Heilbrigðiseftirlitsgjald
Fimmtudaginn 21. febrúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Jón Sæmundur Sigurjónsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka ítarleg svör hæstv. heilbrrh. Ég geri mér auðvitað grein fyrir því að það væri heilmikill lestur að gera grein fyrir öllum þeim gjöldum sem þarna ríkja. Það eru þó enn þá spurningar sem eru svífandi í mínum huga jafnvel þó að þessi málaflokkur sé að einhverju leyti kominn yfir í annað ráðuneyti. Er það álit ráðherra að það geti verið eðlilegt að þessi mismunur í gjaldtöku sé ríkjandi milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis? Telur hann það hvetjandi fyrir iðnfyrirtæki á landsbyggðinni að liggja m.a. undir slíkum gjöldum meðan iðnfyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu sleppa við þau? Getur það líka verið eðlilegt að gjaldið sé mjög mismunandi milli svæða? Það var eiginlega það fyrst og fremst sem ég vildi fá fram með seinni spurningu minni um hver gjöldin væru. En mér er kunnugt um að þau eru mjög mismunandi þannig að eitt svæði greiðir undir 20 þús. kr. og annað yfir 30 þús. kr. Það eru kannski ekki mjög háar upphæðir en engu að síður er þarna um mismunun að ræða. Og kannski þriðja spurningin: Væri ekki ástæða til að ráða bót á þeim mismun sem þarna ríkir?