Stytting vinnutíma
Mánudaginn 18. febrúar 1991


     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Í þáltill. þeirri sem mælt var hér fyrir áðan og er borin fram af tveimur hv. þm., Björgvin Guðmundssyni og Árna Gunnarssyni, er komið inn á mál sem ég hef haldið að væri eitt af þörfustu málum íslensku þjóðarinnar. Það er tvímælalaust eitt það besta sem fyrir íslenskar fjölskyldur gæti komið ef vinnutíminn næði að styttast. Og það er ekki síst fyrir þær fjölskyldur þar sem er ein fyrirvinna, ein fullorðin manneskja í heimili með barn eða börn þar sem þetta mundi kannski geta haft úrslitaþýðingu fyrir framtíð barnsins eða barnanna.
    Í því samfélagi sem við lifum í núna er heimur barnsins afskaplega óöruggur. Barnið fer frá einni stofnun til annarrar og kemur heim til þreyttra foreldra, kannski bara þreyttrar móður eða þreytts föður, og á litla stund ánægjulega með þeim. Þeir sem eiga að veita börnunum mest hafa minnsta möguleika til þess vegna þess að þeir hafa ekki þrek eða tíma. Ég er alveg sannfærð um að einmitt þetta er ein af ástæðunum fyrir því hversu illa horfir nú fyrir mörgum íslenskum börnum, hversu hált þeim verður á brautum tilverunnar á fyrstu árunum. Ef við næðum því að stytta vinnutímann þannig auðvitað að laun og launakjör rýrnuðu ekki hjá þeim sem styttri vinnutíma fengju, þá værum við búin að stíga eitt mjög mikilvægt skref fyrir tilvist þessarar þjóðar.
    Það var áreiðanlega mikið deilt um vökulögin á sínum tíma, mikið rifist og þótti mikið afrek þegar þau voru sett. Það er auðvitað alltaf deilt um styttingu vinnutímans. Það eru alltaf einhverjir sem álíta að það sé rangt vegna þess að það gangi á hagsmuni vissra aðila. En síðasti ræðumaður, sá sem mælti fyrir þessari tillögu, benti einmitt á það að könnun 1987 hefði sýnt að stytting vinnutímans hefði ekki haft í för með sér minnkaða framleiðni.
    Ég hef heyrt verkstjóra lýsa því svo að þreyttastir væru starfsmennirnir á mánudagsmorgnum þegar þeir kæmu úr aukavinnunni sem þeir hefðu um helgar. Það er ekki vansalaust fyrir íslenskt samfélag að fólkið skuli lifa við þær aðstæður að það vinni ekki bara dagvinnutímann og eftirvinnutímann í venjulegu vinnunni, heldur reyni að strita í aukavinnu um helgar. Þessi þróun, sem hefur átt sér stað á síðustu 30 -- 40 árum, er svo geigvænleg að ég er alveg sannfærð um það að hún leiðir okkur í miklar ógöngur og er búin að leiða okkur í miklar ógöngur vegna þess að við höfum ekki megnað að gefa þeim æskulýð sem við ætlum að skila fram á veginn það öryggi og þá fyrirmynd sem hver fjölskylda á að vera, eins og við hefðum átt að gera og eins og við munum þurfa að gera.