Ráðstafanir vegna aflabrests í loðnuveiðum
Þriðjudaginn 19. febrúar 1991


     Margrét Frímannsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um ráðstafanir vegna aflabrests í loðnuveiðum, flutt af hæstv. sjútvrh. Það er ekki algengt að ráðherrar í ríkisstjórn leggi fram frv. einir og sér, en þegar það gerist liggur yfirleitt að baki ágreiningur um málið innan stjórnarflokka, enda er það eins og fram hefur komið á síðustu dögum ástæða þess að svona er staðið að verki nú.
    Þingflokkur Alþb. hefur fyrir sitt leyti ekki fallist á frv. eins og það er lagt hér fram og nauðsynlegt að ástæður þess liggi ljósar fyrir við 1. umr. um málið. Með sérstökum lögum í tengslum við stjórn fiskveiða sem samþykkt voru á síðasta ári var ákveðið að setja á stofn Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins sem hefði það tvíþætta hlutverk að stuðla að aukinni hagkvæmni í útgerð og koma til aðstoðar byggðarlögum sem standa höllum fæti vegna breytinga á útgerðarháttum. Þingmenn Alþb. hafa haft það sjónarmið að meira tillit ætti að taka til byggðarlaga og fiskvinnslusvæða en gert hefur verið og mikið reynt til að fá ákvæði þar að lútandi inn í frv. til laga um stjórn fiskveiða á sínum tíma.
    Við þingmenn Alþb. höfum haft það í huga að breytingar á útgerðarháttum koma ekki eingöngu niður á þeim sem útgerðina stunda og eiga, heldur ekkert síður á sjómönnum og fiskvinnslufólki og þá afkomu heilu byggðarlaganna. Stefna Alþb. í sjávarútvegsmálum um skipulag veiða og vinnslu fékk ekki mikinn hljómgrunn innan núv. ríkisstjórnar og þá sérstaklega ekki hjá hæstv. sjútvrh. Þar virðist ríkja sú skoðun að þrátt fyrir að núverandi stefna hafi í sáralitlu og jafnvel engu skilað sér miðað við þau markmið sem sett voru í upphafi megi þar engu breyta. Alþb. hefur aftur og aftur sett fram það sjónarmið og þá kröfu að við úthlutun aflamarks verði að taka í auknum mæli tillit til byggðarlaga, tryggja afkomu þeirra sem vinna við og eiga allt sitt undir því að þessum mikilvæga atvinnuvegi okkar sé stjórnað með hagsmuni heildarinnar í huga. Það var því skref í rétta átt, vissulega ekki stórt en skref í rétta átt, þegar lögin um Hagræðingarsjóð voru samþykkt og reyndar forsenda þess að sumir þingmanna Alþb. greiddu atkvæði með þeirri stjórnunaraðferð fiskveiða sem samþykkt var á síðasta þingi. Þó voru efasemdir uppi og einn þingmaður Alþb. taldi að lögin, og þá sérstaklega 1. gr. laga um Hagræðingarsjóðinn, væru aðeins viljayfirlýsing, fyrsta tækifæri yrði notað til að gera 1. gr. ómerka. Og því miður hefur reyndin orðið sú eins og berlega kemur í ljós í því frv. sem hér liggur fyrir um ráðstafanir vegna aflabrests í loðnuveiðum. Það tryggir á engan hátt afkomu þeirra byggðarlaga sem hlut eiga að máli. Aðeins er um að ræða að bæta þeim sem gera út skip á loðnuveiðar þann tekjumissi sem þeir verða fyrir vegna aflabrests.
    Vissulega neitar því enginn að gera verður sérstakar ráðstafanir vegna þeirra sem byggja sína útgerð á loðnuveiðum fyrst og fremst. Því hefur þingflokkur Alþb. aldrei neitað. Þvert á móti voru tillögur hæstv.

sjútvrh. skoðaðar og ræddar af þingflokki Alþb. sem lagði síðan til að gerðar yrðu ákveðnar breytingar á frv., breytingar sem tryggðu að loðnuskipin fengju úthlutað aflaheimildum úr Hagræðingarsjóði en tryggðu jafnframt tillögur okkar að þau byggðarlög sem verst verða úti vegna aflabrests í loðnuveiðum fengju notið þeirra ráðstafana sem gera ætti. Það átti að gera með því að skylda þann hluta loðnuflotans sem ætlar sér að nýta þessar veiðiheimildir til þess að landa aflanum á þessum stöðum. En á tillögur þingflokks Alþb. var ekki fallist heldur þvert nei.
