Heildarkostnaður Blönduvirkjunar
Fimmtudaginn 21. febrúar 1991


     Pálmi Jónsson :
    Virðulegi forseti. Ég tel að hér hafi komið fram mjög gagnlegar upplýsingar frá hæstv. iðnrh. sem staðfesta að kostnaður við virkjun Blöndu er mjög nálægt því sem áætlanir sögðu til um. Þær tölur sem hæstv. ráðherra gaf hér upp varðandi bætur til landeigenda, sem svo er kallað, eru eftir því sem ég best veit reiknaðar býsna rúmt. Inni í þeim lið hefur virkjunaraðili reiknað vegagerð, sem nauðsynleg er vegna virkjunarinnar sjálfrar, færslu á gangnamannahúsum sem fara undir vatn og það verða vitaskuld virkjunaraðilar að endurgreiða, girðingar vegna breytinga á vörslu, sem verða vegna virkjunarframkvæmda, kaup á landi vegna virkjunarinnar sjálfrar, sem allt er nauðsynlegt vegna virkjunarinnar og þeirra framkvæmda sem eru í gangi en eiga ekki að réttu lagi að teljast bætur til landeigenda.