Varnir gegn mengun sjávar
Miðvikudaginn 20. febrúar 1991


     Flm. (Margrét Frímannsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 32/1986, um varnir gegn mengun sjávar, sem flutt er af frsm. og hv. þm. Skúla Alexanderssyni. Þar segir í 1. gr.:
    ,,18. gr. laganna orðast svo:
    Umboðsaðilar og fyrirtæki, er annast dreifingu og sölu á olíu, skulu koma upp fullnægjandi búnaði og þjálfa lið til hreinsunar á olíu úr sjó. Hafa skal samráð við viðkomandi sveitarstjórn, hafnaryfirvöld og Siglingamálastofnun ríkisins. Siglingamálastofnun ríkisins skal setja reglur um samræmdan búnað með hagkvæm samnot í huga.
    2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.``
    Í greinargerð segir, með leyfi forseta:
    ,,Frv. þetta er flutt til þess að létta af sveitarfélögum þeirri skyldu sem á þau er lögð skv. 18. gr. laga nr. 32/1986, um varnir gegn mengun sjávar, að þau annist og kosti búnað til að hreinsa olíu úr sjó. Þrátt fyrir ákvæði þetta hefur hreinsibúnaði ekki verið komið upp í höfnum landsins utan Reykjavíkur. Sveitarfélög eða hafnarsjóðir þeirra hafa ekki fjárhagslegt bolmagn til þess að standa undir þeim kostnaði sem þessu fylgir, þrátt fyrir að ríkissjóði beri að greiða hluta af þessum kostnaði.
    Í 16. gr. laga um varnir gegn mengun sjávar segir að ef hætta er á mengun sjávar, sem brýtur gegn ákvæðum laganna, skuli sá sem ber ábyrgð á menguninni gera allt sem í hans valdi stendur til þess að koma í veg fyrir eða draga úr henni. Hann beri einnig ábyrgð á því tjóni sem aðgerðir hans valda öðrum. Í þeim tilvikum sem hætta er á olíumengun á sjó í eða utan hafnarsvæðis er sjaldnast hægt að benda á sveitarfélagið sem mengunarvald eða ábyrgðaraðila á þeim búnaði sem menguninni veldur. Það er því að dómi flutningsmanna eðlilegt að þau fyrirtæki og umboðsaðilar, sem annast sölu og dreifingu á olíu, beri sjálf kostnað af mengunarvarnabúnaði í höfnum landsins og þjálfi lið til að hreinsa olíu sem fer í sjó. Siglingamálastofnun skal samkvæmt frv. setja reglur um samræmdan búnað með hagkvæm samnot í huga og kemur þá að sjálfsögðu til greina að sami búnaður nýtist fleiri en einni höfn. Fullt samráð skal einnig haft við sveitarstjórn og hafnaryfirvöld á hverjum stað.``
    Eins og segir í greinargerð með frv. því sem hér er flutt er hér um að ræða breytingar á lögum um varnir gegn mengun sjávar. Í VII. kafla laga þeirra þar sem fjallað er um viðbúnað vegna mengunaróhappa segir í 18. gr.:
    ,,Sveitarstjórnir skulu skipuleggja viðbúnað, koma upp búnaði og þjálfa lið til hreinsunar á olíu úr sjó í samráði við Siglingamálastofnun ríkisins sem leitast við að samræma búnað einstakra sveitarfélaga með hagkvæm samnot í huga.``
    Við flm. þessa frv., sem ég mæli hér fyrir, leggjum til þá breytingu að í stað þess að sveitarstjórnum sé gert skylt að skipuleggja viðbúnað, koma upp búnaði og þjálfa lið til hreinsunar á olíu úr sjó, þá verði það hutverk umboðsaðila og fyrirtækja sem annast

dreifingu og sölu á olíu. Þessir aðilar skulu þó eðlilega hafa samráð við viðkomandi sveitarstjórnir, hafnaryfirvöld og Siglingamálastofnun ríkisins.
