Kostnaðaráætlun Fljótsdalsvirkjunar
Fimmtudaginn 21. febrúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Stefán Valgeirsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör. Fyrri talan er við það að vera það sem ég hef heyrt, bæði frá Landsvirkjun og annars staðar, en seinni talan, ef rétt er haft eftir, er verulega lægri heldur en þeir sem voru á þessum fundi tjá mér. Nú vil ég ekki rengja ráðherrann um að þetta sé rétt tala en þetta vil ég að komi fram.
    Nú lá það í orðum hæstv. ráðherra áðan þegar við ræddum um fyrri fyrirspurnina að líklegt væri að orkan mundi kosta 22 -- 23 mill frá Blönduvirkjun. Mér sýnist að miðað við þessar tölur og miðað við þær tölur sem voru ræddar í upphafi, eða þegar var ákveðið með Blönduvirkjun, þá sé þetta eitthvað hærra, ég vil ekki segja hvað hærra. Ég tel því rétt að skoða þessi mál betur miðað við þær tölur sem maður er að heyra að sé verið að miða við í samningum um sölu á orkunni. Því að hæstv. ráðherra hefur hvað eftir annað sagt að það kæmi auðvitað ekki til mála, sem er rétt, að það væri farið að gera samninga á þann veg að íslenska þjóðin hefði bagga af slíkum samningi.