Meðferð opinberra mála
Miðvikudaginn 20. febrúar 1991


     Frsm. allshn. (Guðmundur Ágústsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 686 og brtt. á þskj. 687 og 696 við frv. til laga um meðferð opinberra mála. Þessar brtt. sem og nál. eru frá allshn. og allir nefndarmenn rita undir þetta nál. og þær brtt. sem hér eru lagðar til. Nál. hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Nefndin hefur fjallað um frv. Á fund nefndarinnar komu Halldór Þorbjörnsson, fyrrv. hæstaréttardómari, Markús Sigurbjörnsson prófessor, Bogi Nilsson, rannsóknarlögreglustjóri ríkisins, Hallvarður Einvarðsson ríkissaksóknari, Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari, Gunnlaugur Briem yfirsakadómari, Pétur Guðgeirsson sakadómari og Helgi I. Jónsson sakadómari. Umsagnir bárust frá sakadómi Reykjavíkur, Dómarafélagi Íslands, Rannsóknarlögreglu ríkisins, Lögmannafélagi Íslands, Sýslumannafélagi Íslands, ríkissaksóknara og dóms- og kirkjumrn.
    Frv. er flutt vegna breytingar á réttarfarskerfi landsins, en hún tekur gildi 1. júlí 1992. Því er ætlað að leysa af hólmi lög nr. 74/1974, um meðferð opinberra mála, en þau eru að stofni til frá 1951. Frv. gerir ráð fyrir að skilið verði til fulls milli ákværuvalds og lögreglu annars vegar og dómsvalds hins vegar, auk þess að reglum um ákæruvaldið, flutning opinbers máls og réttarstöðu sakbornings er breytt. Þá er reglum um málskot til Hæstaréttar breytt ásamt fleiru.
    Nokkrar umræður urðu meðal nefndarmanna um heimild lögreglustjóra til að höfða opinbert mál með útgáfu ákæru. 28. gr. frv., sem fjallar um þá málaflokka sem lögreglustjórar geta ákært í, verður að skýra með hliðsjón af 1. mgr. 25. gr. og 1. mgr. 27. gr. frv. Ríkissaksóknari er æðsti handhafi ákæruvalds og skiptir verkum með öðrum ákærendum. Það er því á hans valdi að ákveða hvort og í hvaða málum lögreglustjórar ákæra, innan þess ramma sem 28. gr. setur.
    Nefndin leggur til nokkrar breytingar á frv. sem hún telur til bóta þótt flestar breyti efni þess ekki að ráði. Breytingarnar eru eftirfarandi:
    1. Dómara verði heimilt að vísa þeim sem haga sér ósæmilega í réttarsal út án sérstakrar viðvörunar. Í frv. er gert ráð fyrir að slík viðvörun skuli ávallt gerð, sama hver hegðun þess, sem truflar, er.
    2. Skýrt sé kveðið á um að bókað skuli í þingbók ef framburður er tekinn upp á myndband.
    3. Lagt er til að ákærur, fyrirköll, dóma eða úrskurði megi einungis birta þeim sem í hlut á eða lögmanni hans eða öðrum lögráðamanni sem fengið hefur umboð hans í þessu skyni, en ekki á heimili eða dvalarstað. Allt önnur sjónarmið gilda um birtingu stefnu heldur en gilda um birtingu ákæru og mjög varhugavert er að ákæra sé birt með sama hætti og stefna í einkamáli. Þannig gæti langur tími liðið þar til ákærði vissi af birtingu ákærunnar og eins kynni ákæran að vera birt fyrir börnum og öðrum sem ástæða kann að vera til að hlífa við slíku.
    4. Til að taka af allan vafa um að dómsmálaráðherra getur ekki gefið sérstökum saksóknara fyrirmæli

