Vetnisframleiðsla
Fimmtudaginn 21. febrúar 1991


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Frú forseti. Ég harma það að hv. 6. þm. Norðurl. e. skuli taka því illa þegar loksins, loksins er eitthvað verið að gera sem áþreifanlegt er í okkar sameiginlega áhugamáli, að kanna til botns hverjir kostir séu á því að framleiða vetni með íslenskri raforku.
    Sannleikurinn er auðvitað sá að það er í fyrsta sinn að á þessu ári er veruleg fjárveiting á fjárlögum til að vinna að þessu verki og til að nýta hana sem best hef ég kvatt til þessa ágætu menn og konur sem ég hef skipað í þennan ráðgjafarhóp, reyndar í samráði við Háskóla Íslands.
    Ég vildi leyfa mér, virðulegi forseti, að lesa upp nöfn þeirra sem munu sitja í þessum hópi, en þau eru Geir Gunnlaugsson framkvæmdastjóri, formaður, doktor í verkfræði, Ágúst Valfells verkfræðingur, líka doktor, Páll Kr. Pálsson, forstjóri Iðntæknistofnunar, Runólfur Þórðarson, verksmiðjustjóri Áburðarverksmiðjunnar, sem hefur að sjálfsögðu verið vetnisframleiðandi hér á landi um árabil, Sigurbjörg Sæmundsdóttir, deildarsérfræðingur í umhvrn., og dr. Þorsteinn Sigfússon, prófessor við Háskóla Íslands, sem hefur unnið mikið að þessum málum að undanförnu.
    Með þessu er ekki á nokkurn hátt varpað rýrð á Braga Árnason eða hans mikla starf að rannsóknum á þessu sviði, því fer víðs fjarri. Og við hann og hans starf verður að sjálfsögðu haft náið samráð. Ég þarf ekki að taka það fram að þessum ráðgjafarhópi er ekki ætlað fyrst og fremst að fjalla um vísindastörfin heldur á hann að tengja saman hlutina og koma fram fyrir landsins hönd í viðræðum við erlenda aðila. Og ég endurtek það sem ég sagði hér áðan að frumkvæðið að þessum samskiptum við Vetnisfélagið þýska og við Evrópubandalagið er frá iðnrn. í þetta sinn. Hvort sem hv. 6. þm. Norðurl. e. líkar það betur eða verr er þetta sannleikurinn í málinu.