Ríkisreikningur 1989
Fimmtudaginn 21. febrúar 1991


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil nú biðja menn að fara ekki að ræða þetta mál hér sem eitthvert hefðbundið skæklatog í pólitík. Hér er verið að koma á mjög víðtækri og tímafrekri kerfisbreytingu. Hér er verið að fara yfir allar skuldbindingar ríkissjóðs af hverju tagi sem eru og fella þær allar saman í einn ríkisreikning. Það er verk, eins og ég hef getið hér um, sem hefur ekki verið unnið í áratugi. Ég bið virðulega þingmenn að hafa skilning á því að það tekur lengri tíma en bara fáeinar vikur eða jafnvel örfáa mánuði. Það sem hefur gert þetta verk erfiðara er að færa upp allar skuldbindingar ríkisins vegna Lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna. Verkið væri bara hálfkarað ef ríkisreikningurinn væri lagður fram án þess að það sé gert upp. Og þeir þingmenn sem hér með réttu hafa gert kröfu til þess að þetta sé gert á þeim grundvelli að öllum langtímaskuldbindingum séu gerð skil hljóta að hafa skilning á því að verkið væri bara hálfkarað ef stærsta skuldbindingin væri þar ekki með, skuldbindingin vegna Lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna. Og það er tæknilega flókið og mjög tímafrekt verk. Jafnframt vek ég athygli á því að skuldbindingar vegna samninga við atvinnuvegi og vegna samninga við sveitarfélög hafa líka tekið langan tíma.
    Hinu vil ég svo mótmæla sem fram kemur hjá hv. þm. Kristni Péturssyni að bókhald ríkisins hafi verið falsað. Ég ætla ekki að standa hér í þingsölum og halda því fram að hæstv. fjmrh., núv. þm. Þorsteinn Pálsson og hæstv. fyrrv. fjmrh. Albert Guðmundsson eða hæstv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson hafi falsað ríkisbókhaldið. Mér finnst satt að segja slík ummæli ekki þjóna neinum tilgangi. Það vita allir að hér er um mismunandi aðferðir í reikningsskilum að ræða. Fagmenn hafa haft mismunandi skoðanir á því hvaða leiðir eigi að fara í þessum efnum. Þeir eiga fullan rétt á þeim skoðunum. Ég tók hins vegar þá ákvörðun um mitt ár í fyrra að fara inn á þessar nýju brautir. Ég gerði það ekki á þeim grundvelli að fyrirrennarar mínir hefðu falsað ríkisbókhaldið. Ég bið menn að misskilja ekki ákvörðun mína um kerfisbreytingu á þann veg að hv. þm. Kristinn Pétursson ætli að fara að leggja út af því hér
að fyrri fjmrh. hafi falsað ríkisbókhaldið. Það var ekki tilgangur minn með því að ákveða þessa kerfisbreytingu að fara að koma slíkum sökum yfir á fyrirrennara mína og ég tek ekki þátt í því. Ég tek það alveg skýrt fram ef umræðan á að vera á þessum grundvelli. Hins vegar taldi ég nauðsynlegt að framkvæma þessa kerfisbreytingu líkt og ég hef beitt mér fyrir margvíslegum öðrum kerfisbreytingum í meðferð ríkisfjármála á þeim rúmum tveimur árum sem ég hef gegnt þessu embætti vegna þess að ég taldi þær kerfisbreytingar vera nauðsynlegar en ekki vegna þess að ég væri að koma einhverju sérstöku höggi á fyrirrennara mína. Þess vegna á ég dálítið bágt með að skilja að þessi uppfærsla ríkisreikningsins geti verið tilefni til þess að menn fari í flokkspólitískt skæklatog í málinu. Ég vona að við getum öll sameinast um

það að þetta verk verði þá unnið fullkomlega fyrst á annað borð var ákveðið að stíga þetta veigamikla skref.