Ríkisreikningur 1989
Fimmtudaginn 21. febrúar 1991


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þakka hv. þm. fyrir langvarandi áhuga hans á ríkisreikningi og kerfisbreytingum í meðferð ríkisfjármála. Það eru nú satt að segja ekki mjög margir þingmenn í þingsölum sem hafa haft jafn staðfastan áhuga á þeim málum og hv. þm. ef frá eru taldir þeir þingmenn sem sitja í fjvn.
    Ástæður þess að ríkisreikningur fyrir árið 1989 liggur ekki fyrir eru í meginatriðum þær að um árabil hefur það tíðkast, en jafnframt verið á það bent, að í ríkisreikningi eru ekki taldar allar þær skuldbindingar sem ríkissjóður hefur tekið á sig. Þess vegna ákvað ég á miðju síðasta ári að vísa því máli til ríkisreikningsnefndar til meðferðar. Ríkisreikningsnefnd lagði til að rétt væri að vinna öll bókhaldsgögn þannig að ríkisreikningurinn fyrir árið 1989 sýndi eins vel og unnt er allar, og ég legg áherslu á það, allar skuldbindingar sem á ríkissjóði hvíla. Til álita kom að þessi breyting tæki til ársins 1990, en af ýmsum ástæðum, þar á meðal vegna ábendinga frá ríkisbókhaldi og Ríkisendurskoðun, taldi ríkisreikningsnefnd rétt að miða uppgjörsbreytingarnar við árið 1989.
    Í ljósi þessa ákvað ég að unnið yrði yfirlit um allar skuldbindingar sem á ríkissjóði hvíla. Hér er hins vegar um allmikla nýbreytni að ræða og vona ég að fyrirspyrjandi og allir hv. þm. geri sér grein fyrir því að þetta er umfangsmikið verkefni að gera þessu jafnnákvæm og glögg skil og nauðsynlegt er, ef allar skuldbindingarnar eru tíundaðar í ríkisreikningnum.
    Í þessu sambandi vil ég sérstaklega nefna tvennt. Í fyrsta lagi munu koma til gjalda í ríkisreikningi fyrir árið 1989 skuldbindingar sem hafa hlaðist upp á mörgum árum og jafnvel áratugum. Þegar kerfisbreytingin er aftur á móti komin á munu einungis bætast við hvert ár þær viðbótarskuldbindingar sem til verða á viðkomandi ári. Heildarniðurstöðutölur gjalda og tekna verða af þessum sökum mjög afbrigðilegar og ómarktækar um stöðu og afkomu ríkissjóðs það tiltekna ár sem hér um ræðir.
    Í öðru lagi, sem er meginatriði málsins, hefur það tekið lengri tíma en ætlað var í upphafi að vinna yfirlit um skuldbindingar ríkissjóðs mörg ár aftur í tímann vegna þess m.a. að undir verkstjórn fyrirrennara minna í fjmrn. var þessu ekki haldið til haga. Þess vegna hefur orðið að fara mjög rækilega ofan í allt þetta mál og ég vil hér aðeins nefna nokkur dæmi til þess að sýna mönnum hve umfangsmikið verkið er.
    Þar er í fyrsta lagi um að ræða allar langtímaskuldbindingar Lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna. Þar er í öðru lagi um að ræða allar skuldir við sveitarfélög. Þar er um að ræða kröfur vegna óuppgerðra vegaframkvæmda, þar er um að ræða skuldbindingar vegna ýmissa samninga við atvinnuvegi eins og t.d. vegna riðuniðurskurðar og skuldbreytingar vegna ógreiddra en áfallinna vaxta af skuldum ríkissjóðs.
    Það hefur tekist á síðustu mánuðum að vinna yfirlit yfir alla þessa þætti nema skuldbindingar Lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna. Það hefur hins vegar verið afstaða mín að það gæfi ekki rétta mynd að

leggja ríkisreikninginn fram með þeim hætti sem ég hef hér lýst án þess að þær væru með. Þær eru ein veigamesta langtímaskuldbindingin af hálfu ríkissjóðs. Þess vegna væri nauðsynlegt að í þessu nýja heildaryfirliti væru skuldbindingar Lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna einnig með.
    Ég vona að ekki síðar en í lok næsta mánaðar eða í allra síðasta lagi í aprílmánuði muni þessu verki verða lokið og þá verði hægt að loka ríkisreikningnum á þessum nýja grundvelli og þar með hafa staðfest þá veigamiklu kerfisbreytingu sem felst í því að reiða fram allar langtímaskuldbindingar ríkissjóðs.