Viðlagatrygging Íslands
Fimmtudaginn 21. febrúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Pálmi Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir afar greinileg og góð svör við fyrirspurnum mínum. Það kemur í ljós, sem er allt gott um að segja, að staða Viðlagatryggingar er traust, fjárhagur hennar er tiltölulega rúmur, eiginfjárstaðan er yfir 3 milljarða kr. og hreinar tekjur á síðasta ári voru 417 millj. kr. Þetta er vitaskuld mikilvægt, enda er það vitað mál að iðgjöld til Viðlagatryggingar eru býsna há. Meðan t.d. Bjargráðasjóður var og hét með meiri starfsemi en hefur verið á síðustu árum þá var það tíðkanlegt í sveitum þar sem ég þekki til að iðgjald frá einum bónda til Viðlagatryggingar var hærra en sveitarfélagsins í heild til Bjargráðasjóðs og var þó Bjargráðasjóður sá sjóður sem menn leituðu gjarnan til í nauðum þegar áföll urðu.
    Ég tel að það sé ástæða til að taka undir það sem fram kom hjá hv. 2. þm. Vestf. að það sé eðlilegt að taka verksvið Viðlagatryggingar til endurskoðunar, enda hefur hæstv. ráðherra lýst því yfir að sú vinna sé hafin. Það er nú svo að tjón vegna fárviðris er sama eðlis og tjón vegna náttúruhamfara. Veður getur orðið það strítt á Íslandi að það nálgist að vera náttúruhamfarir. Og þó að það mælist kannski ekki á hinum venjulegu veðurathugunarstöðvum þá eru víða annars staðar þær aðstæður að veðrin verða slík að það er nánst ekkert sem stendur fyrir. Þess vegna er ástæða til að huga mjög að því hvort ekki sé ástæða til að fella undir verksvið Viðlagatryggingar Íslands að takast á við að bæta tjón af slíkum orsökum og mæli ég með því við hæstv. ráðherra að að því verði hugað í þeirri endurskoðun sem nú fer fram.