    Í greinargerð með frv. fylgja minnisatriði til ríkisstjórnarinnar frá samstarfshópi ráðuneyta um málið. Þar segir um þetta atriði að þær hugmyndir sem fram hafa komið um að skylda loðnuflotann til að landa þeim afla sem hann kann að fá í loðnubætur á þeim stöðum sem loðnubræðslur eru virðast ekki raunhæfar og telur samstarfshópurinn að þar komi tvennt til. Í fyrsta lagi verða bæturnar af svo skornum skammti að ófært sýnist að binda þær sérstökum skilyrðum sem dragi úr hagkvæmni veiðanna. Í öðru lagi eigi mestur hluti loðnuflotans heimahöfn á Suður - og Vesturlandi og muni að líkindum kjósa að stunda botnfiskveiðar fyrst og fremst á þeim slóðum og landa í heimahöfn. En vandi byggðarlaganna sé mestur á Norður - og Norðausturlandi. Ég sé nú ekki hvernig þessi ágæti samstarfshópur getur kallað þetta í fyrsta og öðru lagi því þarna er í báðum tilvikum um það sama að ræða, hagkvæmni veiða. En skýtur ekki skökku við þegar þessi sami samstarfshópur, sem er að leggja til ýmsar aðrar ráðstafanir fyrir loðnuflotann og tryggja, eins og segir einnig í minnisatriðum þeirra, að sem flestum útgerðum verði gert kleift að lifa áfallið af, leggur ekki til aðgerðir sem tryggi jafnframt að þau byggðarlög sem hlut eiga að máli lifi áfallið af?
    Vissulega er fjallað um sveitarfélögin og atvinnumálin í þessum minnisatriðum, en hér á Alþingi liggur ekkert fyrir um hvernig með þau mál verður farið, ekkert í því frv. sem hér er til umræðu tryggir neitt í þeim efnum. Ekkert frv. annað hefur verið lagt fram um aðgerðir sem fylgja í kjölfarið og tryggja afkomu þeirra byggðarlaga sem hér um ræðir. Öllum tilraunum þingflokks Alþb. til að fá þessa tryggingu fram var hafnað og því gátum við ekki staðið að þessu frv. sem stjfrv.
    Það má líka benda á að um leið og samstarfsnefndin, sem ég er hér að vitna í, bendir á ýmsar leiðir til að leysa vanda loðnuflotans og neitar jafnframt þeirri hugmynd að binda veiðiheimildirnar því að landað verði á ákveðnum stöðum á þeirri forsendu að það verði óhagkvæmt og dýrt, bendir hún á ýmsar aðrar leiðir. T.d. segir nefndin í kaflanum um atvinnumál sveitarfélaga að ódýrt sé að flytja afla með Ríkisskipum milli landshluta. Hefði nú ekki mátt nýta þá hugmynd til að tryggja að afli loðnuskipanna yrði unninn á ákveðnum tilteknum stöðum?
    Ýmsum kann að finnast að þær kröfur sem hér eru settar fram um að málið sé skoðað í heild sinni, að horft sé á vanda útgerðarinnar samhliða vanda vinnslunnar í landi og afkomu byggðarlaganna og að ráðstafanir verði gerðar sem nýtast heildinni, séu of miklar í ljósi þess að stuttur tími er til umráða í þessu tiltekna máli. Lengri tíma verði að fá til þess að ljúka málinu öllu. Þetta séu aðeins fyrstu viðbrögð. Aðrar tillögur fylgi á eftir. Þetta er bara ekki rétt og reyndar furðulegt þegar um sérveiðar eins og þessar er að ræða að ekki skuli hafa fyrir löngu verið gerðar ráðstafanir til þess að mæta áföllum eins og þeim sem nú blasa við. Það er eins og loðnubresturinn komi algerlega á óvart, eins og enginn hafi nokkru sinni reiknað með honum. Hvers vegna var ekki fyrir löngu búið að skoða hvernig ætti að bregðast við og leggja fram tillögur þar að lútandi í stað þess að vera að leita lausna núna, undir tímapressu, eftir að ógæfan er skollin á? Það hlaut að koma að aflabresti í loðnu. Þetta er stofn sem sveiflast mikið í fjölda fiska milli ára án þess að sjútvrn. eða Hafrannsóknastofnun ráði þar neinu um. Hámark veiðiheimilda breytir þar litlu og jafnvel engu. Við höfum áður upplifað hrun í loðnustofninum á síðustu tíu árum og það er alveg ljóst að það mun gerast aftur seinna.
