Meðferð opinberra mála
Miðvikudaginn 20. febrúar 1991


     Flm. (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Það mun raunar ekki gefast langur tími vegna þessa máls til að doka eftir ráðherrum og vil ég taka það fram í upphafi. Ég mæli hér fyrir 318. máli á þskj. 563 um breytingar á lögum nr. 74/1974, um meðferð opinberra mála, með síðari breytingum. Flm. auk mín eru þingkonurnar Kristín Einarsdóttir, Málmfríður Sigurðardóttir og Sigrún Helgadóttir.
    Sú breyting sem hér er lagt til að gerð verði á þessum lögum er í sjálfu sér mjög einföld í sniðum. Í 1. gr. frv. er lagt til að 5. mgr. 40. gr. laganna orðist svo:
    ,,Nú skal spyrja barn yngra en 16 ára og skal þá tilkynna það barnaverndarnefnd. Getur nefndin sent fulltrúa sinn til að vera við yfirheyrslurnar. Einnig skal tilkynna foreldri eða forráðamönnum barnsins um yfirheyrslurnar svo fremi að grunur leiki ekki á að þau tengist málinu.``
    Um 2. gr. þarf ég ekki að hafa mörg orð: ,,Lög þessi öðlast þegar gildi.``
    Þetta mál er nú endurflutt frá síðasta þingi og þá rakti ég hér grg. þess en langar að stikla á stóru um tildrög málsins. Í grg. er vakin athygli á því að börn geta verið mikilvæg vitni í opinberum málum og það mun gerast að þau eru kölluð til þess að vera vitni. Þá er leitað eftir því að fulltrúi barnaverndarnefndar sé viðstaddur. Þetta er að sjálfsögðu mjög nauðsynlegt og ekki verið að gera athugasemd við það. Hins vegar er lagt til í þessu frv. að það sé skylda að tilkynna barnaverndarnefnd ef barn er kallað til yfirheyrslu. En það sem kannski er stærsta breytingin með þessu frv. er að lagt er til að skylt sé að tilkynna foreldri eða forráðamanni ef barn er tekið til yfirheyrslu hjá lögreglu.
    Þetta er mjög mikilsvert mál því að börn eru að sjálfsögðu mjög viðkvæm og það að vera kallaður til yfirheyrslu hjá lögreglu getur haft mikil áhrif á þau. Mér finnst að þetta sé í fullu samræmi við þá stefnu sem er í ýmissi lagasetningu eða frumvörpum um vernd barna og unglinga m.a. og því nauðsynlegt að þetta ákvæði komi inn í lög um meðferð opinberra mála.
    Nú er það ljóst að í Ed. er verið að fjalla um frv.
til laga um meðferð opinberra mála og það eru lög sem ætlast er til að komi í staðinn fyrir þau lög sem hér er lagt til að verði breytt í þessa veru. Það er ljóst að verði það frv. að lögum, sem þar er til umræðu, þá eru engin ákvæði af þessu tagi og verður þá að finna þessum mikilsverðu ákvæðum stað á einhverjum öðrum stað. Það mun raunar vera í takt við þær tillögur sem hafa verið til umræðu um vernd barna og unglinga og mun ég ekki fjölyrða um það frv., enda er það annað mál. Verði hins vegar það frv. ekki að lögum á þessu þingi, frv. til laga um meðferð opinberra mála sem er á þskj. 101, er nauðsynlegt að fylgja eftir þeirri breytingu sem ég legg hér til. Og það er nauðsynlegt við afgreiðslu á þeim lögum að gæta að því hvar þau ákvæði, sem ekki eru í því frv. sem á

að leysa það af hólmi, komast fyrir. Ég varpa þessu hér fram til athugunar í nefnd og vænti þess að efni þessa frv. komist á réttan stað innan kerfisins þegar verið er að gera mikilsverðar breytingar og legg til að lokinni þessari umræðu að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn. og vonast til þess að hún gefi þessum atriðum gaum sem ég vakti hér athygli á.