukning frá því sem var á sl. ári. Mér finnst að með því móti hafi ríkisvaldið sagt, ekki einasta: stefnan er þessi, heldur sagt: þetta viljum við gera og óskum eftir því að fyrirtækin með markvissum hætti komi til liðs í sambandi við rannsóknar - og þróunarstarfsemi. En eins og kom hér fram áðan og glöggt er minnst á í skýrslunni, þá er hlutur þeirra enn þá talsvert lakari en hann er í grannlöndum okkar þó að hann hafi vissulega aukist á undanförnum árum sem er ekki síst, eins og ég sagði hér áður, að þakka því að Rannsóknasjóðurinn hefur beitt sér fyrir því að ná fyrirtækjunum með í þessa þróun.
    En mér finnst ánægjulegt að geta staðfest það að um meginatriði og áherslur tel ég, eftir þessa umræðu, að sé mjög víðtæk samstaða. Og það er ánægjulegt að geta í þessari umræðu staðfest það líka að í fjárlögum íslenska ríkisins er komið til móts við þessa samstöðu á þessu ári þó að hitt sé líka rétt að það verður að gera mikið, mikið betur.
    Um samhengi hagvaxtar og vísindalegra rannsókna mætti tala lengi en ég segi ekki að hagvöxtur sé forsenda vísindalegra rannsókna. Ætli það sé ekki erfitt að ákveða hvað er forsenda hins. Ætli það sé ekki þannig að vísindalegar rannsóknir, bæði hagnýtar rannsóknir og grunnrannsóknir, séu í rauninni forsenda hagvaxtar miðað við þann auðlindaaðgang sem við höfum núna. Hins vegar er það ljóst að ef hagvöxtur verður verulegur, þá getur það náttúrlega orðið til þess að það fáist meira fé í rannsóknir og þróun. En um þetta má tala lengi, lengi og í sjálfu sér kannski ekki ástæða til að bæta miklu við það að sinni. En ég endurtek þakkir fyrir þessa umræðu.