Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla
Miðvikudaginn 20. febrúar 1991


     Frsm. minni hl. félmn. (Danfríður Skarphéðinsdóttir) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 697 um frv. til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,, Frv. þetta um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla var lagt fram í neðri deild Alþingis á 112. löggjafarþingi. Félmn. neðri deildar náði samkomulagi um að afgreiða málið með nokkrum brtt. sem samþykktar voru í neðri deild. Ekki vannst tími til að taka málið fyrir í efri deild á síðustu dögum fyrir þingslit sl. vor. Frv. var því lagt fram í efri deild nú á haustþingi eins og það kom frá neðri deild í fyrra. Fulltrúi Kvennalistans í félmn. neðri deildar féllst á að standa að afgreiðslu málsins þrátt fyrir það að kvennalistakonur hefðu viljað sjá tekið á jafnréttismálum af meiri myndugleik og festu en kom fram eftir umfjöllun neðri deildar um frv. Stuðningur Kvennalistans við frv. byggðist ekki síst á því að nokkur mikilvæg atriði náðu fram að ganga sem ekki er að finna í núgildandi lögum. Má sem dæmi nefna ákvæði um jafnréttisþing og virkara og skýrara hlutverk jafnréttisnefnda.
    Við umfjöllun málsins í félmn. efri deildar á 113. löggjafarþingi komu fram ýmsar athugasemdir við frv. og leggur meiri hl. félmn. fram brtt. í samræmi við þær á þskj. 672. Flestar tillögurnar snerta málfar og gerir minni hl. félmn. ekki athugasemdir við þær. Fimmta brtt., sem snertir 19. gr. frv., er hins vegar efnisleg og þar greinir minni hl. félmn. á við meiri hl. nefndarinnar. Brtt. felst í því að í kærunefnd jafnréttismála eigi fulltrúar ASÍ og VSÍ fasta fulltrúa. Í frv., eins og það var lagt fram á 112. löggjafarþingi og eins og það kom frá neðri deild á sl. vori, var gert ráð fyrir að í þeim tilvikum er kæruefni varðar vinnumarkað skuli fulltrúi heildarsamtaka viðkomandi starfsmanns og fulltrúi samtaka atvinnurekenda viðkomandi launagreiðanda taka sæti í kærunefnd.
    Minni hl. telur það réttlátari og eðlilegri skipan kærunefndar að þeir aðilar sem málið varðar hverju sinni eigi sæti í nefndinni. Þetta er í raun sama skipan og gildir um Félagsdóm. Minni hl. vekur athygli á að samstaða náðist um þessa skipan mála bæði í nefndinni sem samdi frv. og fulltrúar allra þingflokka áttu aðild að, svo og í neðri deild Alþingis.
    Því er ljóst að minni hl. leggur til að brtt. meiri hl. félmn. við 19. gr. frv. verði felld en styður frv. að öðru leyti.``
    Undir þetta nál. skrifar Danfríður Skarphéðinsdóttir.