Leikskóli
Þriðjudaginn 19. febrúar 1991


     Stefán Valgeirsson :
    Herra forseti. Ég fagna því að þetta frv. er komið fram. Hins vegar harma ég að það skuli ekki hafa komið fram fyrr á þessu þingi vegna þess að ég er ekki eins bjartsýnn og hæstv. ráðherra á að það verði tóm til þess að klára þetta mál á þeim tíma sem þing á eftir að sitja, jafnvel þó að um þetta sé samstaða í þinginu, sem ég vona. Hitt er auðvitað áhyggjuefni að það er ekki nóg, eins og hér hefur komið fram, að samþykkja svona frv. ef ekki er neitt fjármagn fyrir hendi til þess að hefja starfið. Það virðist alveg vanta.
    En vegna þeirra ummæla sem síðasti hv. ræðumaður hafði hér og taldi að það mundi ekki vera áhugi að því er mér skildist úti á landi að koma á fót svona leikskólum, þá held ég að það sé mjög mikill misskilningur. Það er að vísu sjálfsagt ekki mikið í sveitahreppunum --- ég segi, það er misskilningur vegna þess að þar er ekkert síður þörf á því. Ég hygg að ef framkvæmdin verður sú að Reykjavík ein getur framfylgt þessu verði það til þess að soga fleira fólk en annars hingað til höfuðborgarsvæðisins. En þá er ég kominn að því sem hæstv. ráðherra gat hér um áðan, hinni misjöfnu aðstöðu sveitarfélaganna til þess að geta framkvæmt það sem lög mæla fyrir um að þau eigi að gera fyrir sína íbúa á hverjum stað. Og það frv. sem hér liggur fyrir skekkir myndina enn þá meira nema eitthvað komi til.
    Hæstv. ráðherra gat um það hvað Reykjavík hefði mikið meira fjármagn en öll önnur sveitarfélög, meira að segja Kópavogur. Það er nú ekkert smáræði. Þeir hafa um eða yfir 30% meira af hverjum íbúa en önnur sveitarfélög. Og auðvitað hlýtur það að vera, a.m.k. miðað við þá hugsun sem ég hygg að hæstv. ráðherra hafi, að þarna þarf að jafna metin. Reykjavíkurborg fær aðstöðugjöld af öllum innflutningi og mestmegnis af allri verslun og öllu sem er byggt í kringum hina opinberu stjórnsýslu og viðskipti, aðstöðugjöld og fasteignagjöld og það er það fyrst og fremst sem um munar.
    Einnig er það staðreynd, a.m.k. hefur verið það fram að þessu, að tekjur hvers íbúa beint eru verulega meiri en er í öðrum þéttbýlisstöðum og ég tala nú ekki um í strjálbýlinu. Þarna þarf að láta fylgja þessu frv. eftir með því að gera öðrum sveitarfélögum kleift að byggja leikskóla eins og hér á höfuðborgarsvæðinu. Annars missir þetta marks, annars verður það til þess, eins og ég sagði áður, að ýmsir flytja sig hingað frá öðrum stöðum á landinu því að fólkið leitar auðvitað þangað sem þjónustan er mest og á meðan þetta misrétti gildir verður raunin sú að slíkt frv., ef ekki fylgir annað með, verkar þannig.