Leikskóli
Þriðjudaginn 19. febrúar 1991


     Jón Kristjánsson :
    Herra forseti. Hv. 10. þm. Reykn. beindi til mín spurningu varðandi afstöðu Framsfl. og þingflokks hans til þess frv. sem hér er um rætt og frv. um félagsþjónustu sveitarfélaga og hvort þingflokkurinn muni samþykkja frumvörpin óbreytt í hv. Alþingi.
    Þessi frv. voru að sjálfsögðu lögð fram með almennum fyrirvörum um vinnu í þinginu og um að fylgja eða flytja brtt. ef upp kæmu við nánari athugun. Ég get því í sjálfu sér ekkert sagt um það hvort þau verða samþykkt óbreytt en þingflokkurinn stendur að þessum frv.
    Annar hluti spurningarinnar var hvort við mundum beita okkur fyrir því að taka út úr frv. um félagsþjónustu sveitarfélaganna kaflann um leikskólann. Ég tel að það sé ekki einhugur um það í okkar þingflokki og á því séu viss vandkvæði að gera það. Við stöndum að þessum frv. eins og þau eru. Ég vil ekki lýsa því yfir fyrir hönd félaga minna í þingflokknum að þeir séu tilbúnir til þess að taka úr þann kafla. Leikskólinn og fjármögnun hans heyrir undir sveitarfélögin samkvæmt öðrum lagabálkum og ég tel á því viss vandkvæði. Ég hef áður lýst afstöðu okkar til grundvallarþátta þessara mála og tel það skipta mestu máli að gera sér grein fyrir þeim við 1. umr. málsins. Hvað kostnaðarþættinum viðvíkur verðum við auðvitað að búa við þá fjármögnun sem nú er og treysta á vilja sveitarfélaganna í þeim efnum og þátttöku Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til styrktar fyrir hin smærri sveitarfélög til að leysa þessi verkefni.
    Eins og ég sagði í mínum upphafsorðum tel ég að þetta frv. gott skref. Ég lýsti því jafnframt yfir að ég teldi það ekki leysa þessi mál í eitt skipti fyrir öll eins og svo mörg önnur lagasetning sem við göngum frá hér á hv. Alþingi. En það er einlæg von okkar að fyrir þessum málum verði sem best séð.