Málefni aldraðra
Þriðjudaginn 19. febrúar 1991


     Frsm. 2. minni hl. heilbr.- og trn. (Ragnhildur Helgadóttir) :
    Herra forseti. Afstaða 2. minni hl. heilbr.- og trn. þessarar deildar er afar einföld. Við erum andvíg þessu frv. Ég heyrði að hv. síðasti ræðumaður talaði um hinn góða tilgang í því. Sá góði tilgangur er nú þegar í lögum sem ég sé enga ástæðu til að breyta vegna þess að það hlutverk sem sjóðnum er falið með gildandi lögum er svo stórt að því hefur engan veginn verið fullnægt. Þess vegna er alls ekki tímabært að bæta nýjum hlutverkum á þennan sjóð. Það þýðir í raun og veru það sama og að skerða fjármagnið til þeirra framkvæmda sem honum er ætlað að sinna. Þess vegna getum við ekki stutt þetta frv. á sama tíma og hundruð aldraðra borgara bíða eftir hjúkrunarplássum. Þess vegna greiðum við einfaldlega atkvæði gegn því.
    Fram til þessa hefur ætlunin verið, og bæði rétt og skylt reyndar, að sjá fyrir því fjármagni sem þarf til að sinna þeim skyldum sem nefndar eru í þessu frv. til viðbótar þeim skyldum sem áður voru, þ.e. til þess að halda við og reka þær stofnanir sem reistar verða fyrir fé sjóðsins. Fyrir þessu hefur verið séð og á að sjá með öðrum hætti. Segjum nú að jafnvel væri hugsað fyrir nýju fjármagni vegna þessara nýju hlutverka, sem alls ekki er, í því felst hin mikla blekking. Það er ekki séð fyrir nýju fjármagni heldur einungis fyrir nýjum skyldum. Þetta er því einungis feluleikur sem reyndar kom í ljós með öðrum hætti þegar fjármagnið var skert á lánsfjárlögum.
    Hitt er svo annað mál og vel má benda á og minna á í þessu sambandi að til þess að unnt sé að nýta með viðhlítandi hætti þau hjúkrunarrými sem vonandi verður bætt við á næstu árum þarf líka að hugsa fyrir því af alvöru hvað gera þarf til þess að fjölga í þeim stéttum sem sinna umönnun og hjúkrun. Ég er þeirrar skoðunar að hvaða kenningar sem menn hafa um aðferðir til að mennta þessar stéttir þá leysi framkvæmd þeirra kenninga alls ekki úr þessu máli. Sá þröskuldur sem hæstur er og stendur þarna raunverulega í vegi er gamalt viðhorf --- þið afsakið ég segi það, kæru þingsystkin, er gamalt viðhorf karlmanna í heilbrigðiskerfinu, ekki síst til hefðbundinna kvennastétta í þeim sömu greinum. Það er ósköp einfaldlega það að menn halda enn, þess verður enn þá vart, að konur hafi einhvern veginn í húðinni og fingrunum tilfinningu fyrir því hvernig á að hjúkra þeim sem verst eru haldnir af sjúkdómum og elli, en vanmeta hins vegar allar þær miklu framfarir sem ýmsir þeir sem lagt hafa stund á nám í þessum greinum hafa svo eignast hlutdeild í.
    Ég er þeirrar skoðunar að þessi hópur sem við erum að tala um að sinna með frv. eins og þessu, með frv. um Framkvæmdasjóð aldraðra, hvað sem í því stendur, þá erum við að tala um að leita úrræða til þess að greiða úr þörfum, greiða úr vanda þeirra sem elstir eru. En ég er þeirrar skoðunar að það gerum við ekki með fullnægjandi hætti nema einnig sé hugsað um þennan þátt málsins. Í stuttu máli: Viðhorfið til hefðbundinna umönnunar- og hjúkrunarstétta þarf að breytast. Það þarf að bæta viðhorfið á þann veg að meiri virðing verði sýnd þessum stéttum. Það þarf að minnast þess að hinir öldruðu borgarar eiga það skilið að fá umönnun þeirra sem besta hafa þjálfun og þekkingu, byggða á þeim framförum og athugunum sem færustu menn í ýmsum löndum hafa gert og það atriði skulum við ekki vanmeta. Með þessum orðum mínum er að sjálfsögðu gert ráð fyrir því og undirskilið að þekkingin ein dugi ekki, heldur þarf auðvitað líka viðhorfið og umhyggjan að vera leiðarljós þeirra sem starfa að umönnun aldraðra. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það leggi ekki aðrir fyrir sig þetta starf og það nám sem til þess dregur en þeir sem hafi til að bera þann áhuga og þá umhyggju sem þarf.
    Þetta vildi ég, herra forseti, nefna í sambandi við þetta mál en ég tek það fram að sú breyting sem þetta frv. gerir á gildandi lögum leysir ekki vandann heldur eykur hann. Þess vegna greiðum við atkvæði á móti frv. því við viljum að þeim lögum sem nú gilda sé sinnt til fullnustu.