Raðsmíðaskip
Fimmtudaginn 21. febrúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir svör hans. Ég ítreka það sem ég sagði þegar fyrri liðir þessarar fsp. voru hér til umræðu, að það er ljóst að kvóti þessara skipa hefur verið mjög skertur og þegar rekstrargrundvöllur þeirra er skoðaður er ljóst að hann er ákaflega tæpur, að ekki sé meira sagt. Ég ítreka líka það sem ég sagði þegar ég ræddi þetta mál við hæstv. sjútvrh., að þegar þessi skip voru auglýst var sérstaklega tekið fram að þau mundu fá veiðiheimildir sambærilegra skipa. Vegna þess að sú auglýsing var gefin út af handhafa ríkisvaldsins, þó að sjútvrh. ætti ekki þar í hlut, má segja að þar hafi verið um að ræða bindandi loforð ríkisstjórnarinnar, ríkisvaldsins um að svo yrði gert. En við þetta hefur ekki verið staðið og ég er með fsp. að vekja athygli á því að í raun og veru eru brostnar forsendur fyrir þeim kaupum sem gerð voru á sínum tíma nema til komi einhver leiðrétting annaðhvort á kaupverðinu eða þá á kvóta sem þessi skip hafa fengið.
    Ég vil svo að endingu skora á hæstv. fjmrh. að ganga í það að koma málefnum þessara skipa á hreint, og á báða ráðherrana að sýna þessu máli velvild og skilning í samræmi við efni máls.