Heildarkostnaður Blönduvirkjunar
Fimmtudaginn 21. febrúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Stefán Valgeirsson) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 620 hef ég leyft mér að koma með fsp. til hæstv. iðnrh. um heildarkostnað Blönduvirkjunar. Þar á ég auðvitað við eftir áætlun um hvað er eftir.
 ,,1. Hver er heildarkostnaður nú orðinn við byggingu Blönduvirkjunar?
    2. Hver er áætlaður kostnaður við að ljúka virkjuninni?
    3. Hver var kostnaðaráætlun Blönduvirkjunar þegar ákvörðun um hana var tekin?``
    Ástæðan fyrir þessari fyrirspurn var sú að ég man ekki betur heldur en á þeim tíma hafi verið rætt um það að Blönduvirkjun væri ódýrasta virkjunin sem hefði verið könnuð og dálítið ódýrari heldur en Austurlandsvirkjun.
    Nú hefur heyrst í fjölmiðlum að kostnaður við Blönduvirkjun sé orðinn það hár að það líti út fyrir að orkuverðið t.d. til stóriðju þurfi að vera a.m.k. 29 mill ef þetta á að standa undir sér. Það er auðvitað nauðsynlegt í ljósi þess að fá hér upplýsingar um hvað er satt í þessu efni og ræða áframhald annarra virkjana út frá þessari reynslu.