Málefni aldraðra
Þriðjudaginn 19. febrúar 1991


     Ólafur Kristjánsson :
    Virðulegur forseti. Á þeim skamma tíma sem ég hef haft til umráða hér, sem er réttur sólarhringur, leit ég yfir þetta frv. um breytingu á lögum um málefni aldraðra nr. 82/1989. Vissulega fagna ég því að í þessu frv. skuli vera viðurkenning á því að veita fé til viðhalds og endurbóta á mannvirkjum fyrir aldraða sem og að veita fé til reksturs þeirra mannvirkja sem tekin verða í notkun eftir að fjárlagaárið hefur hafist. Ég hygg að í þessu sé mjög góður tilgangur og menn vilja mæta þessu eins og hér er lagt til.
    En hér er galli á gjöf Njarðar. Ef við lítum á stöðu Framkvæmdasjóðs aldraðra er það vitað mál að hann hefur verið févana á liðnum árum og ekki getað sinnt því hlutverki sínu sem tengist nýbyggingum. Mér er kunnugt um það að nú þegar liggja inni beiðnir sem eru á bilinu 700 -- 900 millj. og ég get ekki séð að það sé hægt að setja sjóðnum önnur verkefni og ný jafnviðamikil og hér er lagt til öðruvísi en það fylgi því tillögugerð um fjárveitingu til sjóðsins. Um þetta hljótum við öll að vera sammála.
    Upphaflega var áætlað að skerða þennan sjóð um 130 millj. kr. en lögbundin framlög árið 1991 áttu að vera 370 millj. kr. Mér er sagt að nú hafi verið leiðrétt skerðing upp á 130 millj., þannig að í fjárlögum munu vera 370 millj. kr.
    Ég get ekki fellt þetta frv. vegna þess að það er það góður tilgangur með því, en ég get heldur ekki samþykkt frv. öðruvísi en að séð verði fyrir fjárveitingu til þessara mikilvægu þátta. Ég mun því sitja hjá við afgreiðslu þess.