Drauganet
Fimmtudaginn 21. febrúar 1991


     Umhverfisráðherra (Júlíus Sólnes) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir þessa fsp. sem ég held að sé mjög tímabær. Hér er hreyft mjög alvarlegu máli. Ég er mjög sammála fyrirspyrjanda að hér er um erfitt og vandræðalegt mál að ræða. Það er enginn vafi á því að svokölluð drauganet valda umtalsverðri mengun í sjó og það er alveg hárrétt sem kom fram í máli fyrirspyrjanda að sú hætta er fyrir hendi að drauganet haldi áfram að fiska og því er nauðsynlegt að hreyfa við þessu máli.
    Af hálfu umhvrn. verð ég að játa það að við höfum ekki enn þá haft tækifæri til að sinna þessu máli sérstaklega. Við höfðum samband við siglingamálastjóra sem benti okkur á ákvæði reglugerðar um netaveiðar þar sem kemur fram í 12. gr. að týni skip þorskfisknetum í sjó ber skipstjóra að reyna að slæða þau upp. Takist það ekki skal hann tilkynna það Landhelgisgæslunni og skýra frá staðsetningu netanna eins nákvæmlega og unnt er.
    Við höfðum enn fremur samband við Landhelgisgæsluna og fengum upplýsingar um hvernig Landhelgisgæslan hefur staðið að því að slæða upp svokölluð drauganet. Helgi Hallvarðsson skipherra útvegaði okkur góðfúslega þær upplýsingar að Landhelgisgæslan reynir að sjálfsögðu eftir föngum að tína upp þessi drauganet. En það er ljóst, eins og kemur fram í upplýsingum frá Helga Hallvarðssyni, að hún kemst ekki yfir nema kannski smávægilegt brot af því sem um er að ræða, enda berast henni einfaldlega ekki tilkynningar um þau net sem hafa tapast nema í litlum mæli.
    Landhelgisgæslan leggur til og telur æskilegt að starfrækt væri sérstakt skip sem hefði eingöngu það verkefni að leita uppi drauganet og slæða þau upp í kringum landið. Ég mundi því telja skynsamlegt að þetta mál verði rannsakað sérstaklega og mun beita mér fyrir því að skipuð verði samráðsnefnd þeirra aðila sem þetta mál varðar, þ.e. við mundum fyrir hönd okkar gegnum Siglingamálastofnun vilja stuðla að því að slíkt samráð eigi sér stað með fulltrúum sjútvrn. og Landhelgisgæslu um hvernig megi taka á þessu máli.
    Að lokum langar mig til að víkja aðeins að því að það er ekki bara hér við Íslandsstrendur og á Íslandsmiðum sem menn hafa áhyggjur af drauganetum heldur er þetta vandamál um allan heim. Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hafa menn reynt að finna leiðir til þess að koma í veg fyrir drauganet sem eru vandamál mjög víða í heiminum. M.a. er á vettvangi Sameinuðu þjóðanna unnið að samkomulagi um að reknetaveiðar verði alfarið bannaðar hvar sem er í heiminum.