Leikskóli
Þriðjudaginn 19. febrúar 1991


     Geir H. Haarde :
    Herra forseti. Mér þykir ráðherrann aldeilis kominn í kosningaham hér á þessum fundi. Má vera að ástæðuna fyrir því sé að finna hér uppi á pöllum. En hér hafa spunnist að mörgu leyti fróðlegar umræður um merkt málefni, þ.e. málefni leikskólans. Það er alveg ljóst, eins og hefur komið fram í þessari umræðu og hér áður í þinginu undanfarna daga, að af hálfu stuðningsliðs núv. ríkisstjórnar er ekkert samkomulag um það hvernig eigi að fara með þessi mál.
    Við ræddum hér í síðustu viku allt annað frv., frv. um félagsþjónustu sveitarfélaga. Þar er sérstakur kafli um málefni leikskóla. Þá stóð hæstv. menntmrh. upp og lýsti því yfir að um þann kafla væri ekkert pólitískt samkomulag á stjórnarheimilinu. Og hv. 13. þm. Reykv. Guðrún Helgadóttir lýsti hinu sama yfir. Hið sama hefur komið fram af hálfu hv. 1. þm. Vesturl. Alexanders Stefánssonar um þetta efni, reyndar ekki við 1. umr. um þetta mál vegna þess að hann var fjarverandi, heldur á vettvangi félmn. deildarinnar.
    Það urðu hörð orðaskipti á föstudaginn var milli menntmrh. og félmrh. um þetta málefni. En félmrh. lætur ekki sjá sig í dag þegar á að ræða þetta frv. sem sagt er að sé á ábyrgð allrar ríkisstjórnarinnar og varðar þetta málefni. Ég skal engu spá um það hver úrslit þessa máls verða. En það er alveg ljóst að ekkert af þessum málum nær hér fram að ganga nema um það sé gert samkomulag í einhverjum mæli við stjórnarandstöðuflokkana.
    Það þarf auðvitað ekkert að taka það fram, enda kom það fram í máli hv. þm. Sólveigar Pétursdóttur, að það er skoðun Sjálfstfl. að leikskólamálefni séu málefni sem heyra eigi undir menntmrn. alveg eins og málefni grunnskólans og önnur skólamál. Það þarf ekkert að ræða það. En það má auðvitað skilgreina alla hluti þannig að í víðasta skilningi séu þeir félagsmál. Heilbrigðismálin eru það auðvitað. Skólamálin eru það auðvitað á breiðum grundvelli og tryggingarnar. En það er samt rangt og röng afstaða að skilgreina þá þjónustu og þá uppeldislegu starfsemi sem fram fer í leikskólum sem einhvers konar félagsleg vandamál eða skilgreina foreldra leikskólabarnanna sem skjólstæðinga félagsmálastofnana. Það er kjarni þess ágreinings sem uppi hefur verið í þessu og hygg ég að sá ágreiningur verði vandleystur á þeim örfáu vikum sem lifa af þessu þingi nema þá með samkomulagi við stjórnarandstöðuna.
    Ég læt mér að sjálfsögðu skæting menntmrh. í garð Sjálfstfl. að öðru leyti í léttu rúmi liggja og fjarstæðukenndar fullyrðingar hans um hver stefna Sjálfstfl. væri í skattamálum eða í sambandi við útgjöld Reykjavíkurborgar. Ég held að það hafi fá sveitarfélög gert meira í uppbyggingu dagvistarstofnana á undanförnum árum en einmitt Reykjavíkurborg. Og það hefur oft verið svo, þó það sé kannski ekki vandamál í dag, að stofnanir hafa ekki komist í rekstur vegna þess að það hefur ekki tekist að manna þær. En ég hafna því að af hálfu Reykjavíkurborgar sé rekin fjandsamleg stefna í garð leikskóla eða starfsmanna

þeirra, hafna því algerlega.
    Ég vil hins vegar láta það koma fram vegna ummæla menntmrh. fyrr í umræðunni um að ríkið ætti að hafa meiri afskipti af þessum málaflokki en verið hefur og verkaskiptingarlögin ættu að vera ,,óhrein``, það ætti að vera ,,óhrein`` verkaskipting milli ríkis og sveitarfélaga, að ég er þessu í grundvallaratriðum ósammála. Ég tel að það sé þeim mun betra sem skiptingin í verkefni milli ríkis og sveitarfélaga sé hreinni og minna samkrull, eins og það er stundum kallað. En um þetta er bara pólitískur ágreiningur og allt í lagi að horfast í augu við það.
    Ég tel að þó að um málefni sem þetta megi gjarnan gilda heildar - eða rammalög eigi það að sem stærstum hluta að vera á ábyrgð þess sveitarfélags sem þjónustuna veitir eða sem sér fyrir þeirri starfsemi sem um er að ræða.
    Hv. 1. þm. Vesturl. er kominn hér í salinn og ég nefndi nafnið hans hér áðan. Það er rétt að hann viti af því en ég ætla að öðru leyti ekki að mana hann hér upp í ræðustól út af þessu máli eða út af félagsþjónustu sveitarfélaga. Vissulega væri forvitnilegt ef hann svaraði einnig þeirri spurningu sem hv. þm. Anna Ólafsdóttir Björnsson bar fram um afstöðu Framsfl. til þessara mála því það virðist vera eitthvað á reiki hver hún er og hver afstaða þess flokks verður til þeirra tveggja frumvarpa sem hér hefur illu heilli verið blandað saman og sem skarast með þeim hætti að einn kafli í frv. félmrh. fjallar um hitt frv. sem menntmrh. flytur. Þannig á ekki að standa að málum. Það er óþinglegt í fyrsta lagi, en í öðru lagi, og það er aðalatriðið, þá er það efnislega rangt og óviðeigandi þegar um þennan málaflokk er að ræða.