Ráðstafanir vegna aflabrests í loðnuveiðum
Þriðjudaginn 19. febrúar 1991


     Danfríður Skarphéðinsdóttir :
    Virðulegur forseti. Við stöndum frammi fyrir ákveðnum vanda og hér hafa verið reifaðar hugmyndir um hvernig hann skuli leysa. Ýmist það að gera ekki neitt, að láta reyna á heimild hæstv. sjútvrh. varðandi 9. gr. núgildandi laga um fiskveiðistjórnun eða í þriðja lagi að fara þá leið sem lagt er til með þessu frv. Það hafa raunar ekki komið neinar aðrar formlegar tillögur fram varðandi lausn þessa vanda. Ég verð að játa það að mér finnst enginn þessara kosta fýsilegur, að ekki sé minnst á þá óvissu sem við stöndum frammi fyrir, þó svo að þetta frv. eða einhver önnur leið verði samþykkt.
    Ég ætla aðeins að gera örfáar athugasemdir við þessa 1. umr. Ég vil í fyrsta lagi vekja athygli á því að nú þegar hafa verið veittar heimildir til þess að veiða 175 þús. tonn af loðnu úr stofni sem er 525 þús. tonn, en í máli hæstv. sjútvrh. og einnig forstöðumanns Hafrannsóknstofnunar kom fram að nauðsynlegt er talið að hlífa 400 þús. tonnum af hrygningarstofninum. Hér er því að mínu mati nokkuð frjálslega farið með tillögur Hafrannsóknastofnunar. Ég vil gera sömu athugasemd við 2. gr. en þar er líka verið að leggja til að farið verði langt fram úr tillögum Hafrannsóknastofnunar um rækjuveiðar, burt séð frá því sem fram kemur í grg. um að ástand stofnsins sé gott um þessar mundir. Það er okkur verulegt umhugsunarefni hversu djörf stjórnvöld eru við að ganga fram hjá tillögum fiskifræðinga. Það hefur verið gert svo að segja í hvert skipti sem úthlutað hefur verið veiðiheimildum og ættum við nú held ég að hugleiða það mál alvarlega og reyna að læra af því sem á undan er gengið og halda okkur alla vega nær tillögum fiskifræðinga. Okkur ber auðvitað fyrst og fremst skylda til að hugsa um framtíðina og þess að þeir sem á eftir okkur koma geti nýtt þessa auðlind líka.
    Það eru fleiri óvissuþættir sem ég vildi nefna. Það kom fram á fundi sjútvn. í morgun að það gengur erfiðlega að selja loðnuafurðir nú um stundir og loðnumjöl á í samkeppni við sojamjöl, sem er mun ódýrara. Þá er einnig alkunna að mikið framboð er á rækju þannig að verð á henni hefur lækkað til muna að undanförnu.
    Þriðji óvissuþátturinn snýr að atvinnumálum byggðarlaganna þar sem loðnubresturinn veldur verulegum samdrætti í atvinnulífinu.
    Í því fskj. sem fylgir frv. og unnið er af samstarfsnefnd ráðuneyta er að finna úttekt á þeirri stöðu sem nú er uppi í ýmsum byggðarlögum. En tillögur um aðgerðir eru óljósar og engar ákvarðanir liggja fyrir t.d. um flýtingu framkvæmda á vegum hins opinbera sem þó er á valdi hæstv. ríkisstjórnar. Hefði ég viljað beina þeirri spurningu til hæstv. sjútvrh. hvort við megum vænta þess að nú alveg á næstunni verði birtar ákvarðanir um að ríkisstjórnin hafi ákveðið að flýta framkvæmdum á einhverjum stöðum. Spurning mín var á þá leið hvort við getum vænst þess að ákveðnar tillögur komi fram frá ríkisstjórninni nú á næstunni um að framkvæmdum á vegum ríkisins verði