    Það ákvæði 18. gr. núgildandi laga um að Siglingamálastofnun ríkisins skuli setja reglur um samræmdan búnað með hagkvæm samnot í huga er óbreytt í því frv. sem hér er til umræðu. Þetta ákvæði var á sínum tíma sett inn í lögin m.a. til þess að stuðla að því að sveitarstjórnir sameinuðust um það að koma sér upp olíumengunarvarna - og hreinsibúnaði sem nýttist fyrir fleiri en eina höfn. Þetta er hagræðingaratriði því að fullnægjandi búnaður er töluvert dýr og þó að ríkissjóði beri að greiða hluta af þessum kostnaði er staðreyndin sú að fjárhagsleg staða flestra sveitarsjóða og hafnarsjóða á landinu er þannig að verkefni sem þetta reynist þeim ofviða.
    Það má e.t.v. einnig rekja ástæður þess að ekki hefur verið tekið á þessu verkefni, því ekki verið sinnt, að ástand hafnarmannvirkja í landinu er með þeim hætti að það vantar stórar fjárhæðir til framkvæmda bæði frá ríkissjóði og frá sveitar - og hafnarsjóðum. Því verða menn ávallt að forgangsraða verkefnum og það verður að segjast eins og er að það verkefni sem 18. gr. laga um varnir gegn mengun sjávar felur sveitarstjórnum hefur ekki verið sett ofarlega á forgangslista nema í örfáum sveitarfélögum.
    Í 27. gr. laga um varnir gegn mengun sjávar segir:
    ,,Brot gegn lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim varða fésektum, varðhaldi eða fangelsi allt að tveimur árum ef sakir eru miklar.``
    Ekki veit ég hversu mikil sök það er að hafa ekki komið upp olíumengunarvarnabúnaði í höfnum ef mengunarslys verður og enginn búnaður eða þjálfað lið er til staðar til hreinsunar olíu úr sjó. Líklega hefur ekki reynt á það. Í þeim tilvikum sem slík óhöpp hafa átt sér stað hefur góð aðstoð þeirra sem sjá um dreifingu á olíu ávallt verið til staðar. Það er hins vegar staðreynd að sveitarstjórnir eru þeir aðilar sem eiga samkvæmt lögum að sjá um þessi verkefni og því hljóta þær að vera brotlegar ef slys verður og ekki er neinn viðbúnaður til staðar.
    Ég nefndi hér áðan að í þeim tilvikum sem einhver mengunaróhöpp hafa átt sér stað í höfnum, þá hefur ávallt verið til staðar góð aðstoð frá þeim aðilum sem annast dreifingu og sölu á olíu. Meiri líkur eru á að þeir hafi yfir að ráða þekkingu og reynslu sem til þarf þegar olíumengunarslys verða heldur en að sérþekking sé til staðar í hverju sveitarfélagi. Auðvitað hlýtur þó ávallt að verða um að ræða ákveðna samvinnu eða samráð við heimamenn á hverjum stað.
    Að lokum vil ég segja þetta: Í lögum um mengunarvarnir hvers konar og reglugerðum eru það yfirleitt rekstraraðilar og stjórnendur þeirra fyrirtækja sem hugsanlega geta valdið mengun sem er gert skylt að setja upp mengunarvarnabúnað og útbúnað til að mæta hugsanlegum mengunarslysum. Nægir í þeim efnum að minna á umræðu um væntanlegt álver og mengunarútbúnað þess. Það verður því að teljast fullkomlega eðlileg ráðstöfun að þeir aðilar sem sjá um dreifingu og sölu á olíu komi upp búnaði og hafi þjálfað lið til hreinsunar olíu úr sjó ef slík mengunarslys verða.
    Ég legg svo til, virðulegi forseti, að málinu verði vísað að lokinni þessari umræðu til samgn.