um hvernig hann starfi er lagt til að niðurlag 26. gr. falli brott.
    5. Ef hæstaréttarlögmanni er falið að sækja mál fyrir Hæstarétti í umboði ríkissaksóknara er lagt til að hann verði nefndur saksóknari og beri skyldur sem slíkur. Hins vegar er ekki ætlast til þess að slíkur saksóknari gefi út ákæru þótt ríkissaksóknari geti falið þeim sem gegna embætti saksóknara að gera það.
    6. Brtt. við 59. gr. er einungis orðalagsbreyting.
    7. Nefndin leggur til að tekin verði af öll tvímæli um að sá sem gefi leyfi til hlerunar síma eða fjarskiptatækis sé sá sem hefur umráð og eiginleg not tækisins en ekki sá sem er skráður fyrir símtæki enda fer slíkt ekki alltaf saman.
    8. Fresti ríkissaksóknara til að fella sektargerð lögreglu úr gildi, ef annmarkar eru á, verði breytt þannig að fella verði gerðina úr gildi innan mánaðar frá því að ríkissaksóknara barst vitneskja um hana, enda sé ekki liðið ár frá málalokum. Telur nefndin að síður sé hætta á réttarspjöllum með þessu móti heldur en ef fresturinn væri einungis tveir mánuðir.
    9. Dómara verði falið að meta hve mörg eintök af gögnum máls þurfi að fylgja ákæru.
 10. Fjögurra vikna frestur verði fyrir dómara til að birta ákæru og fyrirkall eftir að ákæra hefur verið gefin út. Er þetta gert til að stuðla að hraðari málsmeðferð opinberra mála, en stundum hefur dregist úr hömlu að birta ákæru sem gefin hefur verið út. Einnig er lagt til að ákærða verði gefinn frestur til að taka ákvörðun um verjanda máls fram að þingfestingu þess.
 11. Skýrt sé kveðið á um hver geti boðið ákærðum að ljúka máli með því að gangast undir sekt sé málið þannig vaxið.
 12. Lagt er til að ákærði og ákærandi tjái sig einungis um þau atriði sem geta verið því til fyrirstöðu að dómur sé lagður á mál ef frávísunarkrafa kemur fram, en ekki verði aðalregla að ákærði tjái sig um þessi atriði án tilefnis áður en dómur er lagður á málið.
 13. Ákærandi hafi heimild til að reka mál, sem höfðað er eftir kröfu þess sem misgert var við, þrátt fyrir að kærandi hafi fallið frá kröfu um málssókn ef ákærandi telur að rétt sé vegna almannahags að halda málinu áfram.
 14. Lagt er til að héraðsdómara verði alltaf stefnt ef gerð er krafa um að hann verði dæmdur í sekt vegna dráttar eða afglapa í máli. Eðlilegt er að dómarinn geti tekið til varna.
 15. Að lokum er lagt til að ákvæði 1. og 3. mgr. 29. gr. frv., um heimildir ríkissaksóknara til að fela öðrum að flytja opinber mál fyrir héraðsdómi og Hæstarétti, verði látnar öðlast gildi nú þegar. Stöðugt eykst sá málafjöldi sem ríkissaksóknari þarf að flytja og því ástæðulaust að bíða í rúmt ár með gildistöku þessarar heimildar. Nú gilda ákvæði 1. mgr. 79. gr. og 181. gr. laga nr. 74/1974 um þetta efni, en þau ákvæði heimila ríkissaksóknara einungis að skipa lögmenn til að flytja mál fyrir héraðsdómi en ekki Hæstarétti. Þá er ríkissaksóknara ekki heimilt að fela lögreglustjórum flutning máls fyrir héraðsdómi.``
    Síðan segir:

    ,,Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.``
    Undir þetta rita allir nefndarmenn.
    Þá eru einnig lagðar til tvær breytingar við frv. á þskj. 696 sem eru ekki beint teknar upp í nál. Það er annars vegar breyting á 133. og og hins vegar 154. gr., en þær fjalla um það að flýta máli frá því að endurrit kemur fram og þangað til ákæra er síðan gefin út. Það má segja að tilefni þessarar brtt. sé það að í svokölluðu Hafskipsmáli leið óeðlilega langur tími frá því að niðurstaða sakadóms lá fyrir þangað til dómsgerðir allar komu inn á borð hins sérstaka ríkissaksóknara. Það sem er verið að gera með þessari brtt. er að stytta þennan frest með það að markmiði að auðvelda og flýta málum í dómskerfinu.
    Ég hef hér gert grein fyrir nál. og þeim brtt. sem nefndin leggur til og í samræmi við það sem ég sagði hér áðan legg ég til að þessar brtt. verði samþykktar og málinu vísað til 3. umr.