Raðsmíðaskip
Fimmtudaginn 21. febrúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds) :
    Virðulegi forseti. Búið var að svara sumum af þeim spurningum sem ég hafði lagt fram á þskj. 541 en öðrum var ósvarað. Á það sérstaklega við þriðju spurninguna um raðsmíðaskipin sem Ríkisábyrgðasjóður seldi á árinu 1987 en hún fjallar um það á hvaða verði Ríkisábyrgðasjóður hafi selt skipin. Síðan var spurt að því hvert væri söluverðið á núvirði og einnig hvert er áætlað söluverð skipanna í dag ef ekki er meðtalinn sá fiskveiðikvóti sem fluttur hefur verið á skipin. Spurt var hve miklar skuldir hvíla á skipunum hjá Ríkisábyrgðasjóði. Og loks var spurt hvernig og hvenær ríkisstjórnin hyggst koma þessu máli á hreint þannig að skipin fái viðunandi rekstrargrundvöll og unnt verði að gefa út afsöl.