Kosningar til Alþingis
Miðvikudaginn 20. febrúar 1991


     Geir H. Haarde :
    Herra forseti. Ég hefði að vísu kosið að taka til máls á eftir framsögumanni en það er ekki aðalatriðið.
    Hv. allshn. hefur verið svo vinsamleg að taka fullt tillit til þeirrar brtt. sem ég hef flutt og sé ég því ekki ástæðu til þess að halda þeirri tillögu til streitu og er hún hér með dregin til baka. En það er rétt að láta þess getið að sú tillaga varðar lágmarksfjölda meðmælenda við hvern framboðslista í kjördæmi við kosningar til Alþingis. Það er lagt til að í staðinn fyrir að sú lágmarkstala sé tíföld tala þingmanna í hverju kjördæmi skuli koma tuttugföld tala. Hv. allshn. hefur fallist á þetta en jafnframt hækkað hámark meðmælendafjölda í þrítugfalda tölu þingmanna. Ég taldi að vísu óþarft að vera með eitthvert sérstakt hámark. Menn gætu lagt fram eins marga meðmælendur og þeim sýndist, en það er auðvitað ekkert aðalatriði. Ég hef fallist á þessa tillögu og vil þakka nefndinni fyrir vinsamlega umfjöllun um mína brtt. sem hér með er tekin aftur.