    Afrakstursgeta loðnustofnsins er engin föst stærð. Hún er og verður breytileg milli ára. Við það verður að miða þegar reglur eru
settar um fiskveiðar og við verðum líka að sýna þá fyrirhyggju að vera viðbúin aflabresti sem hlaut að koma að fyrr en síðar. Það þýðir ekki að segja að við séum undir þetta búin, að við höfum heimildir samkvæmt ákvæðum til bráðabirgða í lögum um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins og í 9. gr. laga um stjórn fiskveiða til að mæta slíkum aflabresti sérstaklega. Þessar heimildir eru til en þær tryggja ekki ráðstafanir nema að litlu leyti. Þær tryggja útgerðina, ekki byggðarlögin, ekki fiskvinnslufyrirtækin og jafnvel ekki sjómennina. Því ekkert ákvæði eða skilyrði er um það í þessu tilviki, sem hér er um fjallað, að loðnuskipin verði sjálf að nýta þær veiðiheimildir sem þau fá. Útgerðarfyrirtæki þessara loðnuskipa gætu þess vegna selt allar heimildirnar undir yfirskini hagræðingar þannig að aðeins útgerðirnar sjálfar njóti afrakstursins en ekki þeir 600 sjómenn sem eru á loðnuflotanum þegar hann er á loðnuveiðum. Þeirra hagur er ekki tryggður með þessu frv.
    Virðulegi forseti. Á undanförnum þremur árum hafa botnfiskveiðiheimildir fiskiskipaflotans verið skertar verulega. Aflamark á þorski t.d. verið skert um 24% frá árinu 1987. Þessi skerðing ásamt núverandi kerfi í stjórnun fiskveiða hefur reynst mörgum erfið. Sala fiskiskipa og báta sem kvótinn er seldur í burtu með hefur orðið til þess að afkoma margra byggðarlaga í landinu er afar slæm. Breyting frá sóknarmarki yfir í aflamark varð þess valdandi að hætta er á að útgerð margra báta, sérstaklega smábáta, leggist af. Það þýðir gjaldþrot margra fjölskyldna. Fjöldi þeirra er ekki þekktur en ég fullyrði að þar er ekki um færri aðila að ræða en þá sem gera út á loðnu. Engin sérstök ástæða hefur þó verið talin til að grípa til lagasetningar vegna þeirra. Þegar þeir báðu um leiðréttingu þá var enginn kvóti til.

    Alþb. hefur lagt áherslu á að fiskimiðin eru eign okkar allra og að þau beri að nýta með hagsmuni heildarinnar í huga. Það frv. sem hér er til umræðu tekur ekki á vandamálinu út frá þessari forsendu. Því gat þingflokkur Alþb. ekki staðið að framlagningu þess.
    Það er alveg ljóst að aflabrestur í loðnu hefur veruleg áhrif á útgerð loðnuskipa og efnahags- og atvinnulíf í sveitar- og bæjarfélögum víða um land. Áhrifin eru ekki eingöngu á þau fyrirtæki og starfsmenn þeirra sem vinna beint við loðnuna heldur er hér um keðjuverkun að ræða sem greinist í margar áttir. Ekki síst í litlum samfélögum þar sem hvert atvinnufyrirtæki vegur mjög þungt í heildarmyndinni. Stjórnvöld verða að taka á vanda þessara byggðarlaga sem sannarlega verða hart úti ef ekki verða veittar heimildir fyrir meiri loðnuveiði nú en útlit er fyrir. En það er ekki gert með því frv. sem hér er til umræðu.