Málefni aldraðra
Miðvikudaginn 20. febrúar 1991


     Alexander Stefánsson :
    Herra forseti. Aðeins nokkur orð í sambandi við þær umræður sem hér hafa farið fram. Mér þykir rétt að rifja það upp að við 1. umr. fjárlaga á sl. hausti lýsti ég því yfir að það kæmi ekki til mála að samþykkja fjárlögin miðað við það að fara enn á ný að skerða Framkvæmdasjóð aldraðra og ég mundi beita mér fyrir því í fjvn. að við þessu yrði snúist. Niðurstaðan varð sú að við lokaafgreiðslu fjárlaga fékk sjóðurinn til baka þær 130 millj. sem gert var ráð fyrir að skerða hann um í framsetningu fjárlaga og í lánsfjárlagafrv. Þannig fær sjóðurinn til ráðstöfunar á þessu ári 370 millj. í staðinn fyrir 240.
    Þetta var að mínu mati mikil viðurkenning hjá Alþingi að falla loksins frá þeirri áráttu, sem hefur fylgt í sambandi við lög um þennan sjóð, að láta ríkissjóð hirða hluta hans til annarra nota. Þar af leiðandi var þetta vissulega spor í rétta átt.
    Ekki þarf að ítreka að þessi skerðing verður felld út úr lánsfjárlögum miðað við afgreiðslu fjárlaga við 3. umr. á sl. ári. Það er því ljóst að svo verður í sambandi við þetta mál, annað kemur ekki til greina.
    Það sem hefur komið fram hér í umræðunum að undanförnu er gagnrýni á það að ríkisstjórnin leggur til að í stað þessarar skerðingar þá taki sjóðurinn að sér visst hlutverk í sambandi við rekstur þessara mikilvægu stofnana. Um það má að sjálfsögðu deila. Ég ætla ekki að gera það hér en ég vil bara minna á að það er nauðsynlegt, miðað við breytt viðhorf í þjónustu við aldraða og breytt viðhorf til þess sem þó hefur miðað í sambandi við byggingar til þjónustu við aldraða, að taka sjóðinn til rækilegrar endurskoðunar. Ég mundi telja það þarft verk á næstu missirum að svo verði gert, skilgreina stöðu hans nánar og jafnframt að leggja fram meiri upplýsingar um stöðu þessara mála heldur en liggja fyrir í dag. Ég tek undir það sem hefur komið fram í umræðunum að á þessu er mjög mikil þörf af þeirri einföldu ástæðu að, eins og ég sagði áður, það er orðið nýtt viðhorf til þessara mála og miklu meiri kröfur um ákveðna þætti og liggur fyrir alveg á borðinu að það á eftir að leysa gífurlegt vandamál í sambandi við aldraða, þ.e. hjúkrunarheimili fyrir aldraða, sem að vissu marki hafa orðið út undan en eru núna eitt brýnasta úrlausnarefnið til þess að geta sinnt þessum málum í heild á eðlilegan máta, þannig að ekki þurfi að grípa til þess að dvalarheimili aldraðra, sem nú eru fyrir fólk sem hefur hreyfigetu, verði í vaxandi mæli tekin fyrir hjúkrunarheimili fyrir aldraða. Ég álít að það þurfi að aðskilja.
    Ég tel nauðsynlegt að við áttum okkur á þessu og að Alþingi og stjórnvöld í framhaldi af því skoði þetta mál um hlutverk sjóðsins og stærð hans í náinni framtíð. Það er enginn vafi á því að þess er þörf þó ég leggi áherslu á að sú viðurkenning sem fékkst við afgreiðslu fjárlaga, að hætta skerðingu á þessu lögboðna framlagi, er vissulega spor í rétta átt og ég vona að Alþingi beri gæfu til í framtíðinni að sjá um að til slíkra aðferða í fjármálum ríkisins þurfi ekki að

grípa.