Búfjárhald
Þriðjudaginn 19. febrúar 1991


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um búfjárhald. Þetta er 199. mál og er á þskj. 627 eftir breytingar og 2. umr. í Ed.
    Í frv. þessu birtist í raun og veru síðari hluti heildarendurskoðunar lagaákvæða um búfjárhald og búfjárrækt og kemur efni frv. í stað þeirra ákvæða í búfjárræktarlögum nr. 31/1973, sem enn hafa verið í gildi og varða lausagöngu gripa og forðagæslu. Einnig er þessu frv. ætlað að koma í stað laganna um búfjárhald í kaupstöðum og kauptúnum nr. 44/1964, en framkvæmd þeirra laga hefur verið á hendi félmrn. eins og kunnugt er. Þannig eru í þessu frv. sameinuð öll ákvæði laga sem varða búfjárhald og er með tillögum þessum lokið endurskoðun á hinni faglegu löggjöf um búfjárrækt, jarðrækt og búfjárhald sem staðið hefur yfir undanfarin ár og að hluta til verið lögfest á líðandi kjörtímabili.
    Frv. þetta er að stofni til samið af þriggja manna nefnd sem skipuð var 1. nóv. 1989 í beinu framhaldi af samþykkt Alþingis á nýjum búfjárræktarlögum. Nefndina skipuðu þeir Jón Viðar Jónmundsson ráðunautur, sem var formaður, Ólafur Dýrmundsson ráðunautur og Sigurður Sigurðarson dýralæknir. Nefndin skilaði tillögum sínum að frv. í byrjun mars á sl. ári og kemur fram í bréfi frá henni að samráð hafi verið haft við félmrn. um þá þætti frv. sem varða búfjárhald í kauptúnum og jafnframt við menntmrn. um þau ákvæði sem snerta dýravernd, en á þeim tíma, fyrir tilvist hins nýja umhvrn., heyrðu dýraverndunarlög undir menntmrn. Þannig var reynt að vinna að þessu máli í samráði við þau ráðuneyti sem verkefnum hafa að gegna á þessu sviði.
    Frumvarpsdrögin voru á sl. vetri send búnaðarþingi sem þá sat og hefur síðan verið reynt að taka eftir föngum tillit til afstöðu og vilja búnaðarþings og ábendinga sem þaðan hafa komið.
    Ef hlaupið er örstutt yfir efni frv. þá skiptist það í sex kafla, hinn fyrsta um markmið og yfirstjórn. Í öðru lagi um takmörkun búfjárhalds. Þar er gerð grein fyrir þeim samþykktum sem sveitarstjórnir geta gert og þeim heimildum sem þær hafa til að setja reglur og takmarka búfjárhald og stýra því. Í þriðja lagi eru svo ákvæðin um vörslu sem tengjast að sjálfsögðu einnig almennum ákvæðum og heimildum sveitarstjórna. Í IV. kafla er kveðið á um aðbúnað og meðferð búfjár, í V. kafla um forðagæslu, eftirlit og talningu búfjár, vel að merkja, og í sjötta lagi eru svo ýmis ákvæði.
    Ég sé ekki ástæðu, herra forseti, til að fjölyrða um efni frv. Á því urðu nokkrar breytingar í hv. Ed. sem landbn. deildarinnar lagði til og voru samþykktar einróma. Það var síðan afstaða landbn. að mæla einróma með samþykkt frv. að gerðum þeim breytingum. Aðeins einn þm., hv. þm. Kvennalista, 6. þm. Vesturl., hafði fyrirvara sem gerð var grein fyrir í umræðum um málið.
    Að lokinni þessari umræðu, herra forseti, legg ég

svo til að málinu verði vísað til hv. landbn. deildarinnar og 2. umr.