flýtt á tilteknum stöðum.
    Í þessu fskj. og grg. með frv. er minnst á tekjutap loðnuflotans og tekjumissi sveitarfélaga. Mér finnst lítt bera á áhyggjum af afkomu einstaklinga, þær eru alla vega ekki mjög áberandi. Það er vikið að Atvinnuleysistryggingasjóði en lítið minnst að öðru leyti á fjárhagslegar eða félagslegar afleiðingar þess fyrir einstaklingana sem hlut eiga að máli.
    Með stofnun Hagræðingarsjóðs sjávarútvegsins samhliða afgreiðslu laga um stjórn fiskveiða á sl. ári þótti okkur kvennalistakonum aðeins örla á viðurkenningu á þeirri hugmynd og þeim tillögum okkar að nauðsynlegt væri að taka tillit til byggðarsjónarmiða við stjórn fiskveiða. Hagræðingarsjóður, eins og hann er nú, er þó reyndar fjarri hugmyndum okkar um að leggja 20% heildaraflans í sérstakan veiðileyfasjóð sem yrði til leigu, sölu eða sérstakrar ráðstöfunar til byggðarlaga.
    Það er auðvitað eitt af því sem við hljótum öll að hafa áhyggjur af ef upp kemur sú staða síðar á árinu að straumhvörf verða í atvinnulífi einhvers staðar á landinu vegna skipasölu, að ekki verði til neinar aflaheimildir í Hagræðingarsjóði. Það er auðvitað enn einn af þeim óvissuþáttum sem tengjast þessu frv. En það væri e.t.v. önnur spurning mín til hæstv. sjútvrh. hvort hann telji líkur á því að Hagræðingarsjóði muni standa til boða að kaupa skip á þessu ári, hvort menn viti um það nú þegar, hvort eitthvað kemur inn í sjóðinn.
    Eins og heyra má á máli mínu hef ég uppi ýmsar efasemdir og það hafa fleiri haft hér í dag. Það er auðvitað ljóst og við gerum okkur öll grein fyrir því að þetta frv. leysir ekki allan þann vanda sem við blasir. Ég hef áhyggjur af því að við séum stöðugt að ganga of nærri fiskstofnunum og eins að atvinnuleysi og upplausn geti blasað við í ýmsum byggðarlögum. Það vantar auðvitað algjörlega á enn þá að mótuð verði heildstæð atvinnustefna fyrir landið allt. Einn hæstv. ráðherra í núverandi ríkisstjórn fékk það verkefni þegar hann settist í ráðherrastól að móta hana. Það hefur hins vegar lítið bólað á að raunveruleg stefna kæmi fram. Það birtist ein skýrsla sem árangur af hugarflugsnefnd hans en síðan hefur svo sem ekki annað gerst en fregnir berast af misárangursríkum viðræðum við erlenda aðila um að koma hér á laggirnar mengandi stóriðju, sem eins og öllum hv. þm. ætti að vera ljóst er okkur kvennalistakonum mjög á móti skapi. Við teljum að við ættum einmitt frekar að byggja afkomu okkar á þeirri sérstöðu sem við höfum með hreint og ómengað land sem við gætum haft. Það er auðvitað líka eitt sem vantar í sjávarútvegsstefnuna og það er fiskvinnslustefna sem einhvers staðar er setning um í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar um að mótuð skuli á þessu kjörtímabili sem nú er senn á enda. Þó aðeins hafi verið reynt að stýra þeim gegndarlausa útflutningi á óunnum fiski sem verið hefur á síðustu árum þá er ekki nándar nærri nóg að gert.
    Ég vil láta það koma fram hér við 1. umr. að ég tel þá leið sem lagt er til í þessu frv. að farin verði illskárri en þá að hæstv. sjútvrh. beiti heimildum í 9.

gr. til þess að skerða allan flotann. Það hefur margoft komið fram í umræðunni í dag að flotinn hefur verið skertur verulega á síðustu árum, um 24% frá 1987. Ég ítreka það að mér er ljóst að frv. leysir ekki allan vanda og það kemur til okkar kasta að meta hvort við teljum rétt að stíga það skref í átt til að leysa þann hluta vandans sem frv. gerir ráð fyrir þegar við afgreiðum það út úr nefndinni. Það er auðvitað sjálfsagt að almennar reglur gildi á öllum sviðum atvinnulífsins og að þær séu virtar, en mér sýnist að í þessari stöðu eigum við e.t.v. ekki margra kosta völ. Mér hefur ekki gefist tími eða ráðrúm til þess að ræða þetta frv. sérstaklega í mínum þingflokki, en við munum skoða það opnum huga og taka afstöðu til þess sameiginlega, eins og við reyndar reynum að gera í öllum málum sem um er fjallað hér. Ég vil endurtaka það að ég tel að sú leið, sem hér er lagt til að farin verði, er mér alla vega hugnanlegri en sú að allur flotinn verði